Verksamningur vegna mislægra gatnamóta

Svona munu hin nýju gatnamót á Reykjanesbraut og Krýsuvíkurvegi líta …
Svona munu hin nýju gatnamót á Reykjanesbraut og Krýsuvíkurvegi líta út. Mynd/Vegagerðin

Fulltrúar Loftorku, Suðurverks og Vegagerðarinnar skrifuðu undir verksamning um gerð mislægra gatnamóta Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar í dag.

Framkvæmdir hefjast strax enda á verkið að vinnast á skömmum tíma og vera lokið 1. nóvember næstkomandi, að því er kemur fram á vefsíðu Vegagerðarinnar.

Þar segir að verktakar hafi þegar komið upp vinnubúðum á svæðinu.

Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Hafnarfjarðar og veitufyrirtækja.

Byrjað verður á því að færa lagnir af ýmsu tagi og leggja framhjáhlaup áður en hafist verður handa við byggingu brúarinnar sjálfrar.

VSÓ ráðgjöf ehf. sinnir eftirliti en hún átti lægst boð í það verk upp á 19,4 milljónir króna, áætlaður verktakakostnaður var 21 milljón króna.

Loftorka ehf. og Suðurverk ehf. áttu saman lægsta boð í verkið, eða upp á 918 milljónir króna.

Áætlaður verktakakostnaður var 817 milljónir króna. Við bætist síðan ýmis kostnaður við undirbúning og hönnun verksins.

mbl.is