Fyrst og fremst brot á mannasiðum

Fréttin vakti mikla athygli í gær. Hér má sjá mynd …
Fréttin vakti mikla athygli í gær. Hér má sjá mynd sem bóndinn í Fljótsdal tók af ferðamanninum. Ljósmynd/Þorkell Daníel Eiríksson

„Þetta er náttúrlega fyrst og fremst brot á almennum mannasiðum,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Selfossi, um gjörðir erlends ferðamanns sem gekk örna sinna við póstkassa bæjarins Fljótsdals í Fljótshlíð í gær.

Aðspurður hvort það sem maðurinn gerði sé brot á lögum eða reglum segir Oddur að líklega megi túlka gjörðir hans sem brot á 17. grein laga um náttúruvernd þar sem segir m.a. að á ferð sinni um landið skuli menn sýna landeiganda og öðrum rétthöfum fulla tillitssemi og fylgja leiðbeiningum þeirra og fyrirmælum varðandi ferð og umgengni um landið. Þá segir jafnframt að það sé skylt að gæta fyllsta hreinlætis og skilja ekki eftir sorp eða úrgang á áningarstað eða tjaldstað. 

Oddur segir mál eins og greint var frá í gær ekki koma oft á borð lögreglunnar. „Ég hef heyrt af svona dæmum en það er alls ekki oft. Það er alla vega afar sjaldgæft að það komi á borð lögreglu,“ segir Oddur.

Takmarkað fjármagn bitnar oft á salernismálum

Lilja Einarsdóttir, oddviti sveitarstjórnar Rangárþings eystra, segir málið mjög leiðinlegt. Hún bendir á að sveitarfélög hafi takmarkaða fjármuni til þess að byggja upp innviði ferðaþjónustunnar og oft bitnar það á salernismálum án þess að það réttlæti gjörðir ferðamannsins.

„Við þekkjum öll vel hina gríðarlegu fjölgun ferðamanna hér á landi og sveitarfélögin hafa alls ekki við að byggja upp innviði sína.  Því miður eru ekki miklir fjármunir í boði og það er gríðarlegur kostnaður sem lendir á sveitarfélögum,“ segir Lilja í samtali við mbl.is. 

Sveitarfélagið sinnir salernismálum við Seljalandsfoss og Skógarfoss sem dæmi og er mikil þörf á að bæta aðstöðuna þar, sem stendur til, en skipulag á svæðunum báðum er í ferli. „En þetta atvik gerist náttúrlega bara heima í túnfæti í Fljótshlíðinni þannig þetta er ekki opinber ferðamannastaður. En þetta er auðvitað mjög leiðinlegt þrátt fyrir það.“

Fólk gistir í vegköntum með tilheyrandi úrgangi

Lilja segist ekki endilega hafa orðið vör við að margir séu að ganga örna sinna í náttúru sveitarfélagsins en segir það gerast reglulega að fólk leggi bílum í vegköntum og víðar til að gista og eflaust með tilheyrandi úrgangi.

„Við þurfum meira fjármagn með aðkomu framkvæmdasjóðs ferðamannastaða til að byggja upp betri aðstöðu. En það réttlætir alls ekki gjörðir mannsins. Ég skil þennan bónda mætavel.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert