„Hellingur af ofbeldi“ á Litla-Hrauni

Fangarnir fyrrverandi sem rætt var við höfðu allir reynslu af …
Fangarnir fyrrverandi sem rætt var við höfðu allir reynslu af einangrunarvist á Litla-Hrauni. „Það var bara helvíti,“ segir einn þeirra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ofbeldi í öllum sínum birtingarmyndum þrífst inni á Litla-Hrauni, hvort sem það er tilfinningalegt, líkamlegt eða kynferðislegt. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem byggir á viðtölum við fyrrverandi fanga. Viðmælendurnir beittu margir sjálfir ofbeldi. „Jú jú auðvitað voru slagsmál og þau voru kannski ekki alvarleg en yfirhöfuð er alveg hellingur af slagsmálum […] hellingur af ofbeldi,“ segir einn þeirra.

Vímuefnaneysla er líka mikil í fangelsinu og miðað við lýsingar fanganna fyrrverandi er ekki erfitt að verða sér út um efni. Fjölmargar leiðir eru færar til að smygla inn fíkniefnum og öðrum varningi, m.a. í gegnum bílaþvottastöð.

Innsýn í upplifun fyrrverandi fanga

Um þetta er fjallað í lokaverkefni Nínu Jacqueline Becker til MA-gráðu í félagsfræði. Í rannsókn sinni tók Jacqueline viðtöl við ellefu fyrrverandi fanga, allt karlmenn sem voru á aldrinum 27–50 ára. Þeir höfðu allir afplánað að minnsta kosti einu sinni á Litla-Hrauni fyrir margvísleg afbrot. Viðtölin voru tekin fyrir um ári, vorið 2016. Leiðbeinendur Jacqueline voru dr. Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur og Ágúst Mogensen. 

Nína Jacqueline Becker, höfundur rannsóknarinnar.
Nína Jacqueline Becker, höfundur rannsóknarinnar. Úr einkasafni

Áhugi Jacqueline á rannsóknarefninu kviknaði á meðan hún vann sem fangavörður á Litla-Hrauni tvö sumur.

Markmið rannsóknarinnar var að fá innsýn í upplifun mannanna með tilliti til öryggis, valdbeitingar og/eða ofbeldis á meðan þeir afplánuðu refsidóma sína.

Annmarkar rannsóknarinnar eru þeir að viðmælendur eru fáir og því ekki hægt að alhæfa út frá niðurstöðum. Markmið eigindlegrar rannsóknar sem þessarar er þó ekki að alhæfa heldur gefa innsýn í sameiginlega reynslu og upplifun viðmælenda.

Jacqueline segir í samtali við mbl.is að hún telji frásagnir viðmælenda sinna trúverðugar en í viðtölum lýstu þeir til dæmis ofbeldi sem þeir sjálfir beittu og ofbeldi sem þeir urðu vitni að.

Goggunarröð meðal fanga

Meðal niðurstaðna rannsóknarinnar er að ákveðnir virðingarstigar eru við lýði á Litla-Hrauni. Sumir fangar hafa meiri völd sem þeir nýta sér óspart, sér og sínum til hagsbóta. Hluti viðmælenda Jacqueline sagðist sífellt hafa verið á varðbergi gagnvart samföngum sínum. Flutningar á milli ganga á Litla-Hrauni fóru mjög fyrir brjóstið á þeim. Slíkt upplifðu þeir sem aukarefsingu sem beitt væri gegn þeim án þess að þeir hefðu til þess unnið. Þá lýstu þeir stirðum samskiptum við starfsmenn og fannst þeim starfsmenn oft tala niður til sín og af vanvirðingu.

Vanlíðan í einangrun

Fangarnir fyrrverandi tjáðu sig í viðtölunum um erfiða dvöl í fangelsinu. Öllum nema einum fannst erfitt að vera lokaðir inni og þá sérstaklega á meðan þeir voru í einangrun. Þeir höfðu allir reynslu af slíkri vist. Tilgangurinn hafi verið að brjóta þá markvisst niður og fá þá til að tala af sér og segja til annarra. „Það var bara helvíti,“ segir einn þeirra.

Nokkrir viðmælendur notuðu orðin „Groundhog day“ yfir afplánun sína og segja alla daga hafa verið eins. Sumir þeirra voru í vinnu, aðrir í námi en einhverjir höfðu fátt fyrir stafni innan veggja fangelsisins.

Viðmælendurnir lýsa því að ofbeldi sé framið inni í klefum.
Viðmælendurnir lýsa því að ofbeldi sé framið inni í klefum. mbl.is/Golli

Ógnanir, hótanir og barsmíðar

Af svörum viðmælenda Jacqueline að ráða er ofbeldið sem viðgengst inni á Litla-Hrauni mismikið eftir tímabilum. Minnst fer að þeirra sögn fyrir kynferðislegu ofbeldi en mun meira af því líkamlega. Mest ber þó á tilfinningalegu ofbeldi hvort sem það er ofbeldi milli fanga sem lýsir sér í hótunum, ógnunum og stríðni eða það sem þeir upplifðu sem tilfinningalegt ofbeldi frá starfsmönnum.

Meðal þess sem fangarnir fyrrverandi ræddu um var að fangar geti ekki læst klefum sínum að innanverðu, aðeins utanverðu. Klefunum er svo læst yfir nóttina. Meirihluti þeirra segir að klefarnir séu mikið notaðir til barsmíða og jafnvel nauðgana, en þar eru engar myndavélar og fórnarlömbin geta lítið gert sér til varnar. Klefarnir eru því ekki þeirra griðastaður.

Viðmælendurnir sögðust einnig hafa notað „blindspots“ til að lemja á hvor öðrum og ógna. Þessir staðir eru bæði utan- og innanhúss þar sem myndavélar ná ekki til. Þeir nefna ákveðin svæði í lyftingasal og staði í útivist sem voru nýttir til að gefa „...kannski högg í þind en auðvitað er mesta ofbeldið sem hægt er að beita með því að fara inn á herbergi,“ segir einn þeirra.

Samkvæmt rannsókn Jacqueline er ofbeldi eða hótanir um slíkt notað sem verkfæri til þess að ná sínu fram, til þess að auglýsa vald sitt og halda stöðu sinni. Menn eru lamdir og stundum lamdir mikið, af hinum ýmsu ástæðum. Ástæðan þarf ekki að vera rík, stundum liggja samfangarnir bara vel við höggi, eru pirrandi, eins og einn viðmælandinn kemst að orði.

Þeir sem verða fyrir barsmíðunum kæra yfirleitt ekki vegna þess að þá fá þeir að kenna meira á því næst. Dæmi er um að fangar sem njóti virðingar meðal annarra fanga fái aðra til þess að „sjá“ um ofbeldisverknaðinn og þannig koma í veg fyrir að þeir sjálfir verði hugsanlega kærðir.

Einelti gagnvart barnaníðingum

Einelti í fangelsinu viðgengst, sérstaklega gagnvart þeim sem brotið hafa kynferðislega gegn börnum. Þessir hópur er hafður sér í fangelsinu samkvæmt viðmælendum Jacqueline. Þeir eru yfirleitt í vinnu í fangelsinu og samkvæmt öllum viðmælendum rannsóknarinnar fá þeir bestu vinnuna. „Hvaða réttlæti er í því að barnaníðingar séu í trésmiðju að búa til barnaleikföng?“ spyr einn viðmælandinn.

Fangar nýta sér svokallaða blinda bletti, þar sem myndavélar eru …
Fangar nýta sér svokallaða blinda bletti, þar sem myndavélar eru ekki, til að beita ofbeldi og koma fíkniefnum áleiðis. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Mikið gert fyrir pening“

Allmargir viðmælendur höfðu séð eða heyrt af því að fangar hefðu verið beittir kynferðislegu ofbeldi og þeim hreinlega nauðgað. Einn þeirra nefnir að fangarnir séu kvenmannslausir, margir allan tímann sem þeir afplána, og að þeir sakni kynlífs en frásögn hans er þannig:

„Það var til dæmis ákveðið þema í gangi þegar ég var þarna á Litla-Hrauni sem var kallað „fjörugir fimmtudagar” […] þá var sem sagt nokkrir gaurar sem voru kannski sjúgandi tilla á fimm gaurum […] og einn að ríða honum í rassinn […] bara orgíur […] bara ótrúlegt skilurðu og það var bara fyrir pening skilurðu en það er mikið gert fyrir pening.“

Nautgripir í búri

En ofbeldið á sér ekki bara stað á milli fanga samkvæmt rannsókn Jacqueline. Viðmælendur töldu að sumir starfsmenn hefðu komið fram við þá af vanvirðingu og sýnt þeim fyrirlitningu.

„Sko, það er bara talað niður til manns og mér fannst bara talað niður til mín og hugsa kannski bara um okkur eins og nautgripi í búri [...] skilurðu þannig upplifir maður þetta oft að maður sé bara í búri [...] en þó ég hafi brotið af mér þá þurfti ekkert að koma svona fram skilurðu,“ hefur Jacqueline eftir einum þeirra. 

Meirihluti viðmælenda sagði að þegar þeir hefðu verið farnir að taka sig á og voru hættir að koma sér í vandræði hafi þeir verið færðir milli ganga til að hrista upp í þeim, viljandi af hálfu starfsmanna fangelsisins.

Þrír viðmælendur sögðu frá því að þeir hefðu verið fluttir í einangrun með valdi, ólaðir niður eða handjárnaðir og upplifðu að þeir hefðu verið beittir of mikilli hörku. Átta viðmælendur sögðu að þeir hafi ekki upplifað líkamlega valdbeitingu frá fangavörðum.

Föngunum fyrrverandi fannst munur á viðmóti starfsmanna eftir því hvar þeir voru í fangelsinu og sumt starfsfólk hefði verið mannlegra við þá í öllu viðmóti.

Allt flæðandi í efnum

Þeir viðmælendur sem fóru á meðferðarganginn á Litla-Hrauni sögðu frá því að það væri nánast ómögulegt að standa sig í meðferð því þar væri allt flæðandi í efnum. Meðferðin væri auk þess of stutt og þyrfti að vera í upphafi afplánunar en ekki í lok hennar.

Allir töluðu þeir um að neysla þeirra inni á Litla-Hrauni hafi verið mikil og ekki erfitt að halda sér í mikilli neyslu. Þó hafi komið tímabil þar sem erfiðara hefði verið að koma efnum inn í fangelsið vegna hertara eftirlits eða aukinnar árvekni starfsmanna.

Fangarnir segja að meðal leiða sem notaðar eru til að …
Fangarnir segja að meðal leiða sem notaðar eru til að smygla fíkniefnum inn í fangelsið sé í gegnum bílaþvottastöðina. mbl.is/Brynjar Gauti

Óttast um öryggi sitt

Fjórir viðmælendur sögðu frá því að þeir hefðu verið hræddir, að á tímum hefði þeim hreinlega ekki staðið á sama um öryggi sitt en tveir af þeim höfðu verið teknir undir verndarvæng annarra.

Þátttakendum í rannsókninni var tíðrætt um veika fanga. Þeim fannst þessir einstaklingar geta verið óútreiknanlegir og töldu að eftirlit með þeim hafi ekki verið nægjanlegt og þeir komist upp með að taka ekki lyfin sín heldur safna þeim saman og selja þau öðrum föngum.

„Hvað sem öllu líður þá eru einstaklingar á Litla-Hrauni sem eru hræddir, óhræddir og enn aðrir sem eru veikir á geði og ættu að vistast á viðeigandi stofnun,“ skrifar Jacqueline í ritgerð sinni.

Ekkert mál að nettengjast

Viðmælendur ræddu netaðgang og hversu langt þeir gengu til að vera tengdir þó að það væri brot á reglum fangelsisins. Ekki leið langur tími þar til þeim var boðið upp á ýmsar leiðir til að halda samskiptum sínum við fjölskyldu og vini í gegnum netið. Engu skipti hversu oft þeir voru teknir með net, þeir redduðu sér bara nýjum netpung eða fengu lánaða tölvu hjá næsta manni. Ljóst er af frásögnum allra viðmælendanna að auðvelt og fljótlegt er að koma netpungum inn í fangelsið.

Ýmsar leiðir til að smygla

Fangar á Litla-Hrauni finna sér ýmsar leiðir til þess að koma óleyfilegum varningi inn í fangelsið samkvæmt frásögnum viðmælenda Jacqueline. Oftast nefndu þeir heimsóknir ættingja, vina og kunningja. Með þeim hætti er smyglað inn fíkniefnum, netpungum og öðru.

Fangar nota einnig bíla sem koma í þvott til þess að smygla inn efni.

Einn þeirra orðar það svo: „Iss, þetta var ekkert mál sko maður passar sig að panta bíl frá Eyrarbakka eða í kringum það svæði því ef bíll kemur frá Reykjavík þá er það mjög grunsamlegt og þá er farið að leita en þegar það kemur bíll frá Eyrarbakka þá getur maður tekið sjálfur út úr bílnum á bónstöð og það er ekki grunsamlegt skilurðu.“

Enn ein leiðin eru heimsóknir fanga til tannlæknis. Samkvæmt viðmælendum getur sú leið reynst gróðavænleg. Einn þeirra lýsir aðferðinni með þessum hætti: „Til dæmis í heimsókn eða hérna einhver sem skuldar að hann fer í tannlæknaferð í bæinn og þá sá sem á pakkann […] höfuðpaurinn búinn að koma og láta einhvern út í bæ fara á klósettið á tannlæknastofunni og láta koma fyrir og þá er því komið fyrir þannig að það sé tilbúið til að henda upp [í endaþarm] og það geta alveg verið 100, 150 grömm í einum pakka þarna upp sko.“

Girðingin um íþróttavöllinn er tvöföld. Fangarnir fyrrverandi lýsa því að …
Girðingin um íþróttavöllinn er tvöföld. Fangarnir fyrrverandi lýsa því að yfir hana sé þó kastað fíkniefnum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í vinnu við að henda yfir girðinguna

Þátttakendur nefna að þegar efni eru komin inn í fangelsið séu ýmsir staðir nýttir til að koma þeim til skila. Tveir nefna að hægt sé að koma þeim í gegnum þvottahús en flestir nefna þó íþróttavöllinn. Völlurinn er stór, afgirtur með tvöfaldri girðingu sem þó virðist ekki stoppa menn í að taka á móti sendingum sem kastað er yfir. „Allan sólarhringinn þá eru menn bara í vinnu við að koma og henda yfir og er það enn í dag og þetta er ekki erfið leið,“ segir einn þeirra.

Smyglleiðirnar virðast óteljandi og öll úrræði eru nýtt, ef tekið er mið af upplifun og frásögnum viðmælenda.

Refsistefna - ekki betrun

Meirihluti viðmælenda Jacqueline telur að engin betrun eigi sér stað inni á Litla-Hrauni. Er það ein af niðurstöðum rannsóknarinnar að aðeins þeir sem komast í meðferð vegna glímu sinnar við áfengi eða aðra vímugjafa fái einhvern bata og hafi möguleika á því að snúa lífi sínu til betri vegar. Gegnumgangandi er þó sú staðreynd að fangelsisvistin virðist ekki hafa skilað af sér betri einstaklingum eftir að afplánun lauk. Niðurstöðurnar benda því til þess að betrunarstefna á Íslandi sé hverfandi. Refsistefnu sé fremur fylgt.

Einn viðmælanda Jacqueline lýsir því að þegar hann hafi losnað úr fangelsinu hafi ekkert beðið hans og að hann hafi ekki fengið þá aðstoð sem hann leitaði eftir á meðan hann sat inni. Margir fanganna fyrrverandi nefndu svo að þegar þeir væru ekki í fangelsinu væru þeir á flakki, hefðu engan samastað.

Fangelsið á Litla-Hrauni.
Fangelsið á Litla-Hrauni. mbl.is/Árni Sæberg

Þurfa að hafa rödd

Jacqueline segir að með aukinni upplýsingagjöf til fanga um þann stuðning og aðstoð sem í boði er væri hægt að koma betur til móts við fanga, gera þeim kleift að stunda það nám sem þeir vilja og gera þeim þannig tækifæri til þess að bæta ráð sitt og koma undir sig fótunum.

Þessum atriðum ásamt betri eftirfylgni eftir að einstaklingar ljúka afplánun væri hægt að koma í verk með skilvirkum leiðum að mati Jacqueline og lækka þannig endurkomutíðni.

Félagslegur stuðningur við fanga sem lokið hafa afplánun er mikilvægur en niðurstöður rannsóknarinnar leiða í ljós að skortur er á slíku. Því er brýnt að mati Jacqueline að samfélagið hafi meðferðarúrræði og aðstöðu til þess að veita fyrrverandi fíklum, sem og öðrum, alla þá aðstoð sem þeir þurfa varðandi húsnæði og vinnu svo að þeir geti horfið af braut vítahrings neyslu og afbrota.

Þá segir Jacqueline að öryggi þeirra sem dæmdir eru í afplánun þurfi að vera tryggt. Hún segir þann lærdóm mega draga af niðurstöðum að ofbeldi í öllum sínum birtingarmyndum sé of algengt á Litla-Hrauni og finna verði leiðir til þess að lágmarka það.

„Rödd þessa undirmálshóps þarf að heyrast og ljóst er að öryggi þeirra þarf að vera betur tryggt,“ segir Jacqueline.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert