Er fánadagur?

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýrri ríkisstjórn finnst gjarnan að árið sé 0. Auðvitað hafa margir áfangar verið á þessari leið frá því að afnám hafta var lagt fram árið 2011. Menn deila um ýmsar aðgerðir sem lagðar voru fram,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, á Alþingi í dag.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gagnrýnt hvernig staðið var að losun hafta og samið við eigendur aflandskrónueigna, en Seðlabanki kaupir af­l­andskrónu­eign­ir fyr­ir er­lend­an gjald­eyri og er viðmiðun­ar­gengi í viðskipt­un­um 137,5 krón­ur fyr­ir evr­una.

Katrín sagði ljóst af orðum Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra að það hefði verið betra að semja við aflandskrónueigendur í fyrra þegar gengið var hagstæðara. „Hann virðist telja að þarna hafi verið gerð mistök við losun hafta.“

„Ekki er deilt um að búið er að semja við eigendur á talsvert hagstæðari kjörum en í útboði í fyrra. Þeir geta gengið nokkuð sáttir frá borði við sína stöðu,“ bætti Katrín við.

Katrín sagði þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa spurt ráðherra um þær sviðsmyndir sem ríkisstjórnin hefði teiknað upp í framhaldinu; hver áætlunin væri. Það hefðu verið vonbrigði að heyra engar sviðsmyndir.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert

Til hamingju Ísland eða Guð blessi Ísland?

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, tók undir með Katrínu um að engin sviðsmynd eða viðbragðsáætlun væri til staðar. Hún fordæmdir skort á upplýsingum sem þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa búið við í þessu máli.

„Fjármálaráðherra sagði til hamingju Ísland en það eru ekki nema rúm átta ár síðan forsætisráðherra sagði Guð blessi Ísland,“ sagði Birgitta.

Töpuðum fjármunum og trúverðugleika

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, spurði hvort dagurinn í dag yrði gerður að fánadegi, miðað við áðurnefnda kveðju fjármálaráðherra við upphaf hans ræðu.

Hann sagði það gríðarlega mikil vonbrigði að engar sviðsmyndir eða áætlanir væru uppi og því óljóst hvert framhaldið væri. „Við töpuðum fjármunum og trúverðugleika. Við höfum aldrei samið við þessa aðila en nú var það gert og það var gert bak við luktar dyr,“ sagði Sigurður Ingi.

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina