Smokkurinn ekki í uppáhaldi

„Það er líklegt að þessi aukning sé vegna minni notkunar á smokkum. Það er eitthvað sem er að gerast í öllum heiminum, hjá öllum kynjum og öllum gerðum fólks,“ segir Álfur Birkir Bjarnason, ritari Samtakanna ´78, í samtali við mbl.is.

Eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær er mikil aukning í tíðni lekanda og sárasóttar, sérstaklega hjá körlum sem sofa hjá körlum. 

„Ég held að smokkurinn sé almennt ekki í miklu uppáhaldi hjá fólki í dag,“ segir Álfur en veit ekki hverjar ástæður þess eru. „Það er eitthvað sem við hvetjum sóttvarnalækni til að rannsaka; hvers vegna fólk notar ekki smokk eins og áður.“

Samtökin eru með kynheilbrigðisátak í gangi í samstarfi við HIV-félagið á Ísland og starfshóp um kynheilbrigði og kynheilsu. „Kynheilbrigðishópurinn fjallar um þessi málefni og er að reyna að komast að einhverri niðurstöðu eða leita aðgerða. Eins og staðan er núna vitum við ekki hvað er að gerast. Við vitum í rauninni alveg jafnmikið og sóttvarnalæknir,“ segir Álfur en hann veit ekki hverjar ástæðurnar fyrir aukningu lekanda og sárasóttar eru.

Okkar helstu hugmyndir eru að fólk fari oftar í tékk og greinist frekar eða noti minna smokkinn og smitist þá frekar. Ástæðurnar fyrir þessum tveimur ástæðum eru algjörlega óljósar og við getum ekkert sagt til um það. „Við hvetjum okkar félagsfólk og allan almenning til að nota smokkinn þegar hann á við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert