Næst verða vogunarsjóðir ekki fremstir

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata.
Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, spurði hvort ríkisstjórnin hefði áform um að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka og Landsbankans í óundirbúnum fyrirspurnartíma Alþingis í dag.

Hún spurði Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra hvort farið yrði í að einkavæða bankana á nýjan leik sem myndi þýða „endurreisn hrunsins“. Benedikt svaraði því til að engin sérstök áform væru um slíkt og sagði að sömu mistökin yrðu ekki gerð. Hann sagði að ef farið yrði í að selja hlut ríkisins í bönkunum yrði vandað til verka og farið yrði hægt í það. Það yrði frekar gert á nokkrum kjörtímabilum ef út í það yrði farið. 

Ásta Guðrún ítrekaði spurningu sína og spurði ennfremur hvernig farið yrði í að vanda sig og spurði hvort engum reglum yrði fylgt eftir við söluna líkt og síðast. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði Benedikt einnig um mögulega sölu á ríkisbönkum. Hann spurði hvort erlendir sjóðir líkt og vogunarsjóðir, sem keyptu hlut í Arion banka nýverið, yrðu jafnvelkomnir fjárfestar þegar kemur að sölu á ríkisbönkum. 

Benedikt sagði að þegar aðrir hlutir sem eru í eigu ríkisins yrðu seldir mundu önnur vinnubrögð verða viðhöfð. Hann útskýrði það ekki að öðru leyti en að þá yrðu vogunarsjóðirnir ekki settir fremst í röðina.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert