„Heilt yfir stöndum við okkur mjög vel“

Skólakerfið kemur vel út miðað við önnur lönd.
Skólakerfið kemur vel út miðað við önnur lönd. mbl.is/Styrmir Kári

„Skólarnir á Íslandi eru fyrirmyndarstofnanir. Heilt yfir stöndum við okkur mjög vel,“ segir Almar M. Halldórsson, sérfræðingur á Menntamálastofnun. Hann greindi frá niðurstöðum PISA-rannsóknarinnar í tengslum við einkenni nemenda og skóla á fjórða og jafnframt síðasta fundi menntavísindasviðs Háskóla Íslands um PISA í dag. 

Í þessari samantekt á niðurstöðum PISA var sjónum beint að einkenni skólanna og hvað er ólíkt milli landa einkum út frá kennslu í náttúrufræði og hvað gerist innan skólastofunnar. Löndin voru borin saman við tiltekið fyrirmyndarskólakerfi OECD.

Niðurstaðan byggir á upplýsingum frá skólastjórnendum og nemendum þar sem meðal annars var rýnt í rekstur skólans, hlutfall kennara á nemendahóp, aga í tímum og skólabrag svo fátt eitt sé nefnt. Þetta miðar að því að finna út hverjar eru hindranir fyrir nemendur.  

Almar M. Halldórsson, sérfræðingur hjá Menntamálastofnun.
Almar M. Halldórsson, sérfræðingur hjá Menntamálastofnun. mbl.is/Eyþór Árnason

Nemandinn fær stuðning svo hann fylgi jafnöldrum

Af þeim tólf atriðum sem voru mæld komu íslenskir skólar heilt yfir mjög vel út, að sögn Almars. Nánast í öllum tilvikum koma Norðurlöndin vel út og Ísland kemur best út miðað við hin Norðurlöndin. Í því samhengi bendir hann á að hér tíðkast ekki að láta nemendur sitja sama bekkinn tvisvar heldur fær nemandinn stuðning við hæfi svo hann geti fylgt skólafélögum sínum ólíkt því sem er víða á hinum Norðurlöndunum.

Innan íslenska skólakerfisins er mikill jöfnuður og lítill breytileiki milli skóla. „Þó að einhver munur hafi verið milli skóla á landsbyggðinni og í höfuðborginni í niðurstöðum á PISA þá er hann mjög lítill og innan marka,“ segir Almar og bendir á að það sé ekki á miklu að græða að bera skóla saman. „Við ættum frekar að beita okkur fyrir miðlægum breytingum og leggja áherslu á frekari samvinnu til að ná enn betri árangri,“ segir hann.

Á Íslandi eru um 130 grunnskólar. Það er eins og lítið menntaumdæmi í öðrum löndum, að sögn Almars. 

Almar bendir á annað atriði sem kemur mjög vel út og er ekki síst mikilvægt en það er að hér er rík áhersla lögð á að skólarnir séu uppeldisstofnun sem leggi ekki eingöngu áherslu á góðan námsárangur og einkunnir á blaði. „Það er mikill vilji til að sinna nemendum vel og skólar leggja metnað í marga hluti eins og að láta nemendum líða vel. Í öðrum löndum hefur áherslan verið að færast yfir á þetta,“ segir Almar.

Kennslu í náttúrufræði þarf að bæta í íslenskum grunnskólum.
Kennslu í náttúrufræði þarf að bæta í íslenskum grunnskólum. mbl.is/Eggert

Minni stýring nemenda  

Hér á landi velja nemendur hvaða leið þeir vilja fara í námi við 16 ára aldur. Í mörgum öðrum löndum einkum í Mið-Evrópu er nemendum beint inn á ákveðnar brautir í námi mjög snemma. Þetta er ekki talið gott fyrir nemendur og kemur íslenskt kerfi vel út miðað við þetta atriði.

Hins vegar kemur Ísland ekki vel út ef litið er til endurmenntunar kennara sem er ekki nægjanlega mikil, samkvæmt skýrslunni.

Annar þáttur sem kemur ekki vel út er náttúrufræðikennsla. Íslenskir nemendur hafa komið illa út úr náttúrulæsi í PISA. Tvennt er nefnt sem gæti haft áhrif á gengi nemenda, annars vegar eru fáir grunnskólakennarar með háskólagráðu í vísindum og hins vegar er aðstaða í skólastofunum til kennslu í náttúruvísindum ekki nægjanleg góð. Þetta var nefnt sem hindrun fyrir nemendur svo þeir gætu náð árangri. 

Í þessu samhengi bendir Almar á að lítill vilji hafi verið hjá stjórnvöldum til að leggja fé til að bæta búnað til að kenna náttúruvísindi og leggja áherslu á menntun kennara í náttúruvísindum.

Þrátt fyrir þetta bendir Almar á að fátt virðist vera í íslensku skólakerfi sem ætti að hindra að nemendur komi vel út úr því læsi sem er kannað með PISA.   

mbl.is

Bloggað um fréttina