Nemendur í 9. og 10. bekk grunnskólanna þreyta í dag í fyrsta sinn rafrænt samræmd könnunarpróf í ensku, stærðfræði og íslensku. Standa prófin út þessa viku. Hér um bil 4.000 nemendur eru á landsvísu í báðum árgöngum, þannig að í heildina eru það um 8.000 nemendur sem þreyta prófin, en hvorum bekk um sig eru úthlutaðir tveir dagar til þess að ljúka prófunum. Heildareinkunnir fyrir prófin verða gefnar í bókstöfunum A, B+, B, C+, C og D.
Ákveðið var í febrúar á síðasta ári að samræmd könnunarpróf af þessu tagi yrðu framvegis lögð fyrir nemendur í 9. bekk að vori en ekki 10. bekk að hausti líkt og verið hafði. Þetta verður því í eina skiptið sem báðir bekkir þreyta prófið samtímis.
Í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu kemur fram að með því að færa prófið til 9. bekkjar verði nemendum, forráðamönnum þeirra og kennurum gefið meira svigrúm til þess að bregðast við og móta áherslur í námi í 10. bekk.
Í svörum Menntamálastofnunar við fyrirspurn Morgunblaðsins kemur fram að þar sem innritun í framhaldsskóla sé á ábyrgð skólanna sjálfra sé þeim það í sjálfsvald sett hvort þeir nýti sér einkunnir úr samræmdu prófunum í 9. bekk til þess að greina á milli væntanlegra nýnema. Ákveði þeir það, þarf það hins vegar að vera tekið fram í inntökuskilyrðum þeirra, sem birt eru á heimasíðum skólanna. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Menntamálastofnun hefur frá framhaldsskólunum hyggjast þeir skólar sem ætla að kalla eftir þessum gögnum að nýta þau til að velja á milli nemenda sem hafa sömu eða sambærilega einkunn úr lokaprófi í grunnskóla, en stofnunin vísar að öðru leyti á skólana sjálfa um inntökuskilyrði þeirra.