Býður þingmönnum í „meðferð“

Vörður Leví Traustason framkvæmdastjóri Samhjálpar í Hlaðgerðarkoti.
Vörður Leví Traustason framkvæmdastjóri Samhjálpar í Hlaðgerðarkoti. mbl.is/Styrmir Kári

„Áfengi í verslanir - og hvað svo?“ þannig hefst leiðari Varðar Leví Traustasonar, framkvæmdastjóra Samhjálpar, í nýjasta tölublaði Samhjálpar. Þar fjallar Vörður um áfengisfrumvarpið.

Vörður segir meirihluta Íslendinga mótfallna nýju áfengisfrumvarpi og bendir á könnun Zenter frá því í febrúar máli sínu til stuðnings. „Alls svöruðu 1.023 könnunni og sögðust 61,5% mótfallin nýju áfengisfrumvarpi, sem kveður á um að heimilt verði að selja áfengi í verslunum frá og með næstu áramótum. Einungis 22,8% svarenda sögðust vera hlynnt eða mjög hlynnt frumvarpinu og 15,7% voru hvorki hlynnt né mótfallin,“ skrifar Vörður.

Samhjálp rekur meðferðarheimilið Hlaðgerðargot fyrir áfengis- og vímuefnaneytendur en það hefur í 44 ár rekið meðferðarheimili. „Síðustu ár hefur orðið mikil fjölgun í yngri aldurshópi þeirra sem sækja um meðferð í Hlaðgerðarkoti. Um 50% vistmannanna eru á aldrinum 18 til 39 ára. Í Hlaðgerðarkoti eru 30 rúm og biðlisti er að jafnaði á bilinu 80 til 90 manns,“ skrifar Vörður.

Frumvarp gegn hagsmunum barna

Hann segir að þingmenn eigi að huga að hagsmunum barna þegar ákvarðanir eru teknar sem varða þeirra hagsmuni. „Hagsmunir barna af því að njóta verndar gegn skaðlegum áhrifum áfengis eiga því að vega þyngra en önnur sjónarmið. Ef frumvarpið verður samþykkt brýtur það því gegn einni af grunnstoðum Barnasáttmálans,“ segir Vörður og tekur undir með Landlækni að fyrirhugað frumvarp sé algjörlega í andstöðu við lýðheilsustefnu fyrrverandi ríkisstjórnar.

„Undirritaður er alfarið á móti frumvarpi því sem nú liggur fyrir Alþingi og vill bjóða flutningsmönnum frumvarpsins í vikudvöl í Hlaðgerðarkoti. Undirritaður er þess fullviss að eftirtaldir þingmenn muni endurskoða afstöðu sína eftir dvölina þar. Flutningsmenn eru, auk Teits Björns, samflokksmenn hans Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Hildur Sverrisdóttir, Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, Jón Þór Ólafsson, Ásta Guðrún Helgadóttir og Viktor Orri Valgarðsson frá Pírötum og Nichole Leigh Mosty frá Bjartri framtíð,“ skrifar Vörður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert