Komst á tindinn eftir sjö tilraunir

Hvert skref þarf að vera meðvitað og úthugsað.
Hvert skref þarf að vera meðvitað og úthugsað. Ljósmynd/Gerlinde Kaltenbrunner

Gerlinde Kaltenbrunner er sennilega frægasta núlifandi fjallgöngukona í heiminum. Hún varð heimsfræg í ágúst 2011 þegar hún náði tindi K2 í sinni sjöundu tilraun og um leið varð hún fyrsta konan í heiminum til að klífa alla fjórtán hæstu tinda veraldar án viðbótarsúrefnis. 

Gerlinde heldur erindi á Háfjallakvöldi Ferðafélags Íslands í kvöld þar sem hún er heiðursgestur. Þetta er í annað skipti sem hún kemur til Íslands en í þetta sinn mun hún ekki hafa tíma til að ganga á fjöll. 

„Erindið verður aðallega um K2, annað hæsta fjall heims, sem ég reyndi sjö sinnum að klífa áður en ég komst á toppinn. Ég á í mjög sérstöku sambandi við fjallið sem er erfiðasta en jafnframt það fallegasta sem ég hef klifið,“ segir Gerlinde. Hún ætlar að tala um hliðstæður fjallklifurs á öðrum sviðum lífsins til að veita fólki innblástur til að ná markmiðum sínum. 

Áhuginn þarf að koma frá hjartanu

„Mikilvægast er að vera gagntekinn áhuga, að finna áhugann koma frá hjartanu þannig að maður hafi metnað til að gera allt sem í manns valdi stendur til að ná markmiðinu. Á fjallinu þarftu líka að vera meðvitaður um áhættu. Stundum þurfti ég að hörfa til baka þegar aðeins hundrað metrar voru í tindinn, því ég vissi að ef ég héldi áfram þá sneri ég ekki til baka. Það þarf að hlusta á innsæið og hafa fulla meðvitund um líkama og hug til að taka næsta skref.“

Gerlinda á fjallinu Nuptse í Nepal í um það bil …
Gerlinda á fjallinu Nuptse í Nepal í um það bil 7849 metra hæð. Ljósmynd/Gerlinde Kaltenbrunner

Gerlinde er austurrísk, fædd 1970, og er menntaður hjúkrunarfræðingur. Hún fékk fyrst áhuga á fjallgöngu á unga aldri þegar prestur í þorpinu tók upp á því að ganga reglulega með hóp af krökkum á fjöll. Síðan byrjaði hún á bergklifri og ísklifri og þá var ekki aftur snúið. 

„Fyrir mig var þetta svo heillandi, að klífa fjallið og finna fyrir líkamanum á meðan. Að finna náttúruna og vera tengd henni. Ég gat verið í augnablikinu og fann frelsistilfinningu. Þetta varð minn lífsstíll. Á mörgum leiðöngrum vorum við algjörlega ein, fjarri siðmenningu og þá lærist að maður þarf ekki mikið til að öðlast hamingju,“ segir Gerlinde þegar hún var spurð hvað hefði ýtt henni út í atvinnufjallklifur. 

Á leiðinni upp á tind K2.
Á leiðinni upp á tind K2. Ljósmynd/Gerlinde Kaltenbrunner

Missti vin á K2

Að klífa hæstu fjöll heims er hættuleg íþrótt en fimmti hver maður sem reynir að komast á tind K2 lætur lífið. Eðli málsins samkvæmt hefur Gerlinde lent í ýmsu á löngum ferli. 

„Það voru nokkrar erfiðar uppákomur. Ein var þegar ég varð undir snjóflóði þegar ég lá inni í tjaldi í sex þúsund metra hæð. Það var eina augnablikið sem ég hugsaði um að hætta,“ segir Gerlinde.

„Hitt tók mig langan tíma að komast yfir. Þá missti ég góðan vin á K2 í sjöttu tilraun. Við vorum í um 8300 metra hæð og vildum komast á tindinn saman. Hann var rétt hjá mér en allt í einu missti hann jafnvægið og féll þúsund metra. Í fyrsta og eina skiptið í lífinu leið mér eins og ég hefði brugðist. Þarna hugsaði ég að fjallinu líkaði ekki við mig og ég var ekki viss hvort ég myndi snúa aftur.“

Á toppinum á K2, öðru hæsta fjalli heims.
Á toppinum á K2, öðru hæsta fjalli heims. Ljósmynd/Gerlinde Kaltenbrunner
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert