Afnám hafta gæti orðið á næstu vikum eða mánuðum

Benedikt Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Benedikt Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Afnám hafta á einstaklinga og fyrirtæki gæti orðið á næstu vikum eða næstu mánuðum. Þetta kom fram í svari Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar. Sagðist Benedikt jafnframt vona að tillögur um aðgerðir til viðnáms í gjaldeyrismálum verði tilbúnar í næstu eða þar næstu viku.

Spurði út í meinta leynifundi

Sigurður Ingi spurði ráðherrann út í afnám hafta og meinta „leynifundi“ stjórnvalda við bandaríska vogunarsjóði í síðustu viku. Vildi Sigurður Ingi vita hvenær þess mætti vænta að höft verði afnumin og hvort að fyrrnefndir leynifundir væru að trufla ferlið.

„Það hefur nefnilega ekki verið ljóst í orði ráðherra í síðustu viku hvort það sé einhugur í ríkisstjórn að fylgja eftir áætlun um afnám hafta eða verðlauna þá sem rætt var við á leynifundi stjórnvalda,“ sagði hann og bætti við að stjórnendur þeirra vogunarsjóða hefði verið „erfiðastir og harðastir í andstöðu við endurreisn íslensks efnahagslífs.“

Þá spurði hann jafnframt hvort að þessar viðræður snerist um að bjóða þeim önnur og betri kjör en öðrum.

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Eggert

Ekki gengið frá samningum af neinu tagi við vogunarsjóði

Benedikt kom í pontu og sagðist styðja áform um fullkomið afnám hafta og að það gerist sem allra fyrst. Þó bætti hann við að hann vildi ekki að það yrði gert við þær aðstæður sem skapi „óróa hér á markaði eða efnahagslegan óstöðugleika“.

Varðandi fundinn við bandarísku vogunarsjóðina sagði Benedikt að þeir hefðu óskað eftir fundi við stjórnvöld en á honum var ekki „gengið frá samningum af neinu tagi en fulltrúar vogunarsjóða munu hafa útskýrt sitt mál,“ sagði Benedikt.

„Ég held að það sé mjög mikilvægt að við vinnum að því sem allra hraðast að ná fullkomnum afnámi haftanna. Ég er sammála þingmanni um það gæti verið mikilvægur áfangi í því að ná jafnvægi í gjaldeyrismálum og við sjáum það að flöktið á krónunni þar sem gengið hefur bæði veikst og styrkst til skiptist síðustu vikur er óviðunandi fyrir innlent atvinnulíf og útflutningsgreinar. Ég hygg  að það sé öllum til farsældar að afnám hafta gæti gerst sem allra fyrst.“

mbl.is

Bloggað um fréttina