Íslensk norðurljósamynd vekur athygli

Kerið sést fyrir miðju myndar.
Kerið sést fyrir miðju myndar. Ljósmynd/Sigurður William Brynjarsson

Ljósmynd af litríkum norðurljósum yfir Kerinu á Suðurlandi hefur verið valin mynd dagsins á stjörnufræðivef Geimferðastofnunar Bandaríkjanna, NASA. Þá nýtur myndin gífurlegra vinsælda á einum stærsta samfélagsmiðli heims, Reddit.

Myndina tók Sigurður William Brynjarsson, en í samtali við mbl.is segir hann að endanlegu myndinni hafi verið púslað saman úr nokkrum myndum, sem teknar voru á um tveggja til þriggja mínútna tímabili.

„Við vorum þarna með hóp fólks,“ segir Sigurður, sem rekur fyrirtækið Arctic Shots sem skipuleggur sérstakar ljósmyndaferðir fyrir ferðamenn.

„Svo þegar ég sá hvað í stefndi þá kom ég mér fyrir og tók sjálfur tólf til þrettán myndir, sem saman mynda þessa.“

Margir keppa um mynd dagsins

Sigurður segir að í því felist töluverður heiður fyrir ljósmyndara að fá mynd birta á umræddum vef NASA, enda keppi margir að því. Þetta sé þá hans fyrsta skipti.

NASA bað Sigurð um skýringar með myndinni og leitaði hann því til Sævars Helga Bragasonar, ritstjóra hins íslenska Stjörnufræðivefs.

„Hann var ekki lengi að hrista þetta fram úr erminni, enda varla til fróðari maður hér á landi í þessum efnum.“

Skýringarnar með myndinni má sjá hér að neðan og sömuleiðis á vef NASA.

Myndin á vef NASA

Myndin á Reddit

Ljósmyndin með skýringum Sævars Helga.
Ljósmyndin með skýringum Sævars Helga.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert