Snýst allt um trúverðugleikann

Sigurður Hannesson, fyrrverandi varaformaður framkvæmdahóps stjórnvalda um losun hafta.
Sigurður Hannesson, fyrrverandi varaformaður framkvæmdahóps stjórnvalda um losun hafta. mbl.is/Golli

„Með því að leita samninga við þessa aflandskrónueigendur hafa stjórnvöld verið að senda kolröng skilaboð. Líkt og ég hef bent á áður. En ástæðan fyrir því er ekki endilega kjörin eða annað slíkt heldur fyrst og fremst sú staðreynd að ef orð og efndir fara ekki saman þá rýrnar trúverðugleikinn. Það er grundvallarvandinn.“

Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri hjá Kviku og fyrrverandi varaformaður framkvæmdahóps stjórnvalda um losun hafta, í ljósi frétta af því að bandaríski vogunarsjóðurinn Loomis Sayles hafi hafnað tilboði íslenskra stjórnvalda um kaup á aflandskrónum í kjölfar viðræðna við sjóðina sem fram fóru nýverið.

Frétt mbl.is: Stór vogunarsjóður hafnar tilboðinu

Vogunarsjóðurinn á um þriðjung þeirra aflandskróna sem ekki hefur verið samið um kaup á eða um 33 milljarða króna. Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra hefur sagt að ákveðið hafi verið að semja við aflandskrónueigendurna til þess að þurrka upp snjóhengju aflandskróna. Með gjaldeyrisútboði Seðlabankans síðasta sumar hafi það mistekist.

Sigurður bendir á að mikilvægi trúverðugleika sé ekki bundinn við þetta eina tiltekna mál. Hann rifjar upp í því sambandi að síðasta sumar hafi eigendur aflandskróna fengið þau skilaboð að annað hvort tækju þeir þátt í gjaldeyrisuppboðinu eða þeir færu aftast í röðina þegar kæmi af því að losa fjármagnshöftin.

Frétt mbl.is: Misstu af tækifærinu í fyrra

Stjórnvöld hafi síðan tekið þá ákvörðun fyrr á þessu ári að semja við eigendur aflandskrónanna þvert á fyrri skilaboð. Ákvörðun Loomis Sayles væri vafalaust bein afleiðing af því. Vogunarsjóðurinn hefði veðjað á það síðasta sumar að stjórnvöld myndu ekki standa á því sem þá hafi verið sagt og hagnast á því. Nú virtist hugmyndin að endurtaka leikinn.

„Það var lögð fram áætlun um losun hafta í júní 2015. Sú áætlun gekk eftir og við höfum ýmsar mælingar á því hversu vel hún gekk eftir eins og mælingar matsfyrirtækjanna sem hækkuðu lánshæfismat Íslands og íslenskra fyrirtækja mánuðina á eftir fyrir utan annað. Þetta gerðist vegna þess að orð og efndir fóru saman,“ segir Sigurður. 

„Það sem stjórnvöld sögðu gekk eftir. Núna á einhvern veginn að fara að breyta út frá því. Það er mikið umhugsunarefni auðvitað fyrir alla vegna trúverðugleikans,“ segir hann ennfremur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert