Amazon auglýsir eftir íslenskum málfræðingi

Alexa, stafrænn aðstoðarmaður Amazon, kann að bæta íslenskunni við málaflóruna.
Alexa, stafrænn aðstoðarmaður Amazon, kann að bæta íslenskunni við málaflóruna. AFP

Risafyrirtækið Amazon hefur auglýst eftir íslenskum málfræðingi til starfa. Starfið felst í vinnu við Alexu, stafrænan aðstoðarmann Amazon og rennur umsóknarfresturinn út í lok þessarar viku. Í auglýsingunni er óskað eftir málfræðingum sem tala íslensku að móðurmáli, hafa góða þekkingu á hljóðfræði og hljóðkerfisfræði og eru vel að sér í forritun, m.a. reglulegum segðum og skipanalínum í Unix/Linux. 

Þýðingastofan Skopos vekur athygli á auglýsingunni í frétt á vef sínum og bendir á að „töluverð umræða hafi verið um stöðu íslenskunnar í tæknivæddum nútímanum og áhrifin sem það kunni að hafa þegar fólk er farið að tala við tækin sín í síauknum mæli,“ að því er segir í fréttinni.

Til þessa hafa íslenskir notendur þurft að nota ensku eða önnur tungumál til að tala við tækin, enda hafa fæst þeirra talað eða skilið íslensku. Þannig er ekki hægt að nota raddskipanatækni til að panta leigubíl, pítsu eða bók í gegnum stafrænan aðstoðarmann á íslensku, né heldur að biðja Spotify að spila uppáhaldslagið sitt eða spyrja hvar síminn manns sé.

Skopos segir það því óneitanlega vekja athygli þegar að stórfyrirtæki á borð við Amazon hefur hug á að ráða til sín íslenska málfræðinga, enda kom fram í viðtali Vísis við Guðmund Hafsteinsson, framkvæmdastjóra hjá Google, nú nýlega að ólíklegt væri að raddskipanatækni Google byði upp á íslenskuna í bráð.

Alexa getur unnið úr margvíslegum raddskipunum og getur m.a. leitað að upplýsingum á vefnum, pantað þjónustu, stjórnað samhæfum búnaði á borð við ljós og hljómtæki, spilað tónlist og margt fleira. Flestir sem þekkja til forritsins, þekkja það sennilega í gegnum snjallhátalarann Amazon Echo, sem Amazon seldi milljónir eintaka af í fyrra.

Segir Skopos að það hljóti því að teljast fagnaðarefni að stórfyrirtæki á borð við Amazon hafi í hyggju að ráða til sín íslenska málfræðinga, „bæði fyrir almenna notendur sem sjá mögulega fram á að geta í framtíðinni rætt við tækin sín á móðurmálinu og eins fyrir þá sem eru uggandi yfir stöðu íslenskunnar gagnvart þessari þróun“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert