Dró konu fram úr rúmi á hárinu

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt karlmann á sextugsaldri í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa ráðist á konu og brotið gegn nálgunarbanni. Maðurinn réðst á konuna í september og reyndi að hafa samband við hana í kjölfar nálgunarbanns.

Maðurinn er jafnframt dæmdur til að greiða 960.000 kr. í sakarkostnað.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi ákærði manninn í janúar.

Hann var ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa að kvöldi 26. september veist með höggum að konunni, er hún lá í rúmi sínu, slegið hana í hægri framhandlegg með hurðakarmslista og í kjölfarið dregið hana fram úr rúminu á hárinu.

Þá var hann dæmdur fyrir brot gegn nálgunarbanni með því að hafa nokkur skipti í október, nóvember og desember haft samband við konuna, þrátt fyrir að honum hafi verið með tveimur ákvörðunum lögreglustjórans, fyrst í september og svo aftur í október, um nálgunarbann verið bannað að setja sig í samband við hana með nokkru móti í fjórar vikur fyrst, en svo í sex mánuði.

Loks var maðurinn ákærður fyrir eignaspjöll með því að hafa í nóvember gengið berserksgang innan dyra á heimili konunnar, skemmt fjölmarga húsmuni, þar á meðal hljómlistarbúnað, húsgögn, eldhús- og rafmagnstæki, brotið gler og handfang á bakaraofni og skorið sófasessur í tætlur. Tjónið er metið á 1,3 milljónir króna. Konan dró hins vegar þessa kæru til baka og var henni því vísað frá dómi.

Maðurinn mætti ekki við þingfestingu málsins þrátt fyrir lögmæta birtingu ákæru í Lögbirtingablaði í febrúar ásamt fyrirkalli þar sem þess var getið að málið kynni að verða dæmt að ákærða fjarstöddum.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að maðurinn hafi ekki áður sætt refsingu. Hann var því dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi, en tekið var tillit til hreins sakaferils hans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert