Símanúmer víxluðust vegna framkvæmda

Framkvæmdirnar fóru fram á Eskifirði.
Framkvæmdirnar fóru fram á Eskifirði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Vegna framkvæmda við ofanflóðavarnir í Ljósá á Eskifirði datt símasamband út í nokkrum götum í bænum í fyrradag með þeim afleiðingum að númer á heimasímum víxluðust í einhverjum húsum.

Í samtali við mbl.is sagðist íbúi við eina af þessum götum á Eskifirði, sem ekki vildi koma fram undir nafni, hafa ætlað að hringja í nágranna sinn en hafi í staðinn lent á öðrum nágranna. Íbúinn bætti því við að heimasíminn hans hafi verið kominn í hús annars staðar í bænum. Hann taldi að mörg símanúmer hefðu víxlast og sagði að allt hafi verið „út og suður“.

Kvörtuðu við fjarskiptafyrirtækin

Fjarðabyggð stóð fyrir framkvæmdunum en fyrirtækið Míla þurfti vegna þeirra að setja stykki í fjóra koparstrengi til að koma þeim tímabundið út fyrir framkvæmdasvæðið.

Að sögn Sigurrósar Jónsdóttur, upplýsingafulltrúa Mílu, kom í ljós eftir að búið var að tengja allt saman að eitthvað hafði misfarist. Höfðu þá einhverjir íbúar haft samband við sín fjarskiptafyrirtæki, sem höfðu í framhaldinu samband við Mílu og óskuðu eftir lagfæringu vegna heimasímanna.

Sigurrós útskýrir málið þannig að koparstrengirnir hafi verið settir saman samkvæmt hefðbundnum reglum. Eftir að strengirnir voru aftur skoðaðir eftir kvartanir íbúanna kom í ljós að fyrir mörgum árum hafði þeim verið raðað vitlaust saman. Þegar þeim var svo raðað rétt saman í fyrradag hafi símanúmerin víxlast.

Fyrirtækið Míla annaðist vinnuna við koparstrengina.
Fyrirtækið Míla annaðist vinnuna við koparstrengina.

Tók næstum sólarhring að laga

Hún segir að langan tíma hafi tekið, næstum því sólarhring, að rekja hvern vír fyrir sig til að finna út hvert hann ætti að fara. Í framhaldinu þurfti að hringja í númerin til að kanna hvort allt væri komið í lag. Vinnan við lagfæringuna hófst um fimmleytið í fyrradag og stóð yfir langt fram á kvöld. Hún hélt svo áfram í gærmorgun.

Sigurrós bætir við vandræði hafi verið við eina götu, Steinholtsveg, en hugsanlega hafi heimasímar víxlast við aðrar götur líka. Upphaflega átti 60 mínútna rof að verða á landlínunni en eins og áður segir varð það hátt í sólarhringur. „Það átti að verða þetta stutta rof en svo kemur þetta upp úr krafsinu,“ segir hún.

Hefur gerst áður

Spurð segir hún að víxlun sem þessi geti gerst þegar verið er að vinna með strengi, enda séu allt að 100 vírar inni í hverjum og einum þeirra. Til að geta fundið réttu strengina á móti eru þeir litakóðaðir.

„Þetta hefur gerst en þetta er mjög sjaldgæft,“ segir Sigurrós og nefnir að það hafi einnig gerst að hringt hafi verið fyrir mistök í nágrannahús vegna þess að strengur hafi verið farinn að leka. Í slíkum tilfellum þurfi að skipta um streng en það hafi ekki átt við á Eskifirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert