Ríkið skildi unga fólkið eftir

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Golli

„Í mínum huga þá hefur ungt fólk, sérstaklega það sem er að reyna að kaupa sér húsnæði – það hefur algjörlega verið skilið eftir.“ Þetta segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur í samtali við mbl.is. Segir hann ríkið hafa þrengt að möguleikum ungs fólks á húsnæðismarkaði undanfarin ár og telur upp dæmi þess efnis.

Nefnir hann meðal annars leiðréttinguna svokölluðu, úrræði sem ríkisstjórnin kynnti árið 2014 og laut að niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána.

„Leiðréttingin, sem rann til þeirra  sem skulduðu áður, ýtti undir hækkanir á markaðnum,“ segir Dagur. Bendir hann þá á að búið sé að setja lög um fjármálastofnanir og lánastarfsemi, sem þrengi heimildir til að lána fólki.

„Þannig þú þarft að vera með meiri pening í vasanum til að geta fengið lán. Og ekki síst má nefna það að í kjölfar leiðréttingarinnar hafa vaxtabætur, sem hafa einmitt nýst því fólki sem er að koma nýtt inn á markaðinn, verið skornar niður verulega.

Það er því ljóst að mjög margt af því sem ríkið er búið að vera að gera á undanförnum árum hefur þrengt að möguleikum ungs fólks á húsnæðismarkaði, því miður.“

Margir reitir liggja lausir í samþykktu deiliskipulagi.
Margir reitir liggja lausir í samþykktu deiliskipulagi. mbl.is/Eggert

Borgin sá fyrir mikla eftirspurn

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, sagði í samtali við mbl.is í gær að sveitarfélög hefðu mátt sjá fyrir þá miklu eftirspurn sem nú einkennir húsnæðismarkaðinn.

„Það má segja að það sé 25 ára aðdragandi, eða þar um bil, þegar stórir árgangar eru að koma inn á fasteignamarkaðinn eins og nú er, og það er einmitt búið að tala um það innan byggingageirans undanfarin tíu til fimmtán ár, að þessir árgangar sem nú eru að koma séu óvenju stórir,“ sagði Þorsteinn og benti á að staðan nú virtist hafa komið sveitarfélögum í opna skjöldu.

Dagur hafnar því að Reykjavíkurborg hafi ekki séð þróunina fyrir.

„Okkar greiningar bentu til þess, strax árið 2011, að það myndi verða mikil og vaxandi eftirspurn eftir vel staðsettum litlum og meðalstórum íbúðum,“ segir hann.

„Ég kynnti þessar niðurstöður persónulega fyrir öllum sem hlut gætu átt að máli, verktökum, þróunaraðilum og bönkum sem áttu lóðarréttindi eða reiti á mikilvægum stöðum í Reykjavík. Ég hvatti þá til verka og bauð upp á samstarf um að minnka íbúðirnar og breyta skipulaginu, ef óskað yrði eftir því, til þess að þessi verkefni færu af stað.“

„Við vitum að síðustu tvö ár hafa bæði slegið met,“ …
„Við vitum að síðustu tvö ár hafa bæði slegið met,“ segir Dagur. mbl.is/Eggert

Bankarnir brenndir eftir hrunið

Að mati Dags voru bankarnir á þessum tíma alltof uppteknir af þeirri staðreynd að þeir áttu enn tómar og stórar íbúðir í útjaðri höfuðborgarsvæðisins.

„Það var eins og þeim væri kappsmál að þau verkefni kláruðust fyrst, að þær íbúðir seldust áður en þeir treystu sér til að lána í stórum stíl fyrir nýjum verkefnum. Auðvitað voru þeir brenndir eftir hrunið en okkar greiningar, sem bentu til þessa alveg frá árinu 2011, hafa nú staðist.“

Þegar ekki fékkst hljómgrunnur þar ákváðu borgaryfirvöld að leita á önnur mið.

„Leið okkar var að hefja samstarf við þau uppbyggingarfélög sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni, eins og Félagsstofnun stúdenta, Búseta og Félög eldri borgara til að koma hlutum í gang. Það eru þau verkefni sem eru þegar farin af stað eða er nú verið að ýta úr vör, á góðum stöðum.“

Til dæmis um það bendir Dagur á að nú liggi fyrir staðfest áform um 3.700 leigu-, búseturéttaríbúðir og íbúðir fyrir eldri borgara, á vegum félaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.

Ekki takmarkandi af hálfu borgarinnar

Hvað megum við búast við að sjá margar íbúðir rísa í Reykjavík á næstu árum?

„Við vitum að síðustu tvö ár hafa bæði slegið met, það voru um níu hundruð íbúðir sem fóru í smíði á hvoru ári um sig, en að meðaltali hafa þær á undanförnum árum verið undir sjö hundruð. Við spáum því að árið 2017 verði ennþá stærra að þessu leyti, það verði að minnsta kosti 1.300 íbúðir sem fari í smíði.“

Í samþykktu deiliskipulagi segir Dagur að einnig liggi margir reitir lausir.

„Það er því í raun bara framleiðslugeta byggingariðnaðarins og ákvarðanir fjármálastofnana sem verða takmarkandi þættir, en ekki skipulag, byggingareitir eða lóðir af hálfu Reykjavíkurborgar. Í mínum huga er það mikilvægt að sem mest af þessum verkefnum fari sem hraðast af stað.“

mbl.is