Handtekinn vegna heimilisofbeldis í Texas

Maðurinn var handtekinn í síðustu viku.
Maðurinn var handtekinn í síðustu viku. Sviðsett mynd úr safni.

Íslenskur karlmaður á fertugsaldri var handtekinn í Austin, höfuðborg Texas í Bandaríkjunum, aðfaranótt fimmtudags í síðustu viku vegna gruns um að hafa ráðist á íslenska kærustu sína.

DV greindi fyrst frá málinu í morgun.

Í samtali við mbl.is staðfestir lögreglan í Austin að maðurinn hafi verið handtekinn í síðustu viku, eftir ábendingu frá starfsfólki á hóteli í bænum.

Maðurinn var látinn laus úr fangelsi síðdegis á föstudag en til þess þurfti hann að greiða sex þúsund bandaríkjadali í tryggingafé, jafnvirði 664 þúsund íslenskra króna. Þá er hann ekki í farbanni vestanhafs.

Heimildir mbl.is herma að maðurinn hafi áður verið kærður fyrir fjölmörg heimilisofbeldisbrot hér á landi, en aldrei fengið dóm. Samkvæmt öðrum heimildum mbl.is hafa íslensk lögregluyfirvöld þá margoft þurft að hafa afskipti af manninum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert