Láti vita að sér misbjóði áreitið

Þegar tónlistarfólk opnar sig og tjáir sig af ástríðu í …
Þegar tónlistarfólk opnar sig og tjáir sig af ástríðu í gegnum tónlist sína, er eins og virðing sumra gagnvart mannhelginni minnki, segir Einar Gylfi Jónsson sálfræðingur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Kannanir hafa sýnt að það verða sumar stéttir meira fyrir áreiti en aðrar,“ segir Einar Gylfi Jónsson, sálfræðingur hjá Lífi og sál. Frásagnir tónlistarfólks af kynferðislegu áreiti sem það verður fyrir í starfi sínu hafa verið mikið til umfjöllunar þessa vikuna og kveðst Einar Gylfi vonast til að vitundarvakning fylgi aukinni umræðu.

„Fólk í þjónustustörfum verður til dæmis talsvert meira fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu viðskiptavina heldur en fólk í öðrum störfum,“ segir hann. Þetta útskýrist líklega að hluta til af sambandinu sem þarna verði á milli. „Þú ert að þjónusta mig og við erum ekki í jafningjastöðu og þar af leiðandi er eins og sumir telji sig ekki hafa sömu ástæðu til að virða mannhelgi eða persónulegt rými. Það er eins og þeim finnist vera eitthvert leyfi þarna, eða óskráð regla,“ segir Einar Gylfi og ítrekar að þetta sé útskýring, ekki afsökun.

Frá­sögn tón­list­ar­kon­unn­ar Sölku Sól­ar Ey­feld á Twitter frá síðustu helg­i, af því þegar maður kleip hana í rass­inn rétt áður en hún steig á svið á árs­hátíð Icelanda­ir, hef­ur vakið mikla at­hygli. Það til­vik er hins veg­ar ekk­ert eins­dæmi og fleira tón­listar­fólk hefur haft svipaða sögu að segja.

Litið á sem hluta af starfinu

Einar Gylfi kveðst ekki muna eftir að hafa áður séð fjallað um fólk í tónlistarbransanum í þessu samhengi. „En þegar ég sá þetta, þá finnst mér það segja sig sjálft að þetta fólk er í svolítið svipaðri stöðu. Það opnar sig og gefur færi á sér með því að vera skemmtikraftar og tjá sig af einlægni og ástríðu í gegnum lögin sín, og þá er eins og þessi virðing fyrir mannhelginni minnki.“ Hann segir þetta að minnsta kosti vera sína tilgátu.

Kynferðisleg áreitni eða vinalegur leikur? Kannanir hafa sýnt að vissar …
Kynferðisleg áreitni eða vinalegur leikur? Kannanir hafa sýnt að vissar starfsstéttir verða fyrir meira áreiti en aðrar og nú hafa tónlistarkonur stigið fram og greint frá því áreiti sem þær hafa orðið fyrir. AFP

Einar Gylfi segir það lengi hafa fylgt þeim starfstéttum sem eru mikið útsettar fyrir kynferðislegu áreiti að það sé hefð fyrir þessu og að það þurfi að líta á þetta sem hluta af starfinu, sem þurfi bara að sætta sig við.

„Nú er það iðulega þannig að tónlistarmenn eru á eigin vegum og ættu því hugsanlega frekar að geta sett mörk, eins og þeir eru greinilega byrjaðir að gera núna sem betur fer,“ segir hann. Starfsfólk í þjónustustörfum fái hins vegar oft þau skilaboð frá vinnuveitandanum að það þýði ekkert að vera að velta sér upp úr svona löguðu. Ekki gangi að fæla viðskiptavinina frá með því að vera með læti út af svona hlutum. Afsakanir á borð við að hann hafi bara verið fullur og þetta hafi ekki verið alvarlegt séu algengar.

Bjartsýnn að það verði vitundarvakning

„Þökk sé Sölku Sól og þeim sem fylgdu henni á eftir, virðist hins vegar núna vera komin umræða um þetta og þá verður vonandi vitundarvakning. Bæði meðal tónlistarfólks og annarra skemmtikrafta sem eru í þeirri stöðu að fá snertingu og talsmáta sem þau kæra sig ekki um og finnst móðgandi og særandi,“ segir Einar Gylfi og því sé gott að fólk sætti sig ekki bara við þetta, heldur láti vita að því sé misboðið.

Hann segir umræðuna um kynferðislega áreitni hafa komið meira og meira upp á yfirborðið síðustu misserin og árin. „Það er mikið farið að tala um það á vinnustöðum hvar mörkin liggja og mér finnst þetta vera mjög gott skref sem þarna var stigið.“

Twitter-skilaboð Sölku Sólar Eyfeld, um kynferðislega áreitni sem hún varð …
Twitter-skilaboð Sölku Sólar Eyfeld, um kynferðislega áreitni sem hún varð fyrir á árshátíð Icelandair, vöktu mikið umtal. mbl.is/Golli

Tónlistarkonan Stefanía Svavarsdóttir deildi með mbl.is frásögn af kynferðislegu áreiti sem hún varð fyrir af hendi samstarfsmanns í tónleikaferð úti á landi. Hópurinn var utan hennar skipaður um 20 körlum sem létu áreitið afskiptalaust þó að þeir hafi ekki tekið þátt í því.

Mannleg skylda að skipta sér af

Einar Gylfi segir vitundarvakningu varðandi kynferðislegt áreiti ekki síður vera mikilvæga fyrir þá sem standa hljóðir hjá. „Eitt af því sem er svo mikilvægt er að við áttum okkur á að við öll höfum ábyrgð til afskipta og vitundarvakningin mun auka sjálfstraust okkar til að hafa skoðun á því.“ Hann segir að þöggunin og vandræðalegar afsakanir um að þetta hafi bara verið grín valdi því að fólk skorti oft kjark til að skipta sér af. „Af því að við vitum ekki hvort umhverfið muni styðja okkur eða ekki. Hvort við munum líta hallærislega út fyrir að vera að skipta okkur af.“

Hann rifjar upp tilvitnun Edmunds Burke um að það eina sem hið illa þurfi til að þrífast sé velviljað fólk sem gerir ekki neitt. „Það er svo mikilvægt að við áttum okkur á að við höfum ábyrgð til afskipta,“ segir Einar Gylfi. „Það er mannleg skylda okkar að hafa skoðun á því þegar að við sjáum að það er verið að misbeita eða misbjóða fólki sem á erfitt með að verja sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert