Bílalúgunni á BSÍ lokað

Bílar í biðröð við lúguna á BSÍ.
Bílar í biðröð við lúguna á BSÍ.

Þau tímamót urðu um helgina að bílalúgunni sem hefur verið opin á samgöngumiðstöðinni BSÍ undanfarin 37 ár var lokað, að öllum líkindum í hinsta sinn.

Fyrirtækið Fljótt og gott hefur annast veitingasöluna í BSÍ undanfarin sjö ár. Að sögn Daða Agnarssonar, framkvæmdastjóra Fljótt og gott, hafa tímarnir breyst mikið síðustu ár í smásölu í borginni og um leið í bílalúgumenningunni.

„Þessi bílalúgustemning virðist dálítið vera barn síns tíma. Nú ertu kominn með 38 verslanir sem eru opnar allan sólarhringinn á höfuðborgarsvæðinu ef taldar eru með bensínstöðvarnar og stórvörumarkaðirnir. Þetta var ekki til fyrir tíu árum,“ útskýrir Daði og bætir við að matarvögnum hafi einnig fjölgað, auk þess sem veitingastaðir séu sumir hverjir opnir allan sólarhringinn í miðborginni. Landslagið hafi því breyst mikið.

Daði Agnarsson í lúgunni með sviðakjamma.
Daði Agnarsson í lúgunni með sviðakjamma. mbl.is/Ómar Óskarsson

Meiri áhersla á veitingasalinn

„Ég var í Kaupmannahöfn um daginn og þar eru níu staðir opnir allan sólarhringinn. Við erum með heimsmetið í öllu miðað við hausatölu. Þetta er nánast orðið algjört rugl,“ segir Daði en tekur fram að þau hjá Fljótt og gott séu sátt við sitt hlutskipti. Veitingasalan, sem hefur verið starfrækt í 41 ár í húsinu, heldur ótrauð áfram þó svo að lúgan hverfi á braut.

Meiri áhersla verður núna lögð á veitingasalinn enda kemur mikill fjöldi útlendinga í gegnum umferðarmiðstöðina á degi hverjum. Um þrjú til fimm þúsund fara þar um á degi hverjum þegar minnst er um að vera en um níu þúsund á sumrin þegar erlendir ferðamenn eru flestir hér á landi.“

Fólk fær kjammana áfram 

„Við höfum fært fókusinn inn í veitingasalinn okkar. Við erum að fá gríðarlegt magn af útlendingum. Við höfum staðið fyrir samstarfi við Food Channel varðandi kjammana okkar. Fólk þarf ekki að örvænta því það fær sviðakjammana okkar áfram,“ tekur Daði fram og á við sviðakjammana sem BSÍ er þekkt fyrir að selja. „Það kom alveg fyrir á laugardagsnóttu að fólk var að fá sér kjamma eftir djammið.“

Margir munu eflaust sakna bílalúgunnar í BSÍ.
Margir munu eflaust sakna bílalúgunnar í BSÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nostalgíustund hjá fastakúnnum

Hann segir óhætt að fullyrða að bílalúgan hafi verið sú elsta í borginni og ljóst er að sjónarsviptir verður að henni í menningarlífi borgarinnar.  Opið var allan sólarhringinn í lúgunni um helgar en til klukkan 21 á virkum dögum. Daði segir að fastagestir við lúguna sem eru vanir að kaupa sér kjamma, hafi notað tækifærið og keypt þá í hinsta sinn á föstudagskvöld. „Síðustu kjammarnir runnu út þarna á föstudagskvöldið. Það var smá nostalgíustund hjá nokkrum af okkar kúnnum sem höfðu fengið spurnir af þessu.“

Hann nefnir að mikil endurnýjun hafi átt sér stað á veitingastaðnum, auk þess sem taka á húsið að miklu leyti í gegn að utan. „Þetta er á frábærum stað í 101 Reykjavík. Hérna eru alltaf næg frí bílastæði og þetta er dálítið falið leyndarmál í Vatnsmýrinni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert