Furða sig á skýrslu RNSA

Hjólreiðamaður. Mynd úr safni.
Hjólreiðamaður. Mynd úr safni. AFP

Stjórn Landsssamtaka hjólreiðamanna furðar sig á ýmsum atriðum í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa um banaslys hjólreiðamanns sem varð 21. desember 2015, þegar ekið var aftan á hjólreiðamann á Vesturlandsvegi vestan Höfðabakka.

Í ályktun stjórnarinnar segir að hjólreiðamaðurinn hafi verið vel útbúinn umfram kröfur laga og reglugerða.

„Útsýni var gott og lýsing með besta móti. Ekkert hefði átt að hindra ökumanninn í að sjá fram á veginn og varast slys. Bílstjórinn ók yfir lögmætum hámarkshraða sem bæði minnkar þann tíma sem hann hefur til að bregðast við hættum framundan og eykur líkur á alvarlegum meiðslum eða dauðsfalli við árekstur. Að auki voru þrír hlutir við framrúðu ökumanns sem trufluðu útsýni hans auk þess sem hann hafði verið á langri næturvakt.“

Ekkert lögboðið né aðfinnsluvert

Stjórnin segist meðal annars furða sig á því að talað hafi verið um að ekki hafi verið bakvísandi spegill á hjólinu og að hjólreiðamaðurinn hafi verið með, til viðbótar lágmarks lögboðnum útbúnaði, endurskin þar sem það lendir ekki í ljósgeisla bifreiða og að neonlitur á fatnaði auki ekki sýnileika við þessi birtuskilyrði.

„Ekkert af þessu er lögboðið né aðfinnsluvert. Ekkert af þessu er að finna í drögum að nýrri reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla. Ólíklegt er að þetta hafi skipt máli fyrir orsök slyssins. Jafnframt er ekki fjallað um þann lögboðna búnað sem var á hjólinu og skiptir mestu máli fyrir sýnileika hjólreiðamanns aftanfrá, ljós að aftan og glitaugu í fótstigum.

Því er haldið fram að hjólreiðamaður hafi ekki gætt nægilegrar aðgæslu með því að hjóla á veginum. Þessi fullyrðing er með ólíkindum. Vegurinn er lögboðin leið hjólandi a.m.k. meðan ekki er boðið upp á stíg meðfram þessari leið. Eitt helsta baráttumál Landssamtaka hjólreiðamanna frá upphafi er einmitt að slíkar stígar verði í boði meðfram öllum stofnbrautum.

Hjólreiðamaðurinn hafði valið þessa leið vegna þess að aðrar leiðir á stígum voru ófærar. Vegurinn er margar akreinar og umferð á þessum tíma er mjög lítil og lýsing á veginum það góð að ökumaður á auðvelt með að sjá það sem framundan er,“ segir í ályktuninni.

Sífellt fleiri nota hjólreiðar sem samgöngumáta.
Sífellt fleiri nota hjólreiðar sem samgöngumáta. mbl.is/Ómar

Hraðbrautir ekki leiddar í lög hér á landi

„Með vísan í erlendar reglur um hraðbrautir „motorway“ beinir RNSA „þeirri tillögu til Innanríkisráðuneytisins að taka til skoðunar að hjólreiðar verði bannaðar á fjölakreinavegum í þéttbýli þar sem umferðarþungi og hraði er mikill“.

Hraðbrautir hafa ekki verið leiddar í lög á Íslandi og er það okkar skilningur að ekki sé hægt að banna för hjólandi um vegi landsins með þeim hætti sem væri gert á hraðbrautum nema fyrst verði boðið upp á sambærilegar leiðir fyrir hjólandi. Ef hentugir stígar liggja meðfram stofnbrautum er sjálfgefið að fólk hjólar þar. Til þess þarf engin boð né bönn.“

Ítarlega greinargerð Landssamtaka hjólreiðamanna um þetta slys í Ártúnsbrekku 21. desember 2015 og skýrslu RNSA um það má lesa hér.

Fréttir mbl.is:
„Ég vil ekki boð og bönn“
Vilja skoða að banna hjólreiðar á fjölakreina vegum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert