Aukið viðbúnaðarstig vegna fuglaflensu

Brandendur á flugi. Matvælastofnun hefur aukið viðbúnaðarstig vegna fuglaflensu.
Brandendur á flugi. Matvælastofnun hefur aukið viðbúnaðarstig vegna fuglaflensu. Ljósmynd/Andrés Skúlason

Viðbúnaðarstig vegna varna gegn fuglaflensu hefur verið aukið. Það þýðir að allir fuglar í haldi þurfa tímabundið að vera haldnir í yfirbyggðum gerðum þar sem villtir fuglar komast ekki inn eða í fuglaheldum húsum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun.

Smitvarnir skulu viðhafðar sem miða að því að ekki getur borist smit frá villtum fuglum í alifugla. Allir alifuglar skulu skráðir í gagnagrunninum Bústofn.

„Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur birt auglýsingu um tímabundnar varnaraðgerðir til að fyrirbyggja að fuglaflensa berist í alifugla og aðra fugla í haldi. Var það gert á grundvelli tillögu Matvælastofnunar til ráðuneytisins vegna mikillar útbreiðslu fuglaflensu af völdum alvarlegs afbrigðis fuglaflensuveiru af semisgerðinni H5N8 í Evrópu frá því í október í fyrra. Alvarlega afbrigðið H5N8 hefur m.a. greinst á þeim slóðum sem íslenskir farfuglar halda sig að vetri til,“ segir í tilkynningunni.

Matvælastofnun.
Matvælastofnun. mbl.is/Sigurður Bogi

„Starfshópur, sem skipaður er sérfræðingum Matvælastofnunar, Háskóla Íslands, Tilraunastöðvar HÍ að Keldum og sóttvarnalæknis, hefur metið ástandið og komist að þeirri niðurstöðu að töluverðar líkur eru á að þetta alvarlega afbrigði fuglaflensuveirunnar berist með farfuglunum sem nú eru farnir að streyma til landsins. Í þeim faraldri sem geisar í Evrópu nú er smit frá villtum fuglum talin vera megin smitleiðin í alifugla. Það er því hætta á að alifuglar hér á landi smitist af þeim farfuglunum sem koma frá sýktum svæðum, sér í lagi þeir sem haldnir eru utandyra og þar sem smitvörnum er ábótavant.“

Í tilkynningunni segir einnig: „Afleiðingar sjúkdómsins eru alvarlegar, þar sem stór hluti fuglanna getur drepist og fyrirskipa þarf aflífun á öllum fuglum á búi sem fuglaflensa greinist á, auk ýmis konar takmarkana sem leggja þarf á starfsemi á stóru svæði umhverfis viðkomandi bú. Ekki er talin vera smithætta fyrir fólk af þessu afbrigði fuglaflensuveirunnar og ekki stafar smithætta af neyslu afurða úr alifuglum. Það er óvíst hvað aukið viðbúnaðarstig mun vara í langan tíma en starfshópurinn endurmetur smithættuna reglulega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert