Fátæktargildra að veikjast á Íslandi

Ástrós Rut Sigurðardóttir og Bjarki Már Sigvaldason.
Ástrós Rut Sigurðardóttir og Bjarki Már Sigvaldason. Ljósmynd/Ástrós Rut Sigurðardóttir

„Þetta lýsir því hvernig þjóðin er. Hvað við erum ótrúlega samhuga og stöndum saman þegar virkilega á reynir. En það er ekki ríkisstjórnin sem er að hjálpa okkur, heldur þessi samhugur í fólki sem gefur manni sérstakan kraft.“

Þetta segir Ástrós Rut Sigurðardóttir, en myndskeið sem hún birti í gærkvöldi hefur fengið á þriðja hundrað þúsund áhorfa á aðeins átján klukkustundum, þar sem hún vakti athygli á greiðslubyrði langveiks fólks.

Fréttir mbl.is:
„Ég bara fékk mig fullsadda á þessu“
„Þyngra en tárum taki“ 

Viðtökur samfélagsins segir hún hafa verið yndislegar í kjölfarið, en auk ýmissa hvatningarorða hefur fjöldi fólks spurt hana um reikningsnúmer til að geta styrkt hana og eiginmann hennar, Bjarka Má Sigvaldason, sem greindist með krabbamein árið 2012, þá 25 ára gamall.

Á ekki að þurfa að taka upp veskið

Í samtali við mbl.is í dag segist hún fagna því sem fram kom í svörum Óttars Proppé heilbrigðisráðherra í gær, þess efnis að nýtt greiðsluþátttökukerfi tæki gildi 1. maí næstkomandi, þar sem heyra muni til undantekninga að nokkur sjúklingur borgi meira en fimmtíu þúsund á hverju tólf mánaða tímabili.

„Ég hef þó ákveðnar athugasemdir við það. Mér finnst til dæmis ekki réttlátt að langveikt fólk þurfi að borga fimmtíu til sjötíu þúsund á ári í lækniskostnað. Hvaða kostnaður fellur svo undir þetta greiðsluþak? Mun það takmarka lyfjakostnað, lækniskostnað, eða bæði?“ spyr Ástrós.

„Mín skoðun er sú að langveikt fólk eigi ekki að þurfa að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu. Það á ekki að þurfa að taka upp veskið. Og fimmtíu til sjötíu þúsund finnst mér einfaldlega of mikið á ári. Þetta fólk hefur ekki mikið í höndunum.“

Fengið töflur að láni í apótekum

Ástrós segist hafa öruggar heimildir fyrir því að fólk, sem greinst hafi með krabbamein, hafi hafnað meðferð þar sem það hafi ekki haft efni á henni.

„Það er virkilega sorglegt. Við höfum lent í því sjálf, ég og maðurinn minn, til dæmis á föstudegi við lok mánaðar, að við höfum ekki haft efni á lyfjunum hans. Þá er ekki hægt að ná í lækni og við höfum stundum fengið að láni í apótekinu, nokkrar töflur til að eiga yfir helgina.

Þar hefur víðast hvar verið komið ofboðslega vel fram við okkur, enda held ég að þau geti rétt ímyndað sér þá tilfinningu að eiga ekki efni á lyfjunum.“

Borga þarf í stöðumæli við Landspítalann.
Borga þarf í stöðumæli við Landspítalann. mbl.is/Eggert

Tvírukkað á Íslandi

Þeirra aðstæður séu þá ekkert einsdæmi.

„Það eru mjög margir í þessari súpu. Þetta er bara ótrúlega sorglegt, að fólk hafi ekki efni á lyfjunum sínum í dag. Það er nóg að þurfa að borga af húsnæðinu sínu, borga leigu og borga fyrir mat á borðið, eiga eitthvað ofan í börnin sín. Og svo þegar lyfjakostnaður bætist þar ofan á, hvar þarftu að skera af? Þú skerð náttúrulega alltaf af sjálfum þér.

Þetta er ofboðslega erfið staða sem mjög margir eru í og ég er ekki sátt við það að fólk sem er með lífshættulega sjúkdóma þurfi að taka upp veskið,“ segir Ástrós.

„Á Norðurlöndunum, í Frakklandi, í Skotlandi, svo ég nefni dæmi, þarf fólk aldrei að taka upp veskið þegar um lífshættulega sjúkdóma er að ræða. Í Svíþjóð fá sjúklingar heimahjúkrun og sjúkraþjálfara til viðbótar.

Allt er þetta ókeypis, því það er þegar búið að greiða þetta með sköttunum. Af hverju er þá verið að tvírukka okkur á Íslandi? Maður er búinn að borga sinn skatt og sá peningur á að fara í þetta. Af hverju erum við að borga tvisvar sinnum fyrir að halda lífi? Það er mér óskiljanlegt.

Ég fagna auðvitað þessu nýja kerfi. En ég vil róttækari breytingar.“

Dýrt að veikjast á Íslandi í dag

Eiginmaður hennar, Bjarki, greindist eins og áður sagði með krabbamein árið 2012. Síðan þá segir hún þau hafa greitt nokkur hundruð þúsund krónur á ári vegna meðferðar við meininu. Samtals nemi greiðslurnar meira en einni og hálfri milljón króna.

Þá er ótalinn óbeinn kostnaður, sem Ástrós segir nema milljónum króna á hverju ári, meðal annars vegna lyfja sem ekki séu inni í lyfjagáttinni svonefndu.

„Svo ég taki örlítið dæmi, hann fer reglulega á Landspítalann, þar sem hann þarf að hitta krabbameinslækninn sinn, og það fyrsta sem hann neyðist til að gera er að taka upp veskið, til að borga í stöðumæli. Í hvert einasta skipti. Hvað er það eiginlega?

Hvert sem hann fer, með það að markmiði að halda sér á lífi, hann þarf alls staðar að reiða fram peningana. Það er ofboðslega dýrt að veikjast á Íslandi í dag. Það er, hreint út sagt, fátæktargildra.“

Þá segir hún að öryrkjar séu víða litnir hornauga, ekki bara af bönkum sem neiti þeim um greiðslumat vegna íbúðarkaupa.

„Mér finnst samfélagið dæma öryrkja frekar hart, og það mætti kannski opna umræðuna líka um það, að þetta er raunverulegt fólk með raunveruleg veikindi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka