Tilefnislaus lífshættuleg árás

Tekin verður ákvörðun síðar í dag hvort farið verður fram á gæsluvarðhald yfir tveimur mönnum sem grunaðir eru um að hafa veitt manni lífshættulegan áverka í Kópavogi í gærkvöldi. Engin tengsl eru á milli árásarmannanna og fórnarlambsins og árásin virðist vera tilefnislaus.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn í rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að verið sé að ljúka yfirheyrslum yfir tvímenningunum og eins hafi verið rætt við fjölmörg vitni að árásinni. Ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum tveimur en það sé líklegra en hitt.

Ekkert hefur komið fram sem getur skýrt hvað mönnunum gekk til en fórnarlambið hlaut lífshættulega áverka við hnífstunguna á veitingastaðnum Metro við Smáratorg um klukkan 20:30 í gærkvöldi. 

Fórnarlambið var flutt á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi og tókst að bjarga lífi hans en líðan hans er eftir atvikum. Ekki er talið að hann sé í bráðri lífshættu lengur.

Ekki fékkst uppgefið hjá Landspítalanum hver líðan mannsins er en sú stefna hefur verið mörkuð á spítalanum að veita fjölmiðlum ekki upplýsingar um líðan þeirra sem þangað eru fluttir slasaðir, hvort heldur sem um slys eða árásir að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka