Ábyrgð sveitarfélaga mikil

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra.
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra. mbl.is/Eggert

Ábyrgð sveitarfélaganna er mikil þegar kemur að því að tryggja nægt framboð á húsnæðismarkaði. Þau mega ekki láta það koma sér á óvart þegar stórir árgangar ungs fólks koma inn á markaðinn, enda er á því áratuga fyrirvari. Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, í samtali við mbl.is.

Settur var á fót í lok febrúar sérstakur aðgerðahópur á vegum fjögurra ráðherra, sem gera á tillögur um samræmdar aðgerðir á sviði húsnæðismála til að greiða fyrir byggingu lítilla og hagkvæmra íbúða.

Auk Þorsteins eru í hópnum ráðherrar fjármála- og efnahags, umhverfismála og samgöngumála.

Ekki hægt að kasta boltanum til nágranna

„Þegar maður horfir á þær aðgerðir sem við erum að ræða í þessum ráðherrahópi, þá held ég að í fyrsta lagi snúi þetta að bættri áætlanagerð sveitarfélaganna, hver er vænt eftirspurn eftir húsnæði og hvernig parast það saman við það framboð eða þær framkvæmdaáætlanir sem sveitarfélögin eru með, þegar kemur að íbúðahúsnæði,“ segir Þorsteinn.

„Það mikilvægasta í þessu er ábyrgð sveitarfélaganna, að tryggja nægt framboð og að þau nálgist það viðfangsefni sameiginlega á höfuðborgarsvæðinu og þar sem fjölmenn íbúðasvæði eru innan fleiri en eins sveitarfélags þá skiptir það máli að sveitarfélögin vinni saman.

Þau geta ekki kastað boltanum yfir til nágranna sinna og sagt að það sé á þeirra ábyrgð að mæta eftirspurninni.“

Eftirspurn er langt umfram framboð á húsnæðismarkaði.
Eftirspurn er langt umfram framboð á húsnæðismarkaði. mbl.is/Sigurður Bogi

Hægt að greina betur væntanlega eftirspurn

Þorsteinn segir það gefa augaleið, að á höfuðborgarsvæðinu þurfi að byggja 1.500 til 2.000 íbúðir á ári, og þegar sé til staðar uppsafnaður vandi upp á 2-3 þúsund íbúðir að mati Íbúðalánasjóðs, til viðbótar við árlega byggingaþörf.

„Þennan vanda verða sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að leysa sameiginlega og þetta getum við tekið betur utan um með betri greiningu á væntanlegri eftirspurn, betri samantekt á gögnum yfir framkvæmdir og þær lóðir sem eru að koma til bygginga frá hverju sveitarfélagi fyrir sig, og svo auðvitað út frá sameiginlegum húsnæðisáætlunum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Þorsteinn.

„Þetta er það sem heyrir undir mitt ráðuneyti og við erum að skoða hvernig við getum styrkt enn frekar.“

Tímabært að einfalda skipulagslöggjöfina

Þá segir hann stóraukna áherslu hafa verið lagða á þéttingarverkefni á undanförnum árum, sem séu tímafrek og erfið.

„Það er orðið tímabært að einfalda skipulagslöggjöfina hjá okkur til að reyna að hraða þeim í framkvæmd. Þetta eru verkefni sem taka oft fleiri, fleiri ár og þegar 90% af áformuðum lóðum borgarinnar eru á þéttingarreitum þá skiptir mjög miklu máli að þau gangi hratt og snurðulaust fyrir sig.“

Greina þurfi kjarnann frá hisminu með skýrum hætti, hvað það sé í ferlinu sem sé nauðsynlegt og hvað megi missa sín eða einfalda verulega.

„Með svipuðum augum þurfum við að skoða byggingarreglugerðina sjálfa, hvernig getum við auðveldað byggingu lítilla og hagkvæmra íbúða án þess að fórna þeim markmiðum sem sett hafa verið varðandi algilda hönnun, til að bæta stöðu fatlaðra.“

Þorsteinn segir að taka muni nokkurn tíma að vinna bug …
Þorsteinn segir að taka muni nokkurn tíma að vinna bug á vandanum. mbl.is/Sigurður Bogi

Þvert á það sem þarf að gerast

Þorsteinn segir þá að svo virðist sem núverandi fyrirkomulag í verðlagningu á lóðum ýti undir byggingu stærri íbúða.

„Það er augljóst þegar við skoðum þróun nýbygginga á undanförnum árum, að meðalstærð þeirra er alltaf að aukast. Aðeins um 30% þeirra nýju íbúða sem komu inn á markaðinn á siðasta ári voru minni en hundrað fermetrar, í samanburði við 50% fyrir um átta árum síðan.

Það er mjög slæm þróun og þvert á það sem við erum að tala um að þurfi að gerast hérna, til að auðvelda ungu fólki að komast inn á markaðinn.“

Spurður um það hvenær hann telji að hilla fari undir lokin á þeirri húsnæðiskrísu sem nú ríkir, segir Þorsteinn að eðli máls samkvæmt muni það taka nokkurn tíma að vinna bug á vandanum og tryggja nægt framboð íbúða.

Tillögur til úrbóta á næstu vikum

„Þess vegna er svo mikilvægt að sveitarfélögin séu tímanlega með áætlanir sínar og láti ekki þá stöðu sem nú er uppi koma sér í opna skjöldu, eins og þó virðist vera raunin.

Það má segja að það sé 25 ára aðdragandi, eða þar um bil, þegar stórir árgangar eru að koma inn á fasteignamarkaðinn eins og nú er, og það er einmitt búið að tala um það innan byggingageirans undanfarin tíu til fimmtán ár, að þessir árgangar sem nú eru að koma séu óvenjustórir.

Það er slæmt þegar við lendum í svona framboðsskorti og það getur tekið einhvern tíma að vinda ofan af honum. Því viljum við klára þessa vinnu hratt og örugglega og koma með tillögur til úrbóta á næstu vikum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert