Eins og fangarnir í teiknimyndunum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokks.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokks. mbl.is/Eggert

„Þetta er það sem við var að búast þegar menn sjá að slíkar aðferðir bera árangur. Þegar menn láta undan þrýstingi og borga, ef svo má segja. Þá er það yfirleitt hvati fyrir þá sem beita þrýstingnum að ganga enn þá lengra og ná í enn þá meira. Þetta vekur spurninguna, hvar endar þetta?

Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, í samtali við mbl.is. Fregnir bárust af því í morgun að banda­ríski vog­un­ar­sjóður­inn Loom­is Say­les hafi hafnað til­boði ís­lenskra stjórn­valda um kaup á af­l­andskrón­um í kjöl­far viðræðna við sjóðina sem fram fóru ný­verið.

Vog­un­ar­sjóður­inn á um þriðjung þeirra af­l­andskróna sem ekki hef­ur verið samið um kaup á eða um 33 millj­arða króna. Sam­kvæmt samn­ingn­um er boðist til að kaupa af­l­andskrónu­eign­ir á geng­inu 137,5 krón­ur fyr­ir evr­una. Loom­is bend­ir á að markaðsgengið hafi verið 118 á miðviku­dag.

Kakan sem Sigmundur birti á Facebook-síðu sinni.
Kakan sem Sigmundur birti á Facebook-síðu sinni. Ljósmynd/Sigmundur Davíð

Sýndu að þeim er ekki alvara

Sigmundur segir stjórnvöld hafa sýnt að þeim sé ekki alvara með því sem sett er fram sem formleg opinber stefna og liður í heildarplani um losun hafta. „Það má segja að menn séu að biðja þá um að færa sig áfram upp á skaftið. Það á við í þessu tilviki hvað varðar ólosaðar aflandskrónur, auk þess hugsanleg framtíðaratvik þar sem íslensk stjórnvöld kunna að vera undir þrýstingi að hverfa frá markaðri stefnu eða reglum vegna þess að það hentar einhverjum fjármálaöflum til að mynda. Þarna er búið að búa til fordæmi sem verður mikill hvati fyrir þá sem reyna að knýja stjórnvöld til að breyta um stefnu.

Ráðherrarnir ekki samstíga

Sigmundur telur þetta einnig áhugavert í ljósi þess að fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannesson, sagði að menn hefðu getað klárað þetta allt saman við útboðið í fyrra ef boðið hefði verið betur. „Þetta gefur þvert á móti til kynna að þegar stjórnvöld halda áfram að bjóða betur þá halda menn áfram að vilja meira,“ segir Sigmundur.

„Reyndar var mjög áhugavert í umræðum um þessi mál að sjá að fjármálaráðherra annars vegar og forsætisráðherra hins vegar tala algjörlega í kross um þetta útboð í fyrra. Fjármálaráðherra lýsir því sem misheppnuðu en forsætisráðherra leggur áherslu á að þrátt fyrir allt hafi það verið vel heppnað.“

Útboðið í fyrra fór of seint fram

Forsætisráðherrann fyrrverandi segir að útboðið í fyrra hafi farið allt of seint af stað, eins og menn í undirbúningshópnum bentu á. „Það hefði verið mun æskilegra ef skemmri tími hefði liðið frá aðgerðum varðandi slitabúin og útboð vegna aflandskróna. Í fyrsta lagi átti þetta að vera hluti af sömu aðgerð og auk þess þurfti að vera til staðar sami þrýstingur fyrir þessa aðila eins og hina. Reyndar bentu aðilar í þessum undirbúningshópi á þetta. Seðlabankinn var einhverra hluta vegna ekki tilbúinn fyrr en um mitt síðasta ár,“ segir Sigmundur en honum þykir stjórnvöld vera að missa trúverðugleikann.

„Það er mikil synd að varpa honum fyrir róða að minnsta kosti að einhverju leyti, alveg í lokin á þessu plani sem var að klárast og var að ganga upp. Það hafði kostað, ekki bara mikla undirbúningsvinnu heldur mikil átök og þolgæði af hálfu Íslands. Við vorum búin að byggja upp þá ímynd að það borgaði sig að taka Ísland alvarlega þegar það kæmi að úrlausn efnahagslegra álitaefna. Við höfðum farið nýjar leiðir sem höfðu skilað miklum árangri þrátt fyrir oft og tíðum gríðarlega mótspyrnu hagsmunaaðila, þá hafði Ísland haldið sínu striki. Það að hverfa frá því prinsippi alveg á lokametrunum er mjög skaðlegt fyrir þann trúverðugleika sem við vorum búin að byggja upp.

Fengu senda köku með þjöl

Sigmundur birti mynd á Facebook-síðu sinni þar sem sjá má hníf og köku sem einhver hefur komist í. Aðspurður segir hann að þetta sé gert til að reyna að skýra flókin haftamál á einfaldan máta. 

„Þetta er eins og í teiknimyndunum í gamla daga þegar þeir sem voru læstir inni fengu senda köku með þjöl til að geta sargað sig út. Líkingin er þá sú að það var búið að segja þessum aðilum að þeir yrðu læstir inni með aurana ef þeir spiluðu ekki með. Þeir ákváðu að spila ekki með en fengu eins konar köku að gjöf fyrir og leiðina út.

mbl.is