Fundað um mál lögreglumannsins á morgun

Lögreglustöðin.
Lögreglustöðin. mbl.is/Golli

Grím­ur Gríms­son yf­ir­lög­regluþjónn segir að í fyrramálið verði tekin ákvörðun um hvort vísað verði frá störfum lögreglumanni, sem ákærður hefur verið af héraðssaksóknara vegna gruns um að hafa beitt mann, sem var í haldi lögreglu, ofbeldi.

Það verður fundað snemma í fyrramálið en yfirstjórn embættisins tekur þá ákvörðun; lögreglustjóri og nánasta aðstoðarfólk,“ segir Grímur í samtali við mbl.is. Lögreglumaðurinn sem um ræðir starfar í miðlægri rannsóknardeild.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að á meðal málsgagna sé upptaka af umræddu atviki sem afhent var embætti héraðssaksóknara. Manninum var ekki vikið frá störfum þegar málið kom fyrst upp.

Grímur segir að við þá ákvörðun hafi verið horft til þess að upplýsingar um alvarleika brotsins hafi fengist seint. Einnig hafi verið litið til þess hvernig aðrar brottvikningar höfðu áður verið metnar frá innanríkisráðuneytinu; þá hafi verið gerðar athugasemdir.

Vegna þessa var ákveðið að gera það ekki á rannsóknarstigi heldur ákveðið bíða og sjá hver niðurstaða rannsóknar yrði. Yfirstjórn embættisins tók þá ákvörðun,“ segir Grímur. Verði maðurinn dæmdur sekur getur það leitt til varanlegrar brottvikningar úr lögreglunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert