Varað við áfengisfrumvarpinu

Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, fjallaði um að aukið aðgengi að áfengi gæti leitt til aukinnar neyslu og þar með haft slæm áhrif á líðan barna. Vísaði hún til fyrirhugaðs áfengisfrumvarps undir liðnum störf þingsins á Alþingi.

Hún sagði að í síðustu viku hefði velferðarnefnd unnið að umsögnum vegna frumvarpsins og hefði fengið gesti á fund sinn, gesti sem störfuðu á sviði félags- og heilbrigðisvísinda. „Þeir vara allir við samþykkt þessa frumvarps og telja að með samþykkt þess muni þeim góða árangri sem við höfum náð í forvörnum; minnkandi unglingadrykkja og öðrum góðum árangri, vera stefnt í voða,“ sagði Elsa.

Hún sagði að gestirnir vöruðu við samþykkt frumvarpsins og að aukið aðgengi gæti leitt til aukinnar neyslu. Einnig vöruðu gestirnir við samþykkt frumvarpsins sem þeir telja að gangi á rétt ungmenna og barna til að vera laus við þrýsting frá áfengisiðnaðinum. „Auk þess bentu þeir tengsl áfengisneyslu og krabbameins,“ sagði Elsa.

Þingmaðurinn vonast til þess að þingmenn velferðarnefndar geti verið sammála um að afgreiða umsögn frá nefndinni í sameiningu og taki undir varnarorð þessara fagaðila. „Ég er þó hrædd um að svo verði ekki vegna þess að formaður, varaformaður og annar varaformaður nefndarinnar styðja frumvarp um aukið aðgengi áfengis.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert