„Ég á ekkert heimili í dag“

Eze Okafor er frá Nígeríu. Hann flúði landið eftir að …
Eze Okafor er frá Nígeríu. Hann flúði landið eftir að hafa orðið fyrir árás Boko Haram. Ljósmynd/Úr einkasafni

Tæpt ár er nú liðið síðan Nígeríumanninum Eze Okafor var vísað úr landi á meðan umsókn hans um hæli hér af mannúðarástæðum yrði tekin fyrir. Var brottvísunin framkvæmd með vísan til Dyflinnarreglugerðarinnar því Eze hafði fyrir mörgum árum sótt um hæli í Svíþjóð en verið synjað.

Og enn hafa engin svör borist frá Útlendingastofnun. Eze er í felum í Svíþjóð þar sem hann er upp á náð og miskunn annarra, meðal annars Íslendinga, kominn.

„Ég er enn vongóður um að fá jákvætt svar,“ segir Eze í samtali við mbl.is. Hann viðurkennir að biðin hafi tekið sinn toll af hans andlegu og líkamlegu heilsu. „Þessi langa bið hefur haft vond áhrif á mig. Mér líður enn verr en áður,“ segir Eze sem flúði heimaland sitt Nígeríu eftir að hafa orðið fyrir árásum og ofsóknum vígamanna hryðjuverkasamtakanna Boko Haram. 

Eze var lofað svörum frá Útlendingastofnun í byrjun þessa árs en allt hefur komið fyrir ekki. Fimm ár eru síðan hann kom fyrst til Íslands og sótti um hæli. Það var í apríl árið 2012.

„Ég á ekkert heimili í dag,“ segir Eze. „Ég hafði eytt meira en fjórum árum lífs míns á Íslandi þar sem ég lagði mig fram við að byggja upp líf mitt og framtíð. Núna, allt frá því að ég var sendur til Svíþjóðar, geri ég ekki annað en að færa mig frá einum stað til annars.“

Skýringin er sú að sögn Eze að innflytjendayfirvöld í Svíþjóð segjast ekki ætla að taka mál hans upp þar að nýju. „Þau segjast munu senda mig aftur til heimalandsins, þaðan sem ég flúði undan hættu og líflátshótunum.“

Sagan endalausa

Mál Eze hefur farið fram og til baka í íslensku stjórnkerfi allt frá því að hann kom hingað og sótti um hæli árið 2012. Þar sem hann hafði áður sótt um hæli í Svíþjóð og verið synjað var um­sókn hans ekki tek­in til efn­is­legr­ar meðferðar hjá Útlend­inga­stofn­un á grund­velli Dyfl­inn­ar­reglu­gerðar­inn­ar. Þá ákvörðun kærði hann til inn­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins sem svo staðfesti hana í apríl árið 2014. Ákveðið var að bera þá niður­stöðu und­ir héraðsdóm sem í fe­brú­ar 2015 sýknaði Útlend­inga­stofn­un og ríkið af kröf­um Eze sem byggðu m.a. á því að sex mánaða frest­ur stjórn­valda til end­ur­send­ing­ar væri liðinn. 

Dómn­um var áfrýjað til Hæsta­rétt­ar en ákveðið var að fella málið niður í kjöl­far þess að dóm­ar um sam­bæri­leg mál féllu haustið 2015 og eyddu þeirri réttaró­vissu sem hafði verið uppi um þenn­an þátt máls­ins.

Fyr­ir rúm­lega ári sótti svo Eze um dval­ar­leyfi af mannúðarástæðum hér á landi. Hon­um var ekki leyft að dvelja hér á landi á meðan málið væri tekið fyr­ir og var hann send­ur til Svíþjóðar í maí í fyrra.

Meðan á dvöl Eze hér á landi stóð hafði hann fengið vinnu, gat séð fyr­ir sér, eignaðist vini og kær­ustu. 

Í lífshættu

Mál Eze hlaut athygli í fjölmiðlum víða um heim, m.a. í Nígeríu. Hann segir að þeir sem vilji hann feigan þar í landi hafi mögulega séð þær fréttir. Því óttast hann nú enn frekar um líf sitt, verði hann sendur aftur til Nígeríu.

„Þess vegna biðla ég til almennings á Íslandi um að hjálpa og standa með mér og öðrum sem eru í svipaðri stöðu,“ segir Eze. „Til að reyna að sjá til þess að Útlendingastofnun svari umsókn minni og veiti manni í neyð alþjóðlega vernd.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert