Vill einhver ættleiða mig?

Carolyn Bain er áströlsk kona sem skrifar um Ísland fyrir …
Carolyn Bain er áströlsk kona sem skrifar um Ísland fyrir Lonely Planet. Hún leitar leiða til að flytja til landsins sem hún segist elska. Ásdís Ásgeirsdóttir

Við finnum okkur horn á Prikinu í Bankastræti innan um hipstera og erlenda ferðamenn til að spjalla. Íslandsvinir eru orðnir þó nokkuð margir en Carolyn þekkir Ísland á annan hátt en flestir aðrir. Hún er frá Melbourne í Ástralíu og hefur skrifað fyrir Lonely Planet í sextán ár og starfar þar sem lausapenni. Starfið býður upp á ferðalög og hefur leitt hana um víða veröld, til yfir fimmtíu landa. Landið okkar er í sérlegu uppáhaldi, en hún hefur séð um að skrifa um Ísland í nokkur ár. Svo kylliflöt er hún fallin fyrir Íslandi að hún leitar nú leiða til að fá hér fasta vinnu og setjast hér að.

Ferðast 4 til 6 mánuði ársins

Ferðabakteríuna fékk hún sem ung kona en eftir háskólanám lagðist hún í nokkurra ára ferðalög um heiminn, eins og margir Ástralar gera reyndar. Eftir flakkið hóf hún störf hjá Lonely Planet, fyrst sem ritstjóri en síðar sem ferðarithöfundur. „Fyrsta verkefnið mitt var á grísku eyjunum árið 2000 og þegar ég kom aftur til starfa sem ritstjóri sá ég fljótt að ég vildi frekar skrifa,“ segir Carolyn og segist hún ferðast fjóra til sex mánuði ársins.
„Ég tek að mér tvö til þrjú verkefni árlega og hvert tekur fjórar til sex vikur, en ég tek einnig að mér alls kyns önnur verkefni.“

Kominn á tveggja ára listann

Lonely Planet-bækurnar þekkja margir og til eru ferðahandbækur um 195 lönd undir merkjum þess. Bækurnar eru ýmist um lönd, borgir eða ákveðna hluta landa og í þeim finnst mikill fróðleikur um gististaði, veitingastaði, ferðamannastaði, náttúruperlur og margt, margt fleira. Eins og gefur að skilja þarf sífellt að uppfæra bækurnar og til þess er Carolyn hér annað hvert ár. Ísland var áður á lista bóka sem þurfti að uppfæra á þriggja ára fresti en vegna sprengingar í komu ferðamanna er Ísland komið á tveggja ára listann. Tíunda bókin um Ísland er væntanleg í hillurnar innan skamms en í vor er einnig von á bók sem fjallar einungis um hringveginn og hvað má finna fyrir ferðalanga sem hann keyra.

Gott að skipuleggja fyrir fram 

Nú eru allir með snjallsíma við höndina og hægt að nálgast allar upplýsingar á örskammri stundu. Hver þarfnast svona bókar í dag?
„Það er mjög góð spurning! Hlutirnir hafa breyst mikið síðan ég byrjaði að skrifa í bækurnar árið 2000. Internetið hefur breytt öllu stórkostlega. Og það er satt að þú getur fengið allar upplýsingar í símanum þínum en stundum eru þær eiginlega of miklar. Mér finnst að ferðahandbækur hafi enn tilgang, ef þær eru vel gerðar. Einhver hefur farið á staðinn og unnið alla vinnuna, farið í gegnum allt efnið, og getur gefið góð ráð og mælt með stöðum,“ útskýrir Carolyn.
„Fyrirtækið gefur út bók um landið en einnig er smábók um Reykjavík. Í maí kemur út fyrrnefnd bók um hringveginn .„Sú bók er hugsuð fyrir bandaríska markaðinn, en Ameríkanar eru líklegri til að leigja sér bíl og keyra um í viku, tíu daga en margar aðrar þjóðir,“ segir hún. 

Vill flytja til Íslands

„Já, mig langar það í alvöru. En ástralskt vegabréf er ekki jafn hentugt og evrópskt. Það er smá hindrun en ég er að kanna nokkra möguleika. Ég finn sterkt fyrir aðdráttarafli og tengingu við landið. Fólkið hér er ótrúlega vinalegt og landslagið er engu líkt. Fyrir mér er landið fimmtíu prósent landslagið og fimmtíu prósent sögur fólksins hér. Ég elska sögur þess. Og það hefur verið óvænt gleðiefni, að uppgötva í hverri nýrri ferð nýtt fólk og nýjar sögur.“

Bankahrun og Eyjafjallajökull  

Hver er þín kenning um þessar gífurlegu vinsældir Íslands?
Carolyn hlær. „Ég er með kenningu. Ég held að markaðssetningin eftir að Eyjafjallajökull gaus hafi verið ansi sniðug. Bankahrunið beindi líka augum heims að Íslandi og allir voru að tala um það. Fyrir það voru það skringilegheitin, eins og Björk. En eftir hrunið og Eyjafjallajökul kviknaði forvitni fólks um landið. Svo er það uppgangur Instagram, ég held það skipti miklu máli. Svo eru það bíómyndirnar og sjónvarpsþættirnir sem tekin eru upp hér, það er stórt atriði. Að lokum eru það munnmælasögur, þær eru mjög öflugt tæki, það eru allir að tala um Ísland núna. Og enginn fer héðan óánægður,“ segir Carolyn.

Carolyn dvaldi hér á landi í sex vikur í þetta sinnið en vonast til að koma aftur sem fyrst. Eins og fyrr segir vinnur hún að því að setjast hér að. Blaðamaður stingur upp á að hún finni sér íslenskan mann. „Það er mjög góð hugmynd!“ segir hún og hlær. „Þú mátt láta það berast að ef einhver bóndi vill giftast mér er ég sko alveg til! Ég útiloka heldur ekki þann möguleika að einhver fjölskylda vilji ættleiða mig.“

Ítarlegt viðtal við Carolyn er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Handbókin um Ísland er nú ein sú söluhæsta hjá Lonely …
Handbókin um Ísland er nú ein sú söluhæsta hjá Lonely Planet en von er á tíundu útgáfu á næstunni. Einnig er von á bók um hringveginn. Ásdís Ásgeirsdóttir
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »