Ferðamenn sækja meira í borgarana

Hamborgari og franskar.
Hamborgari og franskar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sterk króna er farin að hafa meiri áhrif en áður á þann fjölda ferðamanna sem sækir Ísland heim. Þetta finna veitingahúsin m.a. og hafa mörg hver brugðist við með því að hafa fleiri ódýrari rétti á matseðli, auk þess sem skyndibiti á borð við hamborgara og franskar rýkur út.

Þær kjötvinnslur sem Morgunblaðið hafði samband við í gær könnuðust flestar við aukna sölu á hamborgurum, miðað við árstíma.

Steinþór Skúlason, forstjóri SS, segir sölu á hamborgurum líklega 10-15% meiri en fyrir ári. Það sé öllu meiri aukning en almennt í kjötvörum. Þar sé jöfn aukning í flestum tegundum.

„Auðvitað horfir stór hluti ferðamanna í hvað maturinn kostar. Fólk kaupir þá það sem það þekkir, allir þekkja hamborgara og þeir seljast vel um allt land,“ segir Steinþór í umfjöllun um neysluhætti ferðamanna í Morgunblaðinu í dag.

Hörð samkeppni um ferðamennina

Fjöldi veitingastaða er rekinn í miðborg Reykjavíkur og þar er hörð samkeppni um ferðamennina. Mörg veitingahús bjóða hádegistilboð og dæmi eru um biðraðir út á götu þar sem tilboð er á súpu og brauði.

„Við seljum gríðarlegt magn af hamborgurum til veitingastaðanna, einkum á skyndibitastaðina, enda eru þeir líka orðnir býsna margir á landinu öllu. Síðan er mikil sala á borgurum í matvöruverslunum og ýmsu öðru kjötmeti. Lambakjötið selst einnig meira en áður,“ segir Guðmundur Ágústsson, sölustjóri Norðlenska í Reykjavík.

Icelandair Hotels reka nokkra veitingastaði í tengslum við sín hótel um landið. Stefán Viðarsson yfirkokkur segist vel kannast við þessa umræðu um að Ísland sé orðið dýrt ferðamannaland. Þar á bæ hafi menn brugðist við ákveðinni eftirspurn með því að bjóða upp á fleiri ódýrari rétti á matseðlunum, eins og pitsur, pasta, súpur og fiskrétti. Þetta hafi gefist mjög vel. Þannig sé „allt brjálað að gera“ í hádeginu á kaffihúsinu á Hótel Marina eftir að þar var farið að bjóða upp á súpu á tilboði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »