Hugsaður sem lausn, ekki hótun

Boðaþing 22.
Boðaþing 22. Ljósmynd/Ja.is

Sigurður Garðarsson framkvæmdastjóri Naustavarar segir fyrirtækið auðmjúkt í garð íbúa Boðaþings 22 og alls enginn fjandskapur ríki á milli íbúa og Naustavarar. Deilumál sem upp sé komið sé fyrst og fremst tæknilegt og það þurfi að leysa.

Eins og kom fram fyrr í dag standa íbú­ar í þjón­ustu­íbúðum við Boðaþing í Kópa­vogi í deil­um við hús­eig­and­ann, Nausta­vör, dótt­ur­fé­lag Sjó­mannadags­ráðs. Um miðjan síðasta mánuð unnu íbú­ar dóms­mál vegna of­greiðslu hús­sjóðs í fjög­ur ár. 

Rekstr­ar­fé­lagið Nausta­vör á og rek­ur 95 ör­ygg­is- og þjón­ustu­íbúðir í Boðaþingi og búa þar um 140 eldri borg­ar­ar. Fimm þeirra höfðuðu mál gegn Nausta­vör og töldu sig hafa greitt of mikið í hús­sjóð. Héraðsdóm­ur dæmdi leigj­end­um í vil.

Sigurður segir að leigusamningar séu gerðir af fúsum og frjálsum vilja beggja aðila en fólk þarf að vera 60 ára eða eldra til að búa í Boðaþingi. „Í leigusamningi er fjárhæð greiðslu tilgreind með tvennum hætti; annars vegar með greiðslu húsaleigu og hins vegar með greiðslu húsgjalds,“ segir Sigurður.

Naustavör telur dómsmálið snúast um tæknilegt lagaatriði

„Héraðsdómur kemst að þeirri niðurstöðu að við höfum ekki þá undanþáguheimild í húsaleigulögunum sem við höfum alla tíð talið okkur hafa. Þar af leiðandi fellur dómur um að við höfum ekki þessa undanþáguheimild og megum því ekki innheimta þessa kostnaðarliði,“ segir Sigurður en dómurinn segir meðal annars að aldraðir séu þeir sem eru 67 ára og eldri, ekki 60 ára og eldri eins og íbúar í Boðaþingi. „Við erum í tæknilegu vandamáli sem við erum að reyna að leysa sem Þorsteinn er ósáttur við.

Þor­steinn Þor­steins­son, íbúi í Boðaþingi 22, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að íbúar væru í lausu lofti vegna málsins og óvíst væri hver næstu skref yrðu.

Þorsteinn talar ekki fyrir hönd allra íbúa

„Þorsteinn er formaður íbúafélags Boðaþings og einn þeirra fimm sem lagði málið fyrir dóm. Hann talar ekki máli allra eins og hann talar í svona fréttum. Hann talar bara fyrir sig og þá sem hafa beðið hann að tala fyrir sig. Það er fjöldinn allur af fólki og leigjendum okkar sem er ekki á sama máli og hann. Þetta er mjög erfitt mál fyrir alla aðila.

Spurður hvort það sé ekki skrýtið að gefa íbúum frest fram í næstu viku til að falla frá kröfum eftir að dómur fellur í málinu segir Sigurður aðdraganda málsins lengri. 

Það var gerður samningur með upplýstu samþykki beggja aðila um þessar fjárhæðir og greiðslur þessara fjárhæða. Af lagatæknilegum ástæðum var farið í mál við okkur og þá kemur í ljós að einhvern hluta af kostnaðinum sé ekki heilmilt að innheimta vegna þess að hann heiti húsgjald en ekki húsaleiga. Við þetta eru mjög margir íbúar, sem eru með leigusamning við okkur, ósáttir. Þeir vilja líta málið eins og þeir hafi gert þennan samning og hann standi eins og hann var gerður, hvort sem það var lagatæknilega séð rétt eða rangt. Við munum hins vegar ekki deila við dómarann,“ segir Sigurður en Naustavör hefur ekki tekið ákvörðun um hvort dómnum verði áfrýjað.

Vilja ljúka afgreiðslu málsins sem fyrst

Hann segir að þeim íbúum sem skrifa ekki undir viðaukann verði ekki vísað út og haft verður samband við alla leigjendur í byrjun næstu viku. „Þeir sem ekki samþykkja að skrifa undir viðaukann fá uppsögn. Henni mun fylgja bréf þar sem þeim verður sagt að þeir fái annan samning sem verður í samræmi við þá verðskrá sem mun endurspegla það sem það kostar okkur að veita þessa þjónustu. Við getum ekki fyrr en lyktir málsins liggja fyrir vitað á hvaða kjörum sá samningur verður. Þeir búa þá við ákveðna óvissu og það er akkúrat þeirri óvissu sem við viljum eyða. Þess vegna viljum við ljúka afgreiðslu málsins sem fyrst og viðaukinn er hugsaður sem lausn, ekki ógn eða hótun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert