Ótvíræð hætta á sjávarflóðum fyrir byggð

Auður Magnúsdóttir, til hægri á myndinni, segir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu …
Auður Magnúsdóttir, til hægri á myndinni, segir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu standi sig almennt illa við að taka tillit til hækkunar sjávarstöðu af völdum loftslagsbreytinga við skipulag sitt. mbl.is/Golli

Þrjú hús á Seltjarnarnesi og fimm á Álftanesi, sem byggð voru eftir 1992 liggja utan við hoplínu, öryggissvæðis sem tilgreint var í lágsvæðaskýrslu Skipulags ríkisins frá því ári. Hopsvæðin voru skilgreind með það í huga að byggð sé ekki of nálægt sjó vegna hækkandi sjávarstöðu, landrofs og ölduhæðar í ofviðri. Álftanes er engu að síður það sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu sem hefur staðið sig hvað best í því að fella möguleg áhrif hækkaðrar sjávarstöðu af völdum loftslagsbreytinga inn í skipulag sveitarfélagsins.

Þetta kom fram í máli Auðar Magnúsdóttur, umhverfisstjórnunarfræðings hjá VSÓ Ráðgjöf, á ársfundi Veðurstofunnar sem haldin var nú í morgun og þar sem fjallað var um áhrif loftslagsbreytinga á Ísland. Auður kynnti þar skýrslu VSÓ um áhrif og aðgerðir vegna hækkunar sjávarstöðu á höfuðborgarsvæðinu.

Vegurinn út á Álftanes, þar sem forseti Íslands býr, gæti …
Vegurinn út á Álftanes, þar sem forseti Íslands býr, gæti lokast í flóðum á borð við þeim sem skýrsla VSÓ gerir ráð fyrir. Kort/VSÓ Ráðgjöf

Sveitarfélögin standa sig illa

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu stóðu sig í heildina illa í því að taka tillit til hækkandi sjávarstöðu við skipulag byggðar. Reglugerðir og lög séu engu að síður skýr um hvað eigi að gera. Þar komi til að mynda fram að bannað sé að byggja á þekktum flóðasvæðum. Þrátt fyrir það fái sjóvarnir litla umfjöllun í skipulagi sveitarfélaga og varúðarsvæði séu illa merkt.

„Þetta var svolítið köflótt,“ segir Auður í samtali við mbl.is. „Í Hafnarfirði voru til að mynda vissir staðir þar sem var greinilega litið til þessarar hættu, en ekki alls staðar. Reykjavík hefur síðan staðið sig frekar illa, en virðist þó eitthvað vera að horfa til þessara hluta í dag. Þegar aðalskipulag Kópavogs var síðan skoðað þá var ekkert minnst á loftslagsbreytingar þar, sem mér fannst vera athyglisvert.“ Auður bætir við að engu að síður sé greinilega tekið tillit til áhrifa loftslagsbreytinga á sjávarstöðu við skipulag bryggjuhverfisins á Kársnesi.

„Það virðist líka vera gegnumgangandi í skipulagsgerð að það er lagt í hendur verktaka hvað á að gera,“ segir hún. Þó grunnur að einhverjum skilmálum séu settir í skipulag, þá er yfirleitt tekið fram að nánar sé gert grein fyrir þessu annars staðar, t.d. á teikningum. „Þar með missa menn svolítið yfirsýn yfir hver stefnan er hjá sveitarfélögum.“

Verktaki sé síðan mögulega ekki meðvitaður um skilmálana eða hafi takmarkaðan áhuga á að fylgja þeim. Auður nefnir sem dæmi fjölbýli við Norðurbakkann í Hafnarfirði, sem er á mögulegu flóðasvæði. „Þar er fín gólfhæð í íbúðunum, en svo er bílakjallari undir húsinu.“ Ekki sé hægt að útiloka að kjallarinn fari á flot við vissar aðstæður. „Þetta er heldur ekkert einsdæmi, því þetta er víða svona.“

Á vissum stöðum í Hafnarfirði er hefur verið litið til …
Á vissum stöðum í Hafnarfirði er hefur verið litið til hættunnar af hækkun sjávar, en ekki annars staðar. Bílakjallarar á Norðurbakkanum eiga til að mynda á hættu að fara undir vatn við vissar kringumstæður. Kort/VSÓ Ráðgjöf

Ótvíræð hætta á sjávarflóðum fyrir byggð

„Það er eiginlega sammerkt með þessu öllu að það er engin heil lína í þessu hjá sveitarfélögunum sem þó er full ástæða til. Það er nefnilega ótvírætt hætta af sjávarflóðum við ströndina, sem getur haft áhrif á byggð.“

Tæpt ár er nú liðið frá því að skýrsla VSÓ var fyrst birt og á þeim tíma hafa sveitarfélögin sýnt henni lítinn sem engan áhuga að sögn Auðar. „Við sendum línu á öll sveitarfélögin, bygginga- og skipulagsfulltrúa þeirra og það hefur enginn haft samband. Við kynntum þetta reyndar í umhverfis og skipulagsráði Reykjavíkurborgar og þar kom fram að menn væru að grípa til aðgerða í Elliðavoginum,“ segir hún.

VSÓ Ráðgjöf vinnur þessi misserin að leiðbeiningum fyrir deiliskipulag með Faxaflóahöfnum og Reykjavíkurborg.

Finnst málið mögulega óþægilegt

Spurð hvers vegna hún telji að sveitarfélögin sýni málinu svo lítinn áhuga segir hún: „Kannski finnst einhverjum þetta óþægilegt og mögulega hafa ekki komið upp nógu mörg vandamál hér.“ Vísar Auður þar til flóðavandans sem Bretar hafa t.a.m. ítrekað þurft að fást við undanfarin ár og áratugi. „Við höldum kannski að þetta komi ekki fyrir okkur, en þetta er enginn dómsdagsspá því þarna er gert ráð fyrir raunhæfri hækkun sjávar.“

Fjögurra metra hækkunin sem útreikningar VSÓ ganga út frá miðast við hækkun sjávar, 4 mm landsig á ári og aukna sjávarhæð vegna veðurs. „Það er talað um hundrað ára atburð, en þetta gæti gerst fyrr og gæti gerst seinna,“ segir hún. „Þetta er þess vegna eitthvað sem öll sveitarfélögin ættu að taka tillit til í sambandi við allt sitt framtíðar skipulag.“

Fleiri lágsvæði eru á Seltjarnarnesi en flestum öðrum sveitarfélögum á …
Fleiri lágsvæði eru á Seltjarnarnesi en flestum öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Kort/VSÓ Ráðgjöf
mbl.is