Grunaður um brot gegn fimm ára stúlku

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Golli

Hæstiréttur hefur vísað frá kæru karlmanns á úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, þar sem fallist var á að lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu væri heimilt að rannsaka efnisinnihald farsíma hans. Ástæða frávísunarinnar er sú að rannsóknin hefur þegar farið fram.

Með úrskurði Hæstaréttar birtist úrskurður héraðsdóms þar sem fram kemur að lögreglan hafi til rannsóknar meint brot mannsins gegn fimm ára stúlku, en hann og móðir hennar slitu sambúð sinni undir lok febrúar.

Þann 3. mars síðastliðinn hafi lögreglunni borist beiðni um lögreglurannsókn frá barnavernd viðkomandi sveitarfélags. Hafði móðirin þá tilkynnt um ætluð kynferðisbrot gagnvart stúlkunni af hálfu fyrrverandi sambýlismannsins.

Fram kemur að áhyggjur um slík brot hafi vaknað hjá móðurinni eftir atvik þá um morguninn, þar sem stúlkan hefði beðið hana um að snerta kynfæri sín. Móðirin hefði sagt að svoleiðis ætti ekki að gera, en stúlkan hefði þá fullyrt að maðurinn hefði „skoðað rassinn“ á sér.

Samkvæmt upplýsingum frá leikskóla brotaþola fór stúlkan að sýna breytta hegðun, svo eftir hefði verið tekið, í byrjun og fram í miðjan febrúar. Faðir hennar hafi þá einnig borið það undir móður brotaþola hvort hún hefði orðið vör við að dóttir þeirra væri grátgjörn og leið.

Maðurinn var handtekinn síðastliðinn föstudag, 10. mars. Að mati lögreglu þykir vera rökstuddur grunur um að hann hafi brotið á grófan kynferðislegan hátt gegn stúlkunni og að brotin geti varðað allt að 16 ára fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert