Ömurlegt afmæli

Anna Shea er lögfræðingur í rannsóknarteymi Amnesty International í London.
Anna Shea er lögfræðingur í rannsóknarteymi Amnesty International í London. mbl.is/Golli

Stríðið í Sýrlandi hefur geisað í sex ár í dag. Ömurlegur afmælisdagur, segir Anna Shea, lögfræðingur hjá Amnesty International. Hún segir að samningur Evrópusambandsins við Tyrkland sé brot á lögum og ef afstaða ESB breytist ekki mun flóttamannasáttmáli Sameinuðu þjóðanna líða undir lok. 

Shea flutti erindi á málþingi Íslandsdeildar Amnesty International, Rauða krossins og Mannréttindaskrifstofu Íslands þar sem rætt var um stöðu flóttamannamála í Evrópu og á Íslandi. 

Mohammad Mohiedine Anis er sjötugur íbúi í Aleppo. Hann sést …
Mohammad Mohiedine Anis er sjötugur íbúi í Aleppo. Hann sést hér með pípuna sína í svefnherbergi sínu. AFP

Shea er mannréttindalögfræðingur frá Kanada og starfar hjá Amnesty International í London.

Undanfarin ár hefur hún starfað á vegum samtakanna í Tyrklandi, einkum við landamæri Sýrlands. Áður starfaði hún í Indónesíu og Ástralíu og er ein þeirra sem unnu skýrslu um aðbúnað flóttafólks á eyjunni Nauru. 

Teymið sem Shea starfar með hjá Amnesty International vinnur rannsóknir á málefnum flóttafólks víða um heim svo sem í Indónesíu, Tyrklandi og Ástralíu. Áður en hún hóf störf hjá aðalstöðvum Amnesty í London var hún yfirmaður lögfræðiteymis Amnesty í Kanada.

Mohammad Mohiedine Anis við bílinn sinn fyrir utan húsið sem …
Mohammad Mohiedine Anis við bílinn sinn fyrir utan húsið sem hann býr í – Aleppo mars 2017, sex árum eftir að stríðið hófst. AFP

Eftir að hafa verið að störfum í Tyrklandi meira og minna í tvö ár er samningur Evrópusambandsins við Tyrkland Sheu ofarlega í huga. Hún segir að ef ESB breyti ekki afstöðu sinni í garð flóttafólks muni það þýða endalok flóttamannasamstarfs í heiminum, samstarfs sem á upphaf sitt að rekja til loka seinni heimsstyrjaldarinnar í Evrópu. Þá hafi ríki Evrópu haft þá framsýni til að bera að heimila fólki för milli landa en nú byggi bandalagið múra og loki á fólk sem er í sárri neyð. Samt sem áður fólk sem hefur getað flúið. Því það er aðeins brot af þeim sem þjást sem komast í burtu frá stríðshrjáðum svæðum. 

Stríðið í Sýrlandi braust út fyrir sex árum en upphaf þess má rekja til veggjakrots drengja líkt og rakið er hér.

Að minnsta kosti þrjár milljónir Sýrlendinga flúðu á mjög stuttum tíma yfir landamærin til Tyrklands. Þegar stríðið braust út í Sýrlandi fyrir sex árum var Tyrkland ekki með neina áætlun varðandi móttöku flóttafólks og á þessum tíma gilti gagnkvæmt samkomulag milli Tyrklands og Sýrlands um frjálst flæði fólks yfir landamærin. 

Félagar í Hvítu hjálmunum leita að bæjarbúum í Ariha eftir …
Félagar í Hvítu hjálmunum leita að bæjarbúum í Ariha eftir loftárásir stjórnarhersins á bæinn 27. febrúar 2017. AFP

Í fyrstu áttu fáir eða engir von á því að stríðið í Sýrlandi yrði jafnlangt og raun ber vitni. Að friðsöm mótmæli yrðu að blóðugu stríði sem þegar hefur kostað hátt í hálfa milljón lífið.

Tyrkir komu upp búðum, tjaldbúðum í flestum tilvikum, skammt frá landamærum Sýrlands þar sem brýnustu þörfum flóttafólks var sinnt. En stríðið geisar enn og flóttafólkið býr enn við bráðabirgðaaðstæður. Árið 2013 var byrjað á að undirbúa kerfi utan um móttöku hælisleitenda í Tyrklandi segir Shea og bætir við að það hafi aðeins verið vísir að kerfi.

Abdel Basset er níu ára gamall. Hann varð fyrir tunnusprengju …
Abdel Basset er níu ára gamall. Hann varð fyrir tunnusprengju sem stjórnarherinn varpaði á bæinn Al-Hbeit 16. febrúar 2017. AFP

Hæliskerfið er enn að slíta barnsskónum á sama tíma og fjöldi flóttafólks er gríðarlegur. Sem dæmi nefnir hún að Tyrkir ná ekki einu sinni að halda utan um skráningu flóttafólks og fólk sé jafnvel sent aftur til Sýrlands, Íraks og Afganistan þrátt fyrir að það gangi gegn alþjóðlegum lögum, svonefndri alþjóðlegri vernd, þar sem tryggð er virðing fyrir grundvallarmannréttindum flóttafólks ásamt þeim möguleika þess að sækja um hæli og að tryggja að enginn sé sendur tilneyddur til lands þar sem hann eða hún hefur ástæðu til að ætla að verða fyrir ofsóknum.

AFP

„Við megum samt ekki gleyma því í gagnrýni okkar á Tyrki að þeir hafa tekið á móti þremur milljónum flóttamanna en Evrópusambandið og aðildarríki þess hafa tekið á móti broti af þeim fjölda. Samt sem áður gera ríki ESB allt sem í þeirra valdi stendur til að halda flóttafólki frá, meðal annars með samningnum við Tyrki. Greiða þeim peninga og gefa loforð gegn því að „vandamálið“ komi ekki til Evrópu,“ segir Shea í samtali við blaðamann mbl.is.

Hún segir að í augum ESB sé flóttafólk vandamál og jafnvel er talað um flóttamannavanda Evrópu. „En er þetta flóttamannavandi álfunnar? Það kom kannski um ein milljón flóttamanna til Evrópu árið 2015 en íbúar Evrópu eru um 500 milljónir talsins. Er þetta ekki frekar vandamál stjórnvalda í Evrópu og framkvæmdastjórnar ESB og annarra pólitískra blokka í heiminum? Íbúar Líbanon eru fjórar milljónir talsins og þeir hafa tekið við álíka mörgum flóttamönnum og Evrópa til samans,“ segir Shea.

Gaddavírsgirðing á landamærum Ungverjalands.
Gaddavírsgirðing á landamærum Ungverjalands.

Fjölmiðlar og stjórnmálamenn láta eins og flóttafólkið flæði yfir álfuna, birtar eru myndir af háum gaddavírsgirðingum í Ungverjalandi og látið eins og fólkið sem þar bíður milli vonar og ótta sé ógn við öryggi álfunnar, segir Shea.

Stefna ríkja eins og Ungverjalands, að byggja háar gaddavírsgirðingar og koma fólki fyrir í gámum er í raun réttlæting á eigin vandamálum og býr til ný vandamál, segir hún. Því þegar fólk er lokað inni þá reynir það eðlilega að sleppa úr haldi. Fólk lætur ekki girðingar stöðva sig þegar líf barna þeirra er í húfi. „Þú gerir allt til þess að vernda fjölskylduna þína,“ segir Shea.

Þessi fjölskylda er ekki skilgreind sem flóttafólk því hún er …
Þessi fjölskylda er ekki skilgreind sem flóttafólk því hún er á vergangi í heimalandi sínu, Sýrlandi. AFP

Fólksflutningar hafa verið hluti af mannlegri tilvist alla tíð og oft er talað um þjóðflutningana miklu sem hófust 300 árum fyrir Krist. Fólk hefur alltaf verið á faraldsfæti og mun alltaf vera. Þess má geta að Shea er frá Kanada en fjölmargir Íslendingar settust þar að á síðari hluta nítjándu aldar og fyrri hluta tuttugustu aldar. Fjölmargir Íslendingar eru búsettir í Noregi og Danmörku en Noregur var áfangastaður margra á árunum eftir hrun. Hér er átt við farandfólk (migrants) eða með öðrum orðum fólk sem flýr heimalandið af efna­hags­leg­um ástæðum, ekki vegna þess að líf þeirra sé í húfi líkt og flóttafólk er að flýja lífshættulegar aðstæður. Fólk sem hefur ekki möguleika á neinu öðru en koma sér í burtu ef það ætlar að lifa af.

Þetta var áður heimili sýrlenskrar fjölskyldu.
Þetta var áður heimili sýrlenskrar fjölskyldu. AFP

Shea segir að áætlun Evrópusambandsins og aðildarríkja þess um að loka álfunni fyrir þeim sem minna megi sín sé að ganga eftir því mun færri flóttamenn komi til álfunnar en áður.

„En með þessu er verið að loka augunum fyrir staðreyndum og að finna verði einhverjar lausnir á vanda fólks sem hefur neyðst til þess að yfirgefa heimalandið. Því þú fellur ekki undir flóttamannaskilgreininguna fyrr en þú ert farinn frá heimalandinu. Ef þú ert á flótta í heimalandinu þá ertu á vergangi. Samningurinn sem gerður var við Tyrki er algjörlega óábyrgur og um leið ólögmætt samkomulag. Við hjá Amnesty International erum ekki ein um þá skoðun því fleiri samtök og stofnanir hafa komist að sömu niðurstöðu. Samt sem áður notar ESB samkomulagið við Tyrki sem eins konar leiðarvísi um árangur sem nota á víðar. Þeir skella skollaeyrum við staðreyndum,“ segir Shea. 

Andlit flóttamanns sem lenti í höndunum á lögreglunni í Ungverjalandi.
Andlit flóttamanns sem lenti í höndunum á lögreglunni í Ungverjalandi. AFP

Hún segir að til þess að sannfæra sig og aðra um ágæti samningsins haldi ráðamenn í ríkjum ESB því fram að samningurinn við Tyrki hafi skilað þeim árangri að færri flóttamenn komi til ríkja ESB.

„Það er alveg rétt enda kemst fólk ekki til ríkja ESB. En þýðir þetta að flóttafólkið sé öruggt? Nei því það situr fast í Tyrklandi. Í landi sem er þegar heimili þriggja milljóna flóttamanna og glímir við alvarleg innri vandamál sem síst hafa skánað að undanförnu,“ segir Shea.

AFP

Amnesty International hefur rannsakað aðstæður í Tyrklandi og niðurstaðan er sú að Tyrkland er ekki öruggt ríki og alþjóðleg lög kveða á um að ekki megi senda fólk aftur til ríkja sem ekki eru örugg, bæði sé hætta á að mannréttindi séu brotin á fólki og að ekki sé virtur réttur þess sem flóttafólks.

Shea segir að stór hluti af þeim rannsóknum sem hún og teymi hennar hafa unnið á aðstæðum fólks í Tyrklandi hafi verið gerðar fyrir lok júní í fyrra. Um miðjan júlí var gerð valdaránstilraun í landinu og í kjölfarið er dómskerfið lamað auk fjölmargra annarra þátta, svo sem fjölmiðla. Staðan í Tyrklandi fer því sífellt versnandi og stefnir sífellt frá því að vera lýðræðisríki þar sem mannréttindi eiga að ríkja.

AFP

Evrópusambandið hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2012 fyrir yfir sex áratuga framlag til friðar og að koma á lýðræði og mannréttindum í Evrópu. Shea segir að Evrópa gangi í raun gegn öllu því sem hún stóð fyrir í lok seinni heimsstyrjaldarinnar og í raun sé verið að koma í veg fyrir að fólk geti flúið og sitji því fast í aðstæðum eins og þeim sem eru í ríkjum eins og Líbýu, Erítreu og Súdan.

Að koma í veg fyrir að fólk komist til ríkja bandalagsins getur þýtt að hundruð þúsunda eða jafnvel milljónir festast í ríkjum eins og Líbýu, Erítreu, Sýrlandi og Súdan. „Ef svo verður eigum við von á ólýsanlegum mannlegum hörmungum. Ég vil ekki einu sinni hugsa þá hugsun til enda en ef af verður þá er flóttamannasáttmáli Sameinuðu þjóðanna orðinn að engu,“ segir hún.

Einskismannsland Jórdanía/Sýrland.
Einskismannsland Jórdanía/Sýrland. AFP

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) veitir flóttamönnum heims vernd og aðstoð. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna stofnaði Flóttamannastofnunina árið 1951 og eru höfuðstöðvar hennar í Genf í Sviss. Í upphafi var áherslan lögð á að koma yfir milljón flóttamönnum til aðstoðar eftir seinni heimsstyrjöldina. 

„Við verðum að treysta því að áfram verði ríkisstjórnir sem hafa mannúð að leiðarljósi til staðar sem og samtök og einstaklingar sem eru reiðubúin til þess að halda þessari baráttu áfram.

Ríki eins og Ísland, sem þegar er með áætlun um móttöku flóttafólks, getur gert ýmislegt. Því þrátt fyrir að Ísland hafi kannski ekki tekið á móti mjög mörgum flóttamönnum þá skilar þetta árangri.

JOE KLAMAR

Með þessu hafa Íslendingar jafnvel bjargað lífi þessa fólks sem hefur fengið tækifæri til þess að setjast hér að. Miðað við efnahagslega stöðu Íslands ætti landið að geta tekið á móti fleiri flóttamönnum og vonandi verður það raunin. Að minnsta kosti segir ný ríkisstjórn Íslands að hún ætli að taka á móti fleirum en hingað til hefur verið gert. Þetta er mjög gott og hefur áhrif á alþjóðasamfélagið. Að lítið land eins og Ísland leggi sitt af mörkum á þessu sviði,“ segir Shea og bætir við að taka þátt í móttöku flóttafólks er lykilatriði í að leysa vanda flóttafólks og fleiri ríki mættu fara að dæmi Íslendinga.  

AFP

„Þið getið tekið á móti svo miklu fleirum og það má aldrei líta fram hjá ábatanum af því að fá nýja einstaklinga til landsins, fólk með ólíka menntun og ólíkan bakgrunn.

Ef fólk gæti sett sig í spor þeirra sem búa við ömurlegar aðstæður í flóttamannabúðum í Grikklandi eða Tyrklandi. Eða í gámum í Ungverjalandi þá efast ég ekki um að þeir sem berjast á móti komu flóttafólks sjái að sér. Það getur enginn viljað annarri manneskju svo illt að hún búi við aðstæður sem þar er boðið upp á til langframa,“ segir Shea.

AFP

Í stefnuskrá ríkisstjórnar Íslands segir orðrétt:

Í fjölmenningarsamfélagi felst mannauður og fjölbreytt reynsla sem er til þess fallin að auðga samskipti einstaklinga. Innflytjendum verði auðveldað að verða fullgildir og virkir þátttakendur í íslensku samfélagi.

Vandað verði til reglubundinnar móttöku kvótaflóttafólks og stefnt að því að taka á móti fleiri flóttamönnum. Eftir sem áður verði fjármagn tryggt til neyðaraðstoðar á vegum alþjóðlegra stofnana.

