Gekk örna sinna við póstkassa bæjarins

Maðurinn stoppaði við póstkassann og gekk örna sinna. Hann glotti …
Maðurinn stoppaði við póstkassann og gekk örna sinna. Hann glotti þegar Þorkell sagði þetta vera ógeðslegt. Ljósmynd/Þorkell Daníel Eiríksson

Þorkeli Daníel Eiríkssyni, bónda í Fljótsdal í Fljótshlíð, var ekki skemmt þegar hann leit út um gluggann hjá sér nú síðdegis og sá þar erlendan ferðamann ganga örna sinna við póstkassa bæjarins.  Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann verður vitni að ferðamönnum sem „láta vaða“ á landi hans eins og hann orðar það.  

Hann ákvað að taka myndir af atburðinum og deildi á Facebook-síðu sinni og hefur færslan vakið mikla athygli. „Ég er fyrir löngu búinn að fá upp í kok af túristum sem gera þarfir sínar hvar sem er hérna hjá okkur og þetta fer bara versnandi,“ segir í færslunni. „Þessi „skíthaus“ ákvað að drulla rétt hjá húsinu og munar litlu að hann drulli í póstkassann.“

„Þetta var ekkert löngu áður en börnin komu heim með skólabílnum,“ segir Þorkell í samtali við mbl.is.

„Var farinn að glotta“

Hann segir manninn hafa lagt bíl sínum við póstkassann og þegar hann leit út um gluggann þá hafi hann séð þar sem maðurinn lét vaða.

Maðurinn hafi síðan komið skíðandi upp að bænum og stoppaði Þorkell hann þá og spurði hvert hann væri að fara. „Ég sagði við hann að þetta væri hvorki bílastæði né klósett og hann svaraði bara „so“ og svo reifst hann. Ég spurði hann hvort hann gerði þetta heima hjá sér og hvort honum fyndist í lagi að ég gerði svona hjá honum og hann svaraði bara „yes“.“ Hann var farinn að glotta bara þegar ég sagði honum að þetta væri ógeðslegt.“

Fljótsdalur er innsti bærinn í Fljótshlíðinni og segir Þorkell töluvert um að ferðamenn stoppi þar og gangi örna sinna. „Hér fóru menn mikið að veiða áður en Eyjafjallajökull sá fyrir ánni, og þá þurfti maður reglulega að fara inn í gljúfur til að moka út, því það var ekki hægt að bjóða fólki upp á það að koma og veiða og vaða skít upp að hnjám.“

Almenningsklósetti verði komið fyrir

Þorkell segir þetta ekki beint vera skemmtilega upplifun. „Hvað þá þegar maður fer út með hundinn og svo veltir hann sér upp úr einhverju og maður fer að velta fyrir sér var þetta eftir kind, hest eða mann?“

Hann segist hafa stungið upp á því við sveitarfélagið að almenningsklósetti verði komið fyrir á landi hreppsins, sem m.a. er hluti af Heklu Geopark, þarna skammt frá. „En svo er spurningin hvað á hreppurinn, þ.e. Rangárþing eystra, að vera að leggja mikinn pening í fólk sem skilur ekkert eftir sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert