Kanna jarðveg fyrir sósíalistaflokk

Gunnar Smári Egilsson stofnaði facebook-grúppuna Sósíalistaflokkur Íslands.
Gunnar Smári Egilsson stofnaði facebook-grúppuna Sósíalistaflokkur Íslands. Eggert Jóhannesson

Það er verið að kanna áhuga fólks á að stofna Sósíalistaflokk Íslands 1. maí. Hugmyndin er að búa til flokk sem stefnir að því að almenningur nái völdum á Íslandi og sveigi grunnkerfi samfélagsins að þörfum almennings en ekki sérhagsmuna,“ segir Gunnar Smári Egilsson útgefandi Fréttatímans.

Í facebook-hópnum Sósíalistaflokkur Íslands eru átta þúsund manns og hefur þar verið rætt hvort stofna eigi flokk eða vinna að markmiðum sósíalismans innan annarra flokka. 

„Það hefur stundum verið spurt hvort það eigi að láta verða af þessu og meirihlutinn sem tekur þátt í þessum könnunum er á því. En þetta er ekki komið svo langt að ekki sé hægt að snúa við,“ segir Gunnar Smári.

Stjórnmál snúast um stéttabaráttu

Hann telur útséð um að reyna að hafa áhrif innan annarra vinstriflokka, þar sé meiri áhersla á samræðustjórnmál fremur en stéttabaráttu. 

„Það er ekki mikill sósíalismi eftir þar og fjöldi fólks hefur hvatt mig til að halda áfram og láta verða af þessu. Það þarf að endurvekja sósíalíska baráttu sem byggir á því að grunnur stjórnmálabaráttu hinna verst settu sé stéttabarátta. Verkalýðurinn lagði niður vopnin upp úr 1990 en auðstéttin hélt baráttunni áfram,“ segir Gunnar Smári. „Ég met það svo að fólk telji að það sé kominn tími á að leggja af baráttu sem hefur verið kölluð samræðustjórnmál sem er hugmyndin um það að ef við setjumst niður og finnum snjalla lausn verði allir sammála.“ 

Sósíalisminn ekki skammarheiti

Þó að orðið sósíalismi hafi eina orðabókarskýringu leggur fólk misjafna meiningu í það. Eftir því hver er spurður getur það þýtt allt frá samfélagsskipulagi Noregs til Sovétríkjanna. Gunnar Smári segir að myndin sem oft er dregin upp af sósíalisma sé ekki sanngjörn. 

„Ástæðan fyrir því að sósíalismi hefur á sér erfiða ímynd er að það hefur verið rekinn andróður gegn allri varnarbaráttu fátæks fólks áratugum saman og sósíalisminn var meginfarvegur baráttu verkalýðsins til að knýja á um breytingar í samfélaginu sem þjóna þeirra hagsmunum. Þess vegna finnst mörgum eins og þetta sé skammarheiti eða eitthvað vont en það er það alls ekki. Það er í raun ekkert heiðarlegra en sósíalismi, að taka upp baráttu fyrir þá sem verst standa.“

Eigendur fyrirtækja þurfa að gefa eftir

Samkvæmt ströngustu skilgreiningum snýst sósíalisminn um að lýðræðisvæða framleiðsluþætti, að framleiðslan sé ýmist í eigu ríkis eða starfsmanna. Spurður hvaða meiningu hann leggi sjálfur í orðið segir Gunnar Smári að mikilvægast sé að rétta stöðu launafólks gagnvart fyrirtækjum, það sé hægt með ýmsum leiðum áður en eignaupptaka þurfi að koma til sögunnar. 

„Fyrsta skrefið er að virkja stéttabaráttuna þannig að fólk lesi rétt í stöðuna, það eru átök um hagsmuni og völd í samfélaginu. Undanfarið hafa fyrirtæki verið rekin eins og þau séu einkaeign eigendanna og eigi ekki að taka tillit til neins annars. Það er hægt að ná alls konar ávinningi áður en fyrirtækin séu einfaldlega tekin af þeim sem fara með þau núna. En ef þau gefa ekki eftir af valdi sínu, ef HB Grandi heldur áfram að valta yfir samfélagið og starfsfólkið, þá getur það ekki endað öðruvísi en að fólk rísi upp og taki yfir fyrirtækið.“   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert