Atlaga að árangri í forvörnum

Skert aðgengi að áfengi er mjög mikilvægur liður í forvarnarstarfi …
Skert aðgengi að áfengi er mjög mikilvægur liður í forvarnarstarfi til að árangurinn viðhaldist, segir í umsókn skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur. AFP

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar leggst gegn breytingum á lögum um verslun með áfengi og tóbak. Sviðið varar við því nýmæli sem kemur fram í frumvarpinu og heimilar að auglýsa áfengi án veigamikilla takmarkana.

Þetta kemur fram í frétt frá Reykjavíkurborg.

Skóla- og frístundaráð fjallaði um umsögn sviðsins á fundi sínum 8. mars.
Í bókun meirihluta ráðsins; Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina, svo og áheyrnarfulltrúa Pírata segir:

„Frumvarp um afnám einkasölu ÁTVR á áfengi er atlaga að þeim frábæra árangri sem náðst hefur í forvörnum á Íslandi, ekki síst meðal ungmenna í Reykjavík á undanförnum 20 árum. Með samstilltu átaki fjölmargra aðila í íslensku samfélagi hefur tekist að minnka verulega áfengisneyslu 15-16 ára ungmenna, og er hún nú minni en jafnaldra þeirra í Evrópu bæði þegar horft er til heildarneyslu yfir eitt ár og neyslu síðustu 30 daga. Sérstök ástæða er til að vara við því ákvæði í nýjustu útgáfu frumvarpsins sem heimilar að auglýsa áfengi án veigamikilla takmarkana. Það myndi fela í sér grundvallar stefnubreytingu stjórnvalda gagnvart markaðssetningu áfengis í samfélaginu. Ástæða er til að taka undir með embætti Landlæknis, sem bent hefur á að með samþykkt frumvarpsins væri búið að nema úr gildi tvær af þremur virkustu forvarnaraðgerðum áfengisforvarna samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunni, sem eru takmörkun á aðgengi og bann við auglýsingum. Meirihlutinn hvetur Alþingi til að hafna ofangreindu frumvarpi með hag barna og ungmenna á Íslandi í huga.“

Ýmsar leiðir í forvarnarstarfi

Í umsögn frá skóla- og frístundasviði vegna frumvarpsins er m.a. vakin athygli á því að í Reykjavík hafi verið farnar ýmsar leiðir í forvarnarstarfi, s.s. með áherslu á samstarf þeirra sem starfa með börnum og unglingum innan hverfa, samstarf við foreldra, hvatningu til þeirra um að standa saman og kynnast vinum barna sinna, virða útivistartíma og sýna umhyggju og eftirlit.

Jafnframt hafi verið lögð áhersla á bætt viðhorf til náms, líðan í skóla og þátttöku barna og unglinga í skipulögðu frístundastarfi. Skert aðgengi að áfengi sé mjög mikilvægur liður í forvarnarstarfi til að árangurinn viðhaldist. Sviðið hvetur því Alþingi til að hafna ofangreindu frumvarpi til laga á þeim forsendum að með samþykki þess sé árangri í forvarnarmálum stefnt í voða. 

Umsögn skóla- og frístundasviðs var vísað til borgarráðs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert