Þingið var „rosalegt karlaveldi“

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins árið 1983. Frá vinstri: Oddný Vilhjálmsdóttir, Bessí Jóhannsdóttir, ...
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins árið 1983. Frá vinstri: Oddný Vilhjálmsdóttir, Bessí Jóhannsdóttir, Ragnhildur Helgadóttir og Sólrún B. Jensdóttir.

Árið 1986, fyrir rúmum 30 árum, tók Bessí Jóhannsdóttir sæti varaþingmanns fyrir Sjálfstæðisflokkinn og í vikunni endurtók hún leikinn þegar hún tók sæti Brynjars Níelssonar. Margt hefur breyst á þessum áratugum og það til batnaðar, að sögn Bessíar.

„Fyrst þegar ég tók sæti fannst mér eins og nýjum þingmönnum og varaþingmönnum væri lítið sinnt. Yfirbragð þingsins hefur líka breyst mikið, núna er um tæplega helmingur þingmanna konur en fyrir tæpum 30 árum voru þær örfáar. Konur eru afar virkar í umræðunni og láta mikið að sér kveða. Það er mikil breyting því fyrir 30 árum var á Alþingi rosalegt karlaveldi,“ segir Bessí.   

Hún segir viðmót starfsmanna þingsins hlýlegt og öll aðstaða þingmanna er orðin mun betri. Handbók þingmanna er aðgengileg á vef Alþingis, en í henni eru ítarlegar upplýsingar um allt sem viðkemur starfinu og svör við öllum helstu spurningunum. 

Engu mátti hrófla við

Viðmót samflokksmanna hefur einnig breyst á þessum áratugum, að sögn Bessíar. „Ég man þegar ég kom á þingflokksfund fyrir 30 árum og var full af hugmyndum sem voru í anda frjálshyggjunnar og vildi meðal annars leggja niður einhverjar ríkisstofnanir, þá fékk ég lítinn stuðning. Ég var mjög undrandi,“ segir hún og hlær og bætir við: „Það voru nokkrir karlar búnir að hreiðra vel um sig í kerfinu og það átti ekki að breyta því. Þeir voru alls ekki tilbúnir að láta hagga við sér.“  

Fyrirvarinn um að taka sæti á þingi var ekki langur eins og oft er hjá varaþingmönnum. Bessí er sögukennari við Verslunarskóla Íslands og var auðsótt að hlaupa í skarð Brynjars í þennan stutta tíma því að gert hafði verið ráð fyrir því við gerð stundaskrár annarinnar. Bessí situr á þingi í viku.

Undanfarið hefur hún unnið hratt að því að setja sig inn í hin ýmsu mál en hún tók einnig sæti Brynjars í stjórnskipunar- og eftirlits­nefnd og í efnahags- og viðskipta­nefnd. Í þeirri nefnd er meðal annars verið að fjalla um einkavæðingu bankanna.

Þingstörfin þessa dagana litast af umræðum um fjármálastefnu fyrir árin 2018 til 2022 og fjármálaáætlun sem er lögð fram árlega.  

Bessí Jóhannsdóttir er núna varaþingmaður Brynjars Níelssonar.
Bessí Jóhannsdóttir er núna varaþingmaður Brynjars Níelssonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gekk með þingmannsdraum í maganum 

Bessí var beðin um að taka sæti á lista fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir síðustu alþingiskosningar. Svaraði hún því til að það boð hefði komið nokkrum áratugum of seint. „Ég sagði: Þú hefðir átt að hringja í mig fyrir 30 árum en þá gekk ég með þingmannsdrauminn í maganum,“ segir hún og hlær.

Tímaskekkja fyrir konur fyrir 30 árum 

Fyrir alþingiskosningar árið 1983 var Bessí í 11. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins og var önnur kona á lista en Ragnhildur Helgadóttir var ofar á lista og komst inn á þing ári síðar. Í viðtali 1. desember árið 1982 í Morgunblaðinu eftir prófkjör Sjálfstæðisflokksins sagði Bessí að úrslitin væru tímaskekkja gagnvart konum, sérstaklega þegar hætta væri á sérstöku kvennaframboði. Sú varð raunin þegar Kvennalistinn bauð sig fyrst fram til alþingiskosninga árið 1983.

Spennandi að taka þátt

„Það er spennandi að taka þátt í þingstörfunum þó að ég vildi hafa dagskrána nokkuð öðruvísi en þessa viku. Allt er neglt niður með samkomulagi milli stjórnmálaflokkanna, sem takmarkar mjög möguleika til að koma með þingmál. Ég lagði fram tvær fyrirspurnir til ráðherra og skrifleg svör koma síðar eftir að ég er farin af þingi. Ég fæ vonandi tækifæri næst þegar ég kem inn á þing,“ segir varaþingmaðurinn spurður um þingstörfin. 

24. maí árið 1978 þegar Bessí var 12. maður á ...
24. maí árið 1978 þegar Bessí var 12. maður á lista Sjálfstæðisflokksins við borgarstjórnarkosningar. Eiginmaður Bessíar, Gísli Guðmundsson lögfræðingur, og börn þeirra, Erna og Guðmundur. Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
mbl.is