Þrír með áfengisfrumvarpinu en 65 á móti

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

69 umsagnir um nýtt áfengisfrumvarp má finna á vef Alþingis. Þrjár þeirra eru jákvæðar í garð frumvarpsins en restin er nokkuð neikvæð. Þeir sem leggjast gegn frumvarpinu eru af ýmsum toga en þar má m.a. finna bindindissamtök, sveitarfélög, framhaldsskóla og félagasamtök, en einnig Bruggverksmiðjuna Kalda og Stefán Pálsson, sagnfræðing og bjóráhugamann. Fjölmiðlanefnd segist hins vegar ekki hafa skoðun á því hvort leyfa skuli áfengi í verslunum en leggur þó fram nokkrar athugasemdir. 

Frumvarpið var lagt fram á Alþingi í síðasta mánuði og gekk til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis 28. febrúar eftir fyrstu umræðu. 

Ekki til bóta fyrir bjórframleiðendur

Í umsögn Bruggmiðjunnar Kalda segir að breyting á  lögum varðandi verslun með áfengi sé ekki til bóta fyrir bjórframleiðendur á Íslandi. Er nefnt sem dæmi að verðsamkeppnin muni reynast erfið fyrir minni brugghús í landinu sem kemur niður á atvinnusköpun. Þá er það mat Kalda að verðlagning muni taka á sig breytta mynd sem mun ekki vera af hinu góða fyrir fyrst og fremst minni brugghús.

„Fyrirkomulag ÁTVR hefur reynst mjög vel, þó megi skoða breytingar og meiri sveigjanleika. Allir sitja við sama borð hjá ÁTVR,“ segir í umsögn Kalda. „Á meðan áfengisgjöld á Íslandi eru eins há og raun ber vitni, þá teljum við það ekki farsælt að fara með áfengi og tóbak í frjálsa verslun. Ísland hefur fengið mikið hrós fyrir okkar fyrirkomulag í sölu áfengis og tóbaks og við teljum það styðja við okkar lýðheilsu. Þar af leiðandi erum við alfarið á móti þessu frumvarpi.“

„Fyrirkomulag ÁTVR hefur reynst mjög vel, þó megi skoða breytingar …
„Fyrirkomulag ÁTVR hefur reynst mjög vel, þó megi skoða breytingar og meiri sveigjanleika. Allir sitja við sama borð hjá ÁTVR,“ segir í umsögn Kalda. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Þá tekur Stefán Pálsson í sama streng í umsögn sinni og segir að margir í hópi bjóráhugafólks séu uggandi vegna frumvarpsins.  Skrifar Stefán að bjórmarkaðurinn á Íslandi í dag sé gríðarlega öflugur þrátt fyrir smæð sína.

„Sölukerfi ÁTVR á stóran þátt í mótun bjórmarkaðarins,“ skrifar Stefán og bætir seinna í umsögn sinni við að í hópi bjóráhugamanna og framleiðenda bjórs á Íslandi sé ríkjandi það viðhorf að óskynsamlegt sé að rugga bátnum að ástæðulausu.

„Núverandi sölukerfi bjórs á Íslandi hefur tryggt og stuðlað að árangri sem vakið hefur aðdáun nágrannalandanna. Afar veigamikil rök þarf til að hrófla við því kerfi,“ skrifar Stefán.

Stefán Pálsson, sagnfræðingur og bjóráhugamaður, segir í umsögn sinni sölukerfi …
Stefán Pálsson, sagnfræðingur og bjóráhugamaður, segir í umsögn sinni sölukerfi ÁTVR eiga stóran þátt í mótun bjórmarkaðarins. mbl.is/Árni Sæberg

„Segið nei við þessu frumvarpi“

16 sveitarfélög og undirnefndir þeirra hafa sent frá sér umsagnir og leggjast þau öll gegn frumvarpinu. Nefna flestir lýðheilsusjónarmið í  því samhengi og segja frumvarpið til dæmis stangast á við stefnu stjórnvalda í áfengis- og vímuefnavörnum og vinni gegn forvarnastarfi sveitarfélaga.

Fulltrúar átta framhaldsskóla um allt land hafa sent frá sér umsagnir og leggjast þeir allir gegn frumvarpinu. „Segið nei við þessu frumvarpi,“ skrifar Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, til dæmis.

„Heilsa og velferð ungs fólk skiptir miklu máli til framtíðar og það hlýtur að vera hlutverk Alþingis að stuðla með lagasetningum að heilbrigðishvatningu og heilbrigðum lífsstíl. Breytingar á lögunum sem hér liggja fyrir þinginu eru afar stefnumarkandi til hins verra í forvörnum og telur undirrituð að þær muni ekki efla heilbrigði landans,“ skrifar Sigríður.

Þá nefnir hún einnig að breytingar á  lögum um áfengisauglýsingar myndu hafa neikvæð áhrif og „aukinn áróður í formi áfengisauglýsinga dynja á ungu fólki og sýna neyslu áfengis í glysheimi ásamt því gera áfengisneyslu aðlaðandi og eftirsóknarverðan lífsstíl.“

Fulltrúar átta framhaldsskóla lýsa yfir skoðun sinni á áfengisfrumvarpinu og …
Fulltrúar átta framhaldsskóla lýsa yfir skoðun sinni á áfengisfrumvarpinu og eru þeir allir neikvæðir í garð þess. mbl.is/Ernir

Skapar óöryggi og streitu

Aðrir sem lýsa yfir andstöðu sinni við frumvarpið eru bæði ÁTVR og Starfsmannafélag ÁTVR. Í umsögn starfsmannafélagsins segir að starfsmenn séu langþreyttir á umræðu um afnám einkaréttarins, sem ítrekað hefur skapað óöryggi og valdið streitu.

„Ljóst er að stórum hluta, u.þ.b. 450 starfsmanna ÁTVR, verður sagt upp störfum verði frumvarpið samþykkt – enda væri áfengissala ríkisins þar með úr sögunni. Það sem starfsfólki gremst þó einna helst eru eilífar rangfærslur í umræðunni og vanþekking og virðingarleysi gagnvart því mikilvæga starfi sem það vinnur í þágu lýðheilsu í landinu,“ segir í umsögn Starfsmannafélags ÁTVR.

Segja kröftum ríkisins betur varið í önnur verkefni en verslunarrekstur

Á þeim lista yfir umsagnir um frumvarpið sem finna má á vef Alþingis eru aðeins þrjár þar sem lýst er yfir beinum stuðningi við frumvarpið. Þeir aðilar eru Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð Íslands.

Fjölmiðlanefnd hefur sent frá sér umsögn þar sem athugasemdir eru gerðar við fjögur atriði frumvarpsins en því jafnframt lýst yfir að nefndin hafi hvorki skoðanir á því hvort leyfa skuli áfengi í verslunum né hvort heimila skuli áfengisauglýsingar. „Um er að ræða umdeilt pólitískt mál þar sem tekist er á um sjónarmið um frelsi annars vegar og lýðheilsu þjóðarinnar hins vegar,“ segir í umsögn Fjölmiðlanefndar.

Í umsögn Samtaka iðnaðarins kemur fram að þau séu hlynnt auknu frelsi í viðskiptum og að það eigi einnig við um viðskipti við áfengi. Þá er bent á að í frumvarpinu hafi verið komið til móts  við fyrri athugasemdir SI í veigamiklum atriðum, þ.e. um endurskoðun á auglýsingabanni.

„SI fagna þeim breytingum sem hafa verið gerðar á frumvarpinu og lýsa yfir stuðningi við frumvarpið eins og það liggur fyrir nú en vísa einnig til þeirra athugasemda sem fram komu í fyrri umsögnum,“ segir í umsögn SI og í því samhengi eru nokkur atriði áréttuð í umsögninni, þ.e. mikilvægi afnáms auglýsingabanns sem byggir á þeirri „grundvallarforsendu að markaðslögmál séu látin ráða för og íslenskum framleiðendum sé gert kleift að auglýsa vöru sína. SI leggja því ríka áherslu á að smásala verði ekki gefin frjáls án þess að auglýsa megi vöruna.“ Þá er einnig lögð áhersla á að það þurfi að endurskoða greiðslufyrirkomulag áfengisgjalds.

Í umsögn Starfsmannafélags ÁTVR segir að starfsmenn séu langþreyttir á …
Í umsögn Starfsmannafélags ÁTVR segir að starfsmenn séu langþreyttir á umræðu um afnám einkaréttarins, sem ítrekað hefur skapað óöryggi og valdið streitu. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Í umsögn Samtaka atvinnulífsins er sú skoðun samtakanna ítrekuð „að einokun ríkisins á smásöluverslun með áfengi eigi ekki að vera hluti af lögbundinni starfsemi ríkisins og að kröftum hins opinbera sé betur varið í önnur verkefni en verslunarrekstur,“ segir í umsögninni.

Þá er bent á þá áherslu samtakanna að hlutverk ríkisins sé ekki að reka verslanir eða aðra atvinnustarfsemi heldur að setja reglur um hvaða skilyrði aðilar þurfi að uppfylla sem það vilja gera. „Þá er eðlilegt að ríkið setji reglur um hvernig eftirliti skuli háttað og hvaða viðurlögum sé rétt að beita ef misbrestir verða. Einnig móti ríkið stefnu um fræðslu, forvarnir og meðferðarúrræði. Samtökin leyfa sér að benda á að lítið fari fyrir pólitískri ábyrgð á starfsemi ÁTVR í núverandi fyrirkomulagi en vandséð er hvernig fjölgun útsölustaða, lengdur afgreiðslutími og markaðsstarf þess fyrirtækis samræmist þeim lýðheilsusjónarmiðum sem andstæðingar frumvarpsins tala fyrir. Samtökin hvetja til þess að að aðilar sammælist um að núverandi fyrirkomulag ríkiseinokunar sé óheppilegt og sjónum sé beint að því að móta regluverk um fyrirkomulag sölu, lýðheilsusjónarmið og hvernig meðferðarúrræðum skuli háttað.“

Forvarnir árangursríkasta leiðin

Viðskiptaráð Íslands tekur í sama streng í sinni umsögn og segir að hið opinbera eigi ekki að standa í verslunarrekstri „enda hefur ráðið ávallt talað fyrir því að hið opinbera láti af rekstri sem einkaaðilar geta sinnt með hagkvæmari hætti.“ Það er jafnframt mat ráðsins að hægt sé að ná markmiðum um lágmörkun á skaðlegum áhrifum áfengisneyslu með öðrum leiðum en ríkiseinokun á smásölu áfengis.

„Viðskiptaráð telur jafnframt að breytingar þær sem boðaðar eru í frumvarpinu komi til með að auka hagkvæmni í smásölu áfengis án þess að skerða tekjur ríkissjóðs. Loks telur ráðið til bóta að banni við áfengisauglýsingum sé aflétt þar sem slíkt er til samræmis við flestar aðrar Evrópuþjóðir og jafnar samkeppnisstöðu innlendra og erlendra aðila á markaðinum,“ segir í umsögninni.

Þar er því jafnframt bætt við að það hafi ávallt verið mat Viðskiptaráðs að einkaaðilar séu betur til þess fallnir að standa í atvinnurekstri en hið opinbera.  Þá lýsir ráðið jafnframt yfir þeirri skoðun að forvarnir skipti mestu máli til þess að draga úr misnotkun á áfengi.

„Árangursríkasta leiðin til að draga úr misnotkun á áfengi er …
„Árangursríkasta leiðin til að draga úr misnotkun á áfengi er í gegnum forvarnarstarf, en ekki takmarkanir á frelsi einstaklinga til neyslu þess," segir í umsögn Viðskiptaráðs. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

„Árangursríkasta leiðin til að draga úr misnotkun á áfengi er í gegnum forvarnarstarf, en ekki takmarkanir á frelsi einstaklinga til neyslu þess. Þessu til stuðnings má benda á að áfengisneysla ungmenna hefur dregist verulega saman á undanförnum árum þrátt fyrir að aðgengi að áfengi hafi á sama tíma aukist vegna lengingar opnunartíma og fjölgunar verslana ÁTVR. Þetta er til marks um góðan árangur af forvarnarstarfi í skólum,“ segir í umsögn Viðskiptaráðs.

Þá hafa Samtök verslunar og þjónustu, SVÞ, sent á fjölmiðla umsögn sína sem samtökin sendu til nefndarsviðs Alþingis í dag en umsögnin er ekki komin á vef Alþingis.  Þar er því frumkvæði um að afnema einkarétt ríkisins varðandi smásölu á áfengi fagnað og segjast þau styðja það marmið.

„Þá benda SVÞ á mikilvægi þess að það frelsi í viðskiptum með áfengi sem hér er lagt til verði innleitt með bæði hagsmuni neytenda og verslun að leiðarljósi, hvort sem um er að ræða lýðheilsu eða frelsi í viðskiptum. Að mati SVÞ er því markmið fyrirliggjandi frumvarps fagnaðarefni en á móti kemur að samtökin telja frekari úrbóta þörf á því til að ná fram að fullu meginmarkmiði þess,“ segir í umsögninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert