Styrking krónunnar ástæða verðmunarins

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra kynntu afnám gjaldeyrishafta …
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra kynntu afnám gjaldeyrishafta í dag. mbl.is/Golli

Öll fjármagnshöft á einstaklinga, fyrirtæki og lífeyrissjóði verða afnumin með nýjum reglum Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál frá og með þriðjudegi. Sam­hliða af­námi hafta á inn­lenda aðila hef­ur stærsti hluti vandans sem stafað hef­ur af svo­kallaðri snjó­hengju af­l­andskróna verið leyst­ur með sam­komu­lagi Seðlabanka Íslands við eig­end­ur krón­anna.

Sam­komu­lagið snýst um að Seðlabank­inn kaup­ir af­l­andskrónu­eign­ir fyr­ir er­lend­an gjald­eyri. Viðmiðun­ar­gengi í viðskipt­un­um er 137,5 krón­ur fyr­ir evr­una, sem er um 20% yfir skráðu gengi evru síðastliðinn föstu­dag. Margir hafa gagnrýnt þessi viðskipti í dag og furðað sig á því að með þeim séu vogunarsjóðirnir settir í fyrsta sæti.

Í júní í fyrra hélt Seðlabanki Íslands útboð þar sem sjóðunum sem eiga yfir hundrað milljarða í aflandskrónum var boðið tilboð sem hljóðaði upp á 190 krónur fyrir evruna en nú er það hins vegar 137,5 krónur.

Viðmiðunarpunkturinn hefur færst til 

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra segir þennan mun meðal annars stafa af styrkingu krónunnar. „Menn töluðu um að það hefði þurft enn lægra gengi en þessar 190 krónur sem boðið var upp til að ná saman viðskiptum á þeim tíma. Síðan þá hefur krónan styrkst úr því að vera tæplega 140 krónur í 115 krónur þannig að viðmiðunarpunkturinn hefur færst til,“ segir Benedikt.

Hann segir að eftir á að hyggja sjái menn að skynsamlegt hefði verið að bjóða lægra gengi en 190 krónur sem hefði þá getað klárað viðskiptin síðasta sumar. „Auðvitað vissu menn ekki á þeim tíma að krónan ætti eftir að styrkjast svona mikið.“

137,5 krónur er um 20% yfir skráðu gegni krónunnar síðastliðinn föstudag. Munurinn var hins vegar mun meiri í júní þegar tilboð stjórnvalda hljóðaði upp á 190 krónur. Á þeim tíma var krónan um 140 krónur og 20% yfir því um 168 krónur sem Benedikt segir að hefði komist nær því að klára dæmið. Tilboð Seðlabankans hljóðar því nú upp á svipaða fjárhæð og hefði getað lokið samningum í júní í fyrra.

mbl.is

Bloggað um fréttina