Styðja verður við innleiðingu nýrra útlendingalaga til þess að tryggja virkni þeirra gagnvart viðeigandi stofnunum og þjónustu. Hafa skal mannúðarsjónarmið að leiðarljósi við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd, samanber skyldur í samræmi við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, og afgreiðslutími styttur án þess að það bitni á vandaðri málsmeðferð.

Einfalda skal veitingu atvinnuleyfa fyrir fólk utan Evrópska efnahagssvæðisins. Meta ber menntun þeirra sem flytjast til Íslands að verðleikum og tryggja að aðbúnaður geri landið eftirsóknarvert til framtíðar.

Landamæri Ungverjalands og Serbíu.
Landamæri Ungverjalands og Serbíu. AFP

Shea segir að það megi engan tíma missa og þjóðir heims hafi einfaldlega ekki tíma til þess að velta vöngum yfir því í hverju aðstoðin á að vera fólgin.

„ Við hefðum þurft að grípa inn í gær. Ísland er lítið land en verg landsframleiðsla er svo margfalt meiri hér heldur en til að mynda í Tyrklandi. Samt sem áður hefur Tyrkland sett 11 milljarða evra í að veita flóttafólki aðstoð.

Frá Ungverjalandi árið 2015.
Frá Ungverjalandi árið 2015. AFP

Flóttafólk er ekki byrði heldur miklu frekar ávinningur. Ég kem frá Kanada og þar vitum við hvað innflytjendur hafa auðgað landið okkar. Þetta eru ekki fórnarlömb heldur fólkið sem lifði af. Við hjá Amnesty International viljum minna stjórnvöld og stjórnmálamenn á að horfa ekki á þetta fólk sem vandamál heldur ávinning,“ segir Shea.

Félagar í Amnesty International reyni að gera hvað sem þeir geti til þess að fá ríkisstjórnir til þess að skilja hver staðan er.

Serbía 2015.
Serbía 2015. AFP

„Við erum að tala um fólk. Ekki bara tölur heldur 21 milljón jarðarbúa sem eru á flótta utan heimalandsins og þar erum við ekki að tala um alla þá sem eru á vergangi í heimalandinu. Evrópa verður að taka við fleirum en hún gerir. Það er ekki bara hægt að henda peningum í eitthvert land eins og Tyrkland og halda að það leysi vandann,“ segir Shea.

Spurð að því hvort sú andstaða skipti máli, sem ákveðnir stjórnmálaflokkar hafa sýnt innflytjendum og móttöku flóttafólks, ekki síst ef múslimar eiga í hlut, tekur Shea undir það. Ekkert óvanalegt sé að í stað þess að taka á eigin vandamálum sé ábyrgðinni varpað annað.

AFP

„Það er okkar hlutverk að benda á mikilvægi samstöðu í stað þess að reyna að losa okkur við eitthvað sem gæti skapað vandamál. Svarið við öfgaflokkum og skoðunum þeirra er ekki að losa sig við það sem deilt er um til þess að komast hjá umræðunni. Því þegar fólk hittir annað fólk þá sérð það að það er mannlegt – þrátt fyrir að fólk komi annars staðar frá er það eins og þú. Fjölbreytni auðgar samfélögin eins og allir vita,“ segir Shea.

Stór hluti af starfi Shea felst í því að ræða við fólk sem hefur flúið og þá sem veitt geta upplýsingar um brot á mannréttindum. „Ég sem lögfræðingur og baráttumanneskja fyrir mannréttindum tel að sannleikurinn eigi að vera sagður. Við eigum að ræða við þá sem lifðu af, skrá sögu þeirra og treysta á að fólk láti ekki gabbast af lygafréttum. Lygafréttir og það að hagræða sannleikanum hefur alltaf verið hluti af tilveru okkar og er ekkert nýtt af nálinni. Sannleikurinn er sagna bestur eins og dæmin hafa sýnt og sannað. Ég treysti því að svo verði áfram,“ segir Shea. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert