Lítið mál að fá áfengi upp að dyrum

„Ef ungmenni sækjast eftir áfengi þá er auðvelt að nálgast …
„Ef ungmenni sækjast eftir áfengi þá er auðvelt að nálgast það hvort sem þau fái það sent heim að dyrum eða fari á skemmtistaði niðri í bæ með fölsuð skilríki eða á sérstök menntaskólakvöld haldin í samstarfi við skemmtistaði. Þessu höfum við orðið vitni að oftar en einu sinni,“ segir í umsögninni. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Auðvelt er fyrir ungt fólk í dag að nálgast áfengi og ómögulegt er að horfa fram hjá því. Með tilkomu einkarekinna verslana sem selja áfengi ætti áfengisfrumvarpið sem er nú til umræðu ekki að auka aðgengi ungs fólk enda breytast reglurnar um áfengiskaupaaldur ekki.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögn nemendafélags Tækniskólans um áfengisfrumvarpið sem finna má á vef Alþingis. 85 umsagnir um frumvarpið hafa borist nefndarsviði Alþingis en frumvarpið er nú til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd. Eins og greint var frá á mbl.is fyrir viku er mun stærri hluti umsagnanna neikvæður í garð frumvarpsins.

6.854 í Facebook-hópnum Vinbudin

Tekið fram í umsögninni að ekki sé allt nemendafélagið hlynnt frumvarpinu en í umsögninni má sjá alla þá punkta sem lagðir hafa verið fram til félagsins.

Þar er m.a. ítrekað hversu auðvelt það sé fyrir ungt fólk að útvega sér áfengi eins og staðan er í dag. Bent er á að í hópi á Facebook sem gengur undir nafninu Vinbudin voru 6.803 manns skráðir 8. mars síðastliðinn. Í dag eru þeir 6.854. „Stór hluti hópsins eru einstaklingar undir lögaldri bæði 18 ára og yngri og 20 ára og yngri,“ segir í umsögninni.

„Ef ungmenni sækjast eftir áfengi þá er auðvelt að nálgast það hvort sem þau fái það sent heim að dyrum eða fari á skemmtistaði niðri í bæ með fölsuð skilríki eða á sérstök menntaskólakvöld haldin í samstarfi við skemmtistaði. Þessu höfum við orðið vitni að oftar en einu sinni.“

AFP

Sjá fyrir sér minni landasölu

Annað atriði sem nemendafélagið bendir á er landasala en það sér fyrir sér útrýmingu eða alla vega minnkun á henni verði frumvarpið að lögum.

„Í dag eru til aðilar sem ganga undir fölskum nöfnum á vefsíðum eins og Facebook sem selja landa. Landi er heimabruggað áfengi þar sem fagaðilar hafa enga umsjón með gæðavottun þess sem bruggað er eða tækjanna sem og efnanna sem notuð eru í bruggið. Ungt fólk allt frá 18 - 24 ára kaupir oft landa þar sem auðvelt er að nálgast hann og einnig er hann mikið ódýrari en annað áfengi,“ segir í umsögninni.

Skrýtið neyslumynstur

Önnur rök sem nemendafélagið nefnir er að Íslendingar séu stöðugt að endurskoða og breyta landinu með nágrannalönd okkar til hliðsjónar og aðrar vestrænar þjóðir, „þjóðir þar sem áfengissala er leyfð á opnum frjálsum markaði þar sem ríkið hefur ekki hlutskipti,“ eins og segir í umsögninni. Þá er tekin fram sú skoðun að neyslumynstur Íslendinga þegar það kemur að áfengisneyslu sé skrýtið og hafi verið gagnrýnt.

„Með þessu frumvarpi teljum við að neyslumynstrið muni breytast til hins betra. Við munum t.d. hætta að sjá Íslendinga hamstra áfengi þegar til stendur að ÁTVR verði lokað í nokkra daga. Íslendingar munu ekki þurfa að hugsa dag eða nokkra klukkutíma fram í tímann til þess að ákveða hvort þeir muni koma til með að drekka áfengi,“ segir í umsögninni.

„Rödd okkar á að heyrast jafnhátt og annarra

Vitnað er í frumvarpið þar sem fram kemur að verði það að lögum muni 5% áfengisgjalds renna í lýðheilsusjóð í stað 1%.

„Nemendafélag Tækniskólans lítur svo á að með þessu frumvarpi muni forvarnarstarf styrkjast um megn. Ísland hefur staðið fyrir flottu forvarnarstarfi síðustu ár og með auknum fjárstyrk sjáum við ekki annað fyrir okkur en betrun í þeim málum,“ segir í umsögninni.

Þá þakkar Davíð Snær Jónsson, formaður nemendafélagsins sem skrifar undir umsögnina, allsherjar- og menntamálnefnd Alþingis fyrir að hafa leitað til ungu kynslóðarinnar og fá að heyra þeirra sjónarmið á málinu. „Rödd okkar á að heyrast jafnhátt og annarra sem skoðun hafa á máli sem þessu og vona ég að ungt fólk fái fleiri tækifæri til þess að leggja til málanna,“ skrifar Davíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert