Hélt í sér í átta tíma

Monika nýtti tímann í kassanum aðallega til þess að læra.
Monika nýtti tímann í kassanum aðallega til þess að læra. Aðsend mynd

„Ég var bara beðin um að gera þetta. Ég er alltaf til í eitthvert flipp þannig að ég sagði bara já,“ segir Monika Rögnvaldsdóttir, nemandi í Menntaskólanum á Akureyri, sem hélt sig í kassa í skólanum í átta tíma í gær til styrktar góðu málefni.

Huginn, skólafélag Menntaskólans á Akureyri, stendur nú fyrir árlegri góðgerðarviku en hún er til styrktar geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri. Sýnt var frá Moniku í kassanum á Facebook-síðu Hugins.

Hefði ekki verið til í heila viku

Monika segir Almar Atlason, sem hélt sig í kassa í Listaháskóla Íslands í viku í desember 2015, hafa verið uppsprettuna að hugmyndinni hjá þeim sem báðu hana um að skella sér í kassann. Hún segir að það hafi ekki farið illa um hana í kassanum en bætir við að hún hafi þó ekki viljað vera inni í honum mikið lengur og aldrei í viku eins og Almar gerði á sínum tíma.

„Kassinn var alveg nokkuð stór. Hann var tveir metrar á lengd og einn metri á hæð og breidd. Það fór alls ekki illa um mig,“ segir Monika. Spurð hvað hún hafi verið að gera í kassanum segist hún aðallega hafa nýtt tímann í lærdóminn. „Ég var alls ekki með innilokunarkennd, þetta var mjög kósý. En það voru margir sem fylgdust með mér, sérstaklega í frímínútum sem var svolítið óþægilegt.“

Monika segist ekki hafa orðið svöng í kassanum þar sem …
Monika segist ekki hafa orðið svöng í kassanum þar sem vinir hennar komu með mat handa henni. „En það var ekki í boði að fara á klósett þannig að ég hélt bara í mér. Það var ekkert mál þannig séð.“ Aðsend mynd

Spurð hvort hún hefði getað verið mikið lengur í kassanum svarar Monika því neitandi. „Nei, ég hefði kannski getað verið í klukkutíma í viðbót. Hefði aldrei getað verið þarna í viku.“

Hún segist ekki hafa orðið svöng í kassanum þar sem vinir hennar komu með mat handa henni. „En það var ekki í boði að fara á klósett þannig ég hélt bara í mér. Það var ekkert mál þannig séð.“

Hér er hægt að styrkja söfnun Hugins til styrktar geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri: 
Kt: 470997-2229
Rn: 0162-05-261530

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert