Nauðsynlegt að þekkja náttúruna

Við gamalt spil sem stendur á ystu klettum á Malarrifi. …
Við gamalt spil sem stendur á ystu klettum á Malarrifi. Meðal annars út frá því spunnu nemarnir með heimildum frásögn um sjávarhætti. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarson

Landvörður þarf að hafa hugsjónir og vera óhræddur við að berjast fyrir hagsmunum og vernd náttúrunnar,“ segir Jón Björnsson, þjóðgarðsvörður á Snæfellsnesi. Alls 33 útskrifuðust á dögunum af landvarðanámskeiði Umhverfisstofnunar, en slík hafa verið haldin um árabil.

Með plagg sem staðfestir þátttöku fá þeir sem útskrifast gjaldgengi í störf landvarða. Jón var umsjónarmaður námskeiðsins, þar sem fjöldi leiðbeinenda miðlaði ráðum og reynslu.

Landvörður mótar starfið sjálfur

Á annað hundrað landverðir eru ráðnir til starfa á hverju ári. Þeim fjölgar og þar ræður mikil fjölgun ferðamanna á síðustu árum. Einnig hefur heilsársstörfum á þessum vettvangi verið bætt við.

Þeir sem ráða landverði til starfa eru þjóðgarðurinn á Þingvöllum, Vatnajökulsþjóðgarður og Umhverfisstofnun, sem hefur umsjón með þjóðgarðinum Snæfellsjökli og á annað hundrað friðlýstum svæðum víða um land.

Jón Björnsson, þjóðgarðsvörður á Snæfellsnesi.
Jón Björnsson, þjóðgarðsvörður á Snæfellsnesi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarson


„Það vantar alltaf landverði til starfa, það er fólk sem hefur sótt námskeiðin sem við stöndum fyrir. Til starfa kemur gjarnan ungt fólk sem staldrar ekki alltaf lengi við og því er endurnýjunin talsvert. Svo er líka eftirsóknarvert að fá inn nýtt fólk með góðar hugmyndir,“ segir Jón Björnsson sem um árabil var landvörður á Hornströndum.

„Á hverju svæði mótar landvörður starfið sitt að nokkru leyti sjálfur, þótt eftirlit og úrbætur séu alltaf í forgangi. Margir hafa bryddað upp á skemmtilegum nýjungum, svo sem að miðla allskonar fróðleik til ferðamanna, bæði með gönguferðum og í gestastofum.“

Lesa í ský og hlusta á haf

Umhverfisstofnun hélt landvarðanámskeið nýlega og sá sem þetta skrifar var þar meðal þátttakenda. Af náminu og fyrirkomulagi þess er það að segja að fyrst voru teknir fyrir bóklegir þættir, eins og lög og reglur um náttúruvernd, stjórn friðlýstra svæði og einnig tæpt á náttúrufræði almennt, sjálfbærni og málefnum framtíðar. Einnig kynnti fólk sem starfar á þessum vettvangi störf sín. Lagði það áherslu á að nauðsynlegt væri að fólk þekkti vel náttúru og sögu þess svæðis þar sem vaktin er staðin. Nefndi Jón Björnsson til dæmis í því sambandi að sér hefði á Hornströndum lærst að lesa í ský og hlusta á hafið og fá þannig veðurspá næsta dags.

Á námskeiðinu fóru landvarðanemar vestur á Snæfellsnes og tóku þar …
Á námskeiðinu fóru landvarðanemar vestur á Snæfellsnes og tóku þar meðal annars ýmsar vettvangsæfingar, svo sem náttúrutúlkun. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarson


Þá þarf landvörður að hafa félagslæsi og góða færni í samskiptum. Bjóða góðan daginn og brosa, beina fólk á rétta braut en taka af festum á erfiðum málum. Því fór nokkur hluti námskeiðsins í fræðslu um góða hætti í samskiptum Þá var fjallað um hvernig best væri að standa að ýmsum framkvæmdum sem landverðir hafa með höndum. Einnig var farið ítarlega yfir öryggismál, með heimsóknum til Neyðarlínunnar og þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar.

Fræðsluþátturinn æ stærri

Einn þáttur í landvarðanáminu var vettvangsnám á Gufuskálum á Snæfellsnesi. Þar fékk fólk fræðslu um fjölbreytta náttúru svæðisins – jökul, hraun og haf – og við Malarrif og Lóndranga var fólki kennt að skipuleggja og fara fyrir fræðslugöngum; afla sér upplýsingar um svæði og segja frá staðháttum.

„Fræðsluþátturinn verður æ stærri þáttur í landvörslu enda er náttúra landsins það sem helst lokkar ferðamenn til Íslands,“ segir Jón Björnsson.

Iðunn Hauksdóttir
Iðunn Hauksdóttir mbl.is/Sigurður Bogi Sævarson


Upplifun og önnur sýn á landið

„Landvarðanámið veitti mér alveg nýjan skilning á mörgu og sérstaklega fannst mér gaman að kynnast náttúrutúlkun, því að segja fólki frá áhugaverðum stöðum og atriðum í umhverfinu. Sem náttúrufræðingur þekki ég til margs á þessu sviði, en að túlka sögu, menningu og náttúrufræði hvers staðar og færa í orð er nýtt fyrir mér,“ segir Iðunn Hauksdóttir framhaldsskólakennari sem er uppalin á bænum Votalæk á sunnanverðu Snæfellensi en býr nú í Stykkishólmi.

„Ég er vel staðkunnug til dæmis í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Mér fannst fróðlegt að kynnast svæðinu út frá nýjum vinkli, öðlast aðra sýn og upplifun á svæði sem maður þekkir fyrir. Svona getur maður endalaust bætt við sig þekkingu,“ segir Iðunn sem hefur hug á að komast í landvörslustörf í sumar.

„Landvörður er leiðbeinandi og það er spennandi að setja sig inn í ýmis mál og staðhætti og miðla upplýsingunum áfram. Svo er ábyggilega gaman að starfa við náttúruvernd í afarfjölbreyttu starfi.“

Haraldur Auðbergsson
Haraldur Auðbergsson mbl.is/Sigurður Bogi Sævarson


Ögrun að kynnast nýjum stað

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á ferðalögum og útiveru og að afla mér menntunar sem landvörður var því kannski rökrétt skref,“ segir Haraldur Auðbergsson, trésmiður á Egilsstöðum. Þrátt fyrir að vera búsettur austur á landi kom Haraldur vikulega suður á fyrirlestra námskeiðsins sem voru einnig sýndir þátttakendum á sérstökum námsvef.

„Það hentaði mér betur að mæta á staðinn og lét mig hafa það, þótt slíku fylgdi fyrirhöfn sem kostaði sitt,“ segir Haraldur sem hefur flækst víða um landið á undanförnum árum, þá ekki síst Norðausturlandið

„Já, ég þekki til við Snæfell, Kárahnjúka, Öskju og í Jökulsárgljúfrum. Snæfellsnesið, þar sem við tókum staðarnámið, var hins vegar alveg ný veröld fyrir mér. Því var talsverð ögrun að kynnast staðháttum þar og setja upp skipulagða fræðslugöngu. Þá var mjög lærdómríkt að kynnast starfi Gæslunnar og Neyðarlínunnar, en öryggismál eru stór þáttur í starfi landvarða. Því fylgir meðal annars að sækja þarf námskeið í skyndihjálp og fjarskiptum áður en landvarðastörf á fjöllum hefjast.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert