Kröfu Ólafs vísað frá Hæstarétti

Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. mbl.is/Ómar

Hæstiréttur Íslands hefur vísað frá dómi kröfu Ólafs Ólafssonar gegn ríkissaksóknara og íslenska ríkinu, um að viðurkennt yrði að skilyrði fyrir endurupptöku máls hans væru uppfyllt.

Staðfestir rétturinn þar með úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem fram kom að ákvörðun um endurupptöku máls væri á hendi endurupptökunefndar, skv. 1. málsgrein 34. greinar laga um dómstóla.

Tekið er fram að dómstólar ættu þó úrskurðarvald um það hvort gætt hefði verið fyrirmæla laga þegar nefndin tók afstöðu til endurupptökubeiðninnar og gætu þá fellt ákvörðun nefndarinnar úr gildi yrðu taldir slíkir annmarkar á henni.

Hins vegar væri það ekki á færi dómstóla að taka nýja ákvörðun í málinu, eins og krafa Ólafs fæli í raun í sér. Var kröfu hans því vísað frá dómi, að því er fram kemur í úrskurði Hæstaréttar.

Ólaf­ur var sak­felld­ur í fe­brú­ar árið 2015 fyr­ir hlut­deild í markaðsmis­notk­un. Hann fór fram á það við end­urupp­töku­nefnd í maí 2015 að mál hans yrði tekið upp að nýju á þeim for­send­um að Hæstirétt­ur hefði lagt rangt mat á sönn­un­ar­gögn og að dóm­ar­ar í því hefðu verið van­hæf­ir.

Tekið skal fram að eftir stendur krafa Ólafs um að úrskurður endurupptökunefndar verði felldur úr gildi, þar sem frávísunarkrafa ríkissaksóknara og íslenska ríkisins, sem laut að því, var ekki tekin til greina.

Búast má því við að sú krafa verði tekin til efnislegrar meðferðar hjá héraðsdómi.

mbl.is
Loka