Taka skattahækkunum ekki þegjandi

Grímur Sæmundsen, formaður SAF.
Grímur Sæmundsen, formaður SAF. mbl.is/Golli

Forystumenn Samtaka ferðaþjónustunnar heyrðu fyrst af fyrirhugaðri skattahækkun á ferðaþjónustuna á fundi með fjármálaráðherra og ráðherra ferðamála í gær, rétt áður en forsætisráðherra tilkynnti um fyrirhugaðar breytingar.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra greindi frá því á ársfundi Samtaka atvinnulífsins í gær að til stæði að færa ferðaþjónustuna upp í efra virðisaukaskattþrepið sem yrði lækkað samtímis.

Líkt og fram kom í frétt mbl.is fyrr í dag boðuðu Samtök ferðaþjónustunnar til neyðarfundar á Hótel Sögu sem hófst klukkan 17 og er húsfyllir á fundinum. Grímur Sæmundsen, formaður SAF, sagði í framsöguræðu sinni að ljóst væri að áform stjórnvalda kæmu verst niður á smærri byggðarlögum sem teljast til jaðarsvæða ferðaþjónustu. Benti hann á að á síðasta ári hafi afkoma fyrirtækja í ferðaþjónustu dregist saman miðað við árið á undan.

„Afkoman var lakari árið 2016 en 2015 þegar rekstrarumhverfi greinarinnar var miklu hagstæðara, þrátt fyrir mikla fjölgun ferðamanna árið 2016,“ sagði Grímur og bætti við að hundruð ef ekki þúsundir starfa tapist komi skattahækkanir á greinina til framkvæmda. Grímur sagði loks ferðaþjónustuna ekki ætla að taka því þegjandi hyggist ríkisstjórnin klúðra tækifæri sem ferðaþjónustan hafi skapað þessari þjóð frá efnahagshruni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert