Setja upp 58 hleðslustöðvar í Reykjavík

Staðsetning hleðslustöðvanna í miðborginni.
Staðsetning hleðslustöðvanna í miðborginni. mynd/Reykjavík

Stefnt er að því að Reykjavíkurborg setji upp 58 hleðslustöðvar á 13 stöðum í miðborginni. Verður þetta fyrsta skref borgaryfirvalda í þá átt að ýta undir rafbílavæðingu hér á landi, en þegar hafa fyrirtæki eins og ON og N1 kynnt að þau ætli að setja upp fjölda hleðslustöðva víða um land. Þá hafa nokkur fyrirtæki einnig sett upp hleðslustöðvar.

Guðmundur Benedikt Friðriksson, skrifstofustjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, segir að hingað til hafi sveitarfélögin lítið verið að sinna því að koma upp slíkum stöðvum, en að Reykjavíkurborg hafi fengið 11 milljóna króna styrk frá orkusjóði til að fara í þessa uppbyggingu. Mun Reykjavíkurborg á móti leggja 11 milljónir til kaupa á þeim búnaði sem þarf. Væntanleg uppbygging borgarinnar verður nánar kynnt á fundi Samtaka iðnaðarins og SART um rafbílavæðingu á Grand hóteli á morgun klukkan 13.

Byrja í miðborginni og svo í starfsstöðvar borgarinnar

Hann segir að í fyrsta áfanga sé horft á þéttbýlasta svæði höfuðborgarinnar sem sé miðbærinn. Til að byrja með verður horft til að koma upp stöðvum í fimm bílastæðahúsum og á sjö stöðum við götustæði.

Næsta skref er að sögn Guðmundar væntanlega að horfa til þjónustustöðva og starfsstöðva borgarinnar. Þannig sé borgin að fara í orkuskipti á eigin bílaflota og þar sé rafmagnið einn valkosturinn. Segir hann að horft verði til sundlauga, bókasafna, þjónustumiðstöðva og annarra safna sem staðsetninga fyrir hleðslustöðvar í annarri atrennu verkefnisins.

Hröð þróun hleðslustöðva getur haft áhrif á fyrirkomulagið

Í framhaldinu verði horft til úthverfa, en Guðmundur segir að fylgjast þurfi vel með þróun mála í tengslum við hleðslustöðvar í þeim efnum. Bendir hann á að í dag séu venjulegar hleðslustöðvar á heimilum 10-16 ampera og það taki um 5-8 klukkustundir að fullhlaða einn bíl. Stöðvarnar sem verða settar upp í miðborginni verða aftur á móti 32 ampera sem kallar á 3-5 klukkustundir til að fullhlaða einn bíl.

ON er meðal þeirra fyrirtækja sem hafa verið að setja …
ON er meðal þeirra fyrirtækja sem hafa verið að setja upp hleðslustöðvar undanfarið. mbl.is/Hallur Már Hallsson

Þær hraðhleðslustöðvar sem komið hefur verið upp hér á landi kalla á um 30 mínútna hleðslutíma, en erlendis eru komnar stöðvar þar sem hleðslan tekur ekki nema 12 mínútur. Þá segir Guðmundur að nýlega hafi bílaframleiðendur í Evrópu kynnt verkefni um að koma upp 350-400 kílówatta hleðslustöðvum, en það þýði að hleðslan á einni mínútu dugi í um 32 kílómetra akstur. Fyrir bíl sem kemst yfir 200 kílómetra, eins og margir nýrri rafbílar í dag, kallar það því á aðeins 7-8 mínútna hleðslu.

Guðmundur segir að með þessu áframhaldi sé mögulega ekki nauðsynlegt að koma upp hleðslustöðvum eins víða og áður var talið, heldur dugi svipuð hugmyndafræði og með olíustöðvar, enda sé hleðslutíminn alltaf að styttast. Hann tekur þó fram að þetta séu allt vangaveltur hjá sér og þróunin í þessum geira eigi eftir að leiða í ljós hvernig fyrirkomulag verði ofan á.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert