Missa íbúðina eftir tuttugu daga

Sandra og Kjartan ásamt tveimur sonum þeirra.
Sandra og Kjartan ásamt tveimur sonum þeirra.

Sandra Soløy Kjartansfru hefur síðustu ár leigt 90 fermetra íbúð í Kópavogi ásamt eiginmanni sínum. Hjónin eiga tvo syni, einn fjögurra ára og annan níu mánaða. Í nóvember fengu þau boð frá leigusalanum um að þau þyrftu að flytja út fyrir lok febrúar, þar sem hann þurfti sjálfur að flytja inn.

Í samtali við mbl.is segir Sandra að hún hafi vitað hvernig staðan hafi þá verið á leigumarkaðnum og því byrjað að leita um leið. Íbúðina hafa þau leigt fyrir 190 þúsund krónur á mánuði en við leitina hafa þeim aðeins boðist minni íbúðir, 70 til 80 fermetra, á mun hærra verði, eða 220 til 250 þúsund krónur á mánuði.

„Þetta er bara svo vonlaust, þessi leigumarkaður, að við erum núna byrjuð að leita að íbúð til að kaupa,“ segir Sandra.

„En það gengur ekki heldur – það selst allt áður en maður hefur náð að gera kauptilboð.“

Þannig hafa þau aðeins náð að gera tilboð í eina fasteign.

„Allt hitt hefur verið selt um hádegið daginn eftir að við höfum skoðað húsið.“

Búin að pakka hálfri búslóðinni

Sandra gagnrýnir að á fasteignavefjum liggi oft eignir sem þegar hafi verið seldar, en ekki teknar út af fasteignasölunum. Það sé mjög óþægilegt til lengdar fyrir þá sem eru að leita að fasteignum til kaupa.

Sandra er norsk að uppruna og eiginmaður hennar, Kjartan, íslenskur. Fluttu þau hingað til lands frá Noregi árið 2015 og líkar vel í Kópavogi. Þess vegna hringir hún reglulega í viðkomandi fasteignasölur þegar hún sér eignir til sölu í bæjarfélaginu. En viðkvæðið er alltaf það sama.

„Það er bara selt, selt, selt, selt, selt.“

Sandra og Kjartan hafa leitað að húsnæði frá því í …
Sandra og Kjartan hafa leitað að húsnæði frá því í nóvember.

Upphaflegi fresturinn sem leigusalinn gaf þeim hjónum er nú liðinn, en hann bauðst til að framlengja hann til loka þessa mánaðar. Eflaust eru ekki allir leigjendur svo heppnir. Þau hafa enda verið tilbúin að yfirgefa íbúðina með skömmum fyrirvara allt frá því í nóvember.

„Ég er náttúrulega búin að pakka hálfri búslóðinni. En ég veit ekki hvert ég mun fara með þetta.“

Hvað munið þið gera ef þið náið ekki að tryggja ykkur annað húsnæði fyrir lok mánaðarins?

„Veistu, ég bara veit það ekki. Þar sem ég er frá Noregi eigum við aðeins eina fjölskyldu hérna en það eru full hús hjá öllum eins og við má búast.

Þetta er ömurlegt, hvernig markaðurinn er. Ég einfaldlega skil ekki hvernig fólk getur borgað 250 þúsund krónur á mánuði í húsaleigu.“

Airbnb eyðileggur fyrir leigjendum

Sandra segir stöðuna á leigumarkaðnum í Noregi ekki mikið betri.

„En það sem er málið hérna er að þetta Airbnb er að taka yfir leigumarkaðinn. Fólk er auðvitað að græða helling af pening á þessu, ég skil það þannig, en þetta eyðileggur líka fyrir okkur sem þurfum á íbúð að halda,“ segir hún.

„Og það versta er að á meðan maður borgar svona mikið í leigu þá nær maður ekki að leggja neinn pening fyrir, til að geta síðan keypt sér íbúð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert