Gleymdu að prófa „núllsýni“

United Silicon í Reykjanesbæ.
United Silicon í Reykjanesbæ. Ljósmynd/United Silicon

Grunur leikur á um að tvenns konar mistök við úrvinnslu sýna úr mælistöð við Hólmbergsbraut, við eftirlit með mengun frá verksmiðju United Silicon í Reykjanesbæ. Nýtt sýni var tekið úr mælistöðinni í gær og vonast er eftir niðurstöðum fyrir helgi.

Fulltrúar Umhverfisstofnunar mættu á fund bæjarráðs Reykjanesbæjar í morgun, þar sem m.a. var fjallað um tilkynningu frá United Silicon þar sem greint er frá umræddum mistökum. Í tilkynningunni eru mistökin sögð möguleg skýring á mikilli aukningu þungmálma í sýnum frá október til desember 2016.

Það er fyrirtækið Orkurannsóknir ehf. sem hefur séð um mælingarnar fyrir United Silicon en það er sjálfstæð eining innan Keilis. Orkurannsóknir reka mæla sem eru nettengdir en hafa einnig safnað sýnum úr mælitækinu við Hólmbergsbraut og sent til greiningar í Svíþjóð.

„Við teljum að þarna sé um tvenns konar mistök að ræða og erum eiginlega alveg vissir um önnur mistökin en vitum ekki hversu mikil skekkjan er,“ segir Þorsteinn Jóhannsson, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun.

„En við vitum í hvora áttina það er; það myndi þá vera að gefa of háa niðurstöðu,“ bætir hann við.

Það var Umhverfisstofnun sem gerði viðvart um umrædd mistök, eftir gaumgæfingu gagna frá rannsóknarstofunni í Svíþjóð.

Þorsteinn lýsir þessu þannig: Mælitækið sé eins og stór ryksugumótor sem sogar loft í gegnum síu, sem grípur agnir úr loftinu. Á tækinu sé einnig mælir sem telur þá rúmmetra af lofti sem fara í gegn. Skipt sé um síu vikulega, þeim safnað saman og síðan sendar út í efnagreiðingu á um þriggja mánaða fresti.

„Mistökin sem þeir gera er að þeir senda bara þessar síur í efnagreiningu,“ segir Þorsteinn. „Það vantar inn í blanksýni, svokallað núllsýni, en þú verður að taka álíka ónotaða síu og mæla úr henni.“

Að sögn Þorsteins er um að ræða svo lítið magn efna að öll mengun í síunum sjálfum, nýjum og ónotuðum, getur skipt töluverðu máli en samkvæmt skýrslum rannsóknarstofunnar sænsku var engin ný sía prófuð.

Þorsteinn Jóhannsson.
Þorsteinn Jóhannsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Grunar mistök hjá rannsóknarstofunni

Hvað varðar hin mistökin segir Þorsteinn menn hafa sterkan grun um mistök af hálfu rannsóknarstofunnar í Svíþjóð en hann ítrekar að um grun sé að ræða.

Orkurannsóknir hafa tvisvar sinnum sent síur út til greiningar en í seinni skammtinum reyndist magn efna mun meira en í þeim fyrri.

„Arsenið hækkar en það hækka eiginlega öll efni og um sama hlutfall; það hækka nær öll efnin fimmfalt,“ segir Þorsteinn. Þetta sé óvenjulegt og bendi til þess að rannsóknarstofan hafi gert mistök, annað hvort við útreikninga eða þynningu sýnanna.

Og aftur útskýrir Þorsteinn: Síurnar eru gerðar úr glerfíber, eru hvítar og hringlaga, og viðkomu eins og kaffipokar. Við greiningu eru þær settar í plasthylki með saltpéturssýru, hylkinu lokað og það hitað upp í örbylgjuofni við mikinn hita þar til allir málmar eru uppleystir. Sýrulausninni er síðan hellt í mæliglas og vatni bætt við upp að ákveðnu rúmmáli en að því loknu er mælilausnin mæld í mælitæki sem skilar niðurstöðu um ákveðin styrk efna á millilítra.

Þegar niðurstaðan liggur fyrir þarf að reikna styrkinn aftur til baka á síuna og þar segir Þorsteinn auðvelt að gera mistök; annað hvort með því að þynna vitlaust eða gera reiknivillu.

Aðspurður játar Þorsteinn því að burtséð frá mögulegum mistökum við mælingar, og þar af leiðandi vitlausum niðurstöðum, standa enn eftir kvartanir íbúa vegna lyktar frá verksmiðju United Silicon og líkamlegum óþægindum sem þeir rekja til mengunar.

Umhverfisstofnun stendur nú í því að velja aðila til að gera verkfræðilega úttekt á verksmiðjunni og hefur leitað fanga innanlands og utan. Leitað er aðila sem hefur sérþekkingu á þessu sviði en stofnunin mun freista þess að fá úttektinni lokið fyrir apríllok.

Þorsteinn segir United Silicon telja sig hafa náð tökum á vandamálinu sem var að valda lyktinni og menguninni en hann virðist hafa komið til þegar hitinn datt niður í ofnum verksmiðjunnar.

„Það er í sjálfu sér vandamálið sem rak okkur út í þessa úttekt, að þeir voru ekki að ná tökum á þessu vandamáli, og við litum á það sem raunverulegt vandamál; þessi fjöldi kvartana og þetta sem fólk var að lýsa; sviði í augum, sviði í hálsi og nefi,“ segir Þorsteinn en ábendingarnar sem Umhverfisstofnun hafa borist nema á fjórða hundrað.

mbl.is