Óþolandi ástand fyrir íbúa miðbæjarins

Rúta við safnstæði á Hverfisgötu. Í tillögunum er lagt til …
Rúta við safnstæði á Hverfisgötu. Í tillögunum er lagt til að þeim verði fjölgað töluvert. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Gert er ráð fyrir mjög hertum takmörkunum á rútuumferð í miðborginni í tillögum stýrihóps borgarinnar sem birtar voru fyrr í mánuðinum. Takmarkanirnar ná til stórra og lítilla rúta og breyttra jeppa, sem oft eru kallaðir jöklajeppar. Formaður umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar gerir ráð fyrir því að tillögurnar verði afgreiddar í borgarstjórn í næsta mánuði.

Umhverfis- og skipulagsráð skipaði í septemberstýrihóp til að þróa og leggja fram tillögu að stefnu um akstur með ferðamenn um miðborgina og ásamt aðgerðaáætlun. Í stýrihópinn voru skipuð þau Gísli Garðarsson, Hjálmar Sveinsson og Hildur Sverrisdóttir. Halldór Halldórsson tók sæti Hildar í hópnum í byrjun mars þegar að Hildur tók sæti á þingi.

Tillögurnar má sjá hér. 

Sérstaklega slæmt á Grettisgötu og Klapparstíg

Myndband sem sýnir samskipti bílstjóra ferðaþjónustufyrirtækis og gangandi vegfaranda í miðbænum hefur vakið gríðarlega athygli og hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum síðustu daga. Vegfarandinn bendir bílstjóranum á að hann leggi rútunni ólöglega og bregst hann fremur illa við. 

Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs segir ástandið í miðborginni þegar það kemur að rútum óþolandi. 

 „Þetta er í raun óþolandi fyrir íbúa borgarinnar á miðborgasvæðinu. Við höfum fengið mjög mikið af kvörtunum, bæði yfir því að rútur eru að troðast á þröngum íbúagötum og jafnvel að keyra upp á gangstéttir fyrir utan hús hjá fólki til að taka upp fólk klukkan 3:30 á morgnanna,“ segir Hjálmar í samtali við mbl.is. 

„Ástandið virðist vera sérstaklega slæmt á Grettisgötu, Klapparstíg og nokkrum öðrum götum í nágrenninu.“

Hjálmar segir stýrihópinn hafa unnið tillögurnar í mjög góðu samstarfi við ferðaþjónustuna og íbúasamtök miðborgarinnar. Hann bendir á að fyrir tveimur árum eða svo hafi verið settar takmarkanir á umferð stórra rúta í miðbænum en að nú sé tekið mun stærra skref. „Lagt er til að hvorki stórar né litlar rútur eða miklir breyttir jeppar, oft kallaðir jöklajeppar, megi aka ákveðnar götur í Þingholtunum, Skólavörðuholti, Kvosinni og hluta gamla Vesturbæjarins.“

Útskýrir Hjálmar að ef tillögurnar eru samþykktar geta rútur keyrt til að mynda upp Eiríksgötu og niður Njarðargötu, en ekki upp Njarðargötu. Rúturnar gætu hinsvegar ekið Fríkirkjuveg, Lækjargötu, upp Hverfisgötu en ekki niður hana og upp Ingólfsstræti. Þær myndu síðan mega aka Geirsgötu, Mýrargötu og Hringbraut. Þá verður ekið norður Hofsvallagötu og austur Túngötu og Vonarstræti.

Rútustæði í innan við 200 metra fjarlægð frá 80% gistirýma

„Það má því segja að verði þetta samþykkt verði nokkuð stór hluti af gömlu borginni, innan gömlu Hringbrautarinnar laus við umferð rúta,“ segir Hjálmar og bætir við að þá sé gert ráð fyrir þessu fyrirkomulagi í 2 ár og að síðan verði metið hvort það þurfi að taka stærri skref enn og aftur.

Í tillögum stýrihópsins er jafnframt lagt til að rútustæðum, eða svokölluðum safnstæðum hópbifreiða verði fjölgað úr 16 á tólf stöðum í 27 á 15 stöðum.

Með því fyrirkomulagi verða 80% gistirýma í innan við 200 metra fjarlægð frá næsta safnstæði útfrá loftlínu en 95% gistirýma í innan við 300 metra fjarlægð.

Að sögn Hjálmars fara tillögurnar í næstu eða þarnæstu viku fyrir umhverfis- og skipulagsráð og svo fyrir borgarstjórn. „Ég geri ráð fyrir því að borgarstjórn verði bún að afgreiða þetta í apríl,“ segir Hjálmar.

Hjálmar Sveinsson formaður umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar.
Hjálmar Sveinsson formaður umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